19.02.1985
Sameinað þing: 50. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3023 í B-deild Alþingistíðinda. (2491)

286. mál, kjör og starfsaðstaða framhaldskólakennara

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Það er orðinn heldur leiðigjarn sá málflutningur, sem heyrist hérna nokkuð oft, að ef menn leyfa sér að hafa skoðun á málum og ekki síst ef'sú skoðun er andstæð ríkisstj. séu menn að æsa til óláta. Í þessari umr. er verið að auglýsa eftir stefnu í menntamálum. Ríkisstj. er spurð hvort hún hafi stefnu í menntamálum og skólamálum. Hluti af slíkri stefnu er stefna í launamálum kennara. Það er það sem málið snýst um. Menn eru að spyrja hvað ríkisstj. hafi á prjónunum í þeim efnum, hvort hún hafi jafnvel í hyggju að gera kennarastörf að eftirsóttum störfum í landinu. Um þetta er verið að spyrja. Þessu ætti ríkisstj. að geta svarað. Svo er talað um að þetta mál eigi að fara hefðbundnar leiðir. Það er verið að spyrja að því hvort ríkisstj. ætli að fylgja eftir ákveðinni stefnu.

Það þýðir lítið að standa hérna í stól hvað eftir annað og lýsa því yfir að upp séu runnir nýir tímar í þessu landi, að nú sé að koma öld þekkingar og nýrra atvinnutækifæra og nýrra starfshátta, gamlir atvinnuhættir líði undir lok og nýrri atvinnuhættir taki við. Undirstaðan að öllu þessu er menntakerfi, skólakerfi. Sé mótuð stefna í þeim málum verður líka að móta stefnu í launamálum kennara. Það verður engin slík endurreisn, það verður ekki byggt á neinu slíku nema byrjað sé á grunninum, skólastarfinu. Þar er uppspretta þekkingarinnar. Og þetta varðar ekki bara börn. Þetta varðar fullorðna líka vegna þess að skóli á eftir að verða miklu mikilvægari fyrir fullorðið fólk en við gerum okkur grein fyrir í dag. Skóli er ekki bara hús, skóli er starf. Það er verið að spyrja að því hvort það verði þannig búið um launamál kennara að þar starfi fólk sem eflir þessa starfsemi. Það er þessi stefna sem verið er að lýsa eftir, hvort kennslustörf verði gerð að eftirsóknarverðu starfi.

Ég hef sagt einu sinni áður í þessum stól sögu um það þegar John F. Kennedy setti þjóð sinni það takmark að koma manni til tunglsins. Ég héli því líka fram þá að það hefði verið lymskulegt, pólitískt bragð til að safna þjóðinni og þm. um það markmið að efla kennslu og rannsóknir í Bandaríkjunum. Ég held að það sé lykillinn. Þetta bragð tókst, það komst maður til tunglsins. En það mikilvægasta í því efni var ekki tunglgangan, heldur það að eftir stóð öflugasta kennslu- og rannsóknarstarf í heiminum. Á grundvelli þess 20 ára starfs byggist það að Bandaríkjamenn eru núna forustumenn í þekkingaröflun og þekkingariðnaði. Ég var að segja þessa sögu á fundi með menntaskólanemum í Kópavogi í gær og sagði þeim að Bandaríkjamenn hefðu átt þær lausnir að senda menn til tunglsins. Það kom uppástunga um það að líklega væri besta ráðið í menntaskólamálum á Íslandi að senda ríkisstj. til tunglsins. Aðra leið, var bætt við.