11.10.1984
Sameinað þing: 3. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 83 í B-deild Alþingistíðinda. (25)

Skýrsla ríkisstjórnarinnar um kjaradeilurnar

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Þó að við eigum í erfiðleikum í okkar þjóðfélagi held ég samt að ekki sé svo illa fyrir okkur komið eins og hv. þm. Ellert Schram var að lýsa áðan. Ég efast ekki um að hann vill hjálpa þjóð sinni út úr erfiðleikum sem hún er í, en að afgreiða það svo einfaldlega, eins og hann gerði hér, að allt sem hér væri inni og allt sem þeir menn sem hér starfa, hvort sem þeir eru stuðningsmenn ríkisstj. eða í stjórnarandstöðu, sé afsprengi gamalla tíma, allt saman úrelt, má kalla undarlegt með tilliti til þess að allir þessir menn voru kosnir á Alþingi Íslendinga fyrir aðeins rúmu einu og hálfu ári. Og jafnvel þótt hv. þm. sé í betra sambandi við samfélagið og þjóðfélagið en við öll hin verð ég að biðja hann að hugleiða þessi orð sín aðeins betur því að hans orð voru vissulega alvarleg og hann reiddi hátt til höggs, sló kraftmikil högg gagnvart því fólki sem hér starfar.

Hv. 3. þm. Reykv., Svavar Gestsson, kom hér upp og ég átti nú von á því — hann er væntanlega hér í salnum — að frá honum kæmu einhverjar upplýsingar um það hvernig hann teldi að ætti að bregðast við þeim vanda sem samfélagið stendur frammi fyrir. En það kom ekkert nema skammir, aðallega ómerkilegar, persónulegar skammir á forsrh. landsins sem hann er vanur að slá um sig með á Alþingi Íslendinga. Honum þykir henta að tala þannig um fyrrum samstarfsmenn sína, og er nánast ótrúlegt að stjórnmálaflokkar og foringjar stjórnmálaflokks skuli hafa þennan sið. Hér áður voru menn með persónulegar svívirðingar á Alþingi og hann er einn af þeim fáu og nánast sá eini sem heldur þeim sið uppi. Það er, að mínu mati, honum til skammar og Alþingi einnig að slíkur málflutningur skuli vera hér viðhafður, og væri nær að hann eyddi meiru í málefnalega umræðu.

Hann fór hér með, held ég, eina prósentu og hún var að sjálfsögðu röng. Hann sagði að kjaraskerðingin væri 27%. Ef við lítum á þær tölur sem við höfum hefur kaupmáttur ráðstöfunartekna rýrnað á árinu 1983 um 12% og einkaneysla minnkaði á öllu því ári um 7%. Það er ekki gert ráð fyrir því að einkaneysla minnki á árinu 1984 og þótt það kunni að verða lítillega og kaupmáttur hafi rýrnað lítillega á árinu 1984 er það ekki verulegt. Nánast var þetta eina prósentan sem hann nefndi í þessari umræðu og hún var að sjálfsögðu röng.

Þegar menn ræða um kjaradeilu eins og þessa verða menn að hafa í huga hvað það er sem þjóðfélagið getur látið í té. Við getum ekki aðeins hugleitt hvað sé ranglátt og hvað sé réttlátt. Við getum talað um réttláta skiptingu þeirra tekna sem við höfum og við getum talað um rangláta skiptingu þeirra tekna sem við höfum. En við getum ekki skipt neinu umfram það, hvort sem hv. þm. Svavar Gestsson reynir það með röngum prósentuútreikningi eða ekki.

Á næsta ári er áætlað að einkaneysla verði tæpir 53 milljarðar, samneysla tæpir 10 milljarðar og fjárfesting eða fjármunamyndun í þjóðfélaginu 18 milljarðar eða samtals tæpur 81 milljarður. Á sama tíma er gert ráð fyrir að verg þjóðarframleiðsla verði 771/2 milljarður, en viðskiptajöfnuður óhagstæður um 3.4 milljarða. Það er út af fyrir sig hægt á erfiðum tímum, þegar fólk hefur mjög litlar ráðstöfunartekjur eins og við vitum að er í dag, að flytja á milli þessara liða. Við getum dregið úr fjárfestingunni og flutt yfir í einkaneysluna, við getum dregið úr samneyslunni og flutt yfir í einkaneysluna eða þá reynt að finna réttlátari skiptingu á þeirri einkaneyslu sem fyrir er í landinu. Það ætti að ræða málin á þessum grundvelli.

Ég geri ráð fyrir að fjárfesting verði minni á næsta ári en eðlilegt væri við venjuleg skilyrði. Ég geri einnig ráð fyrir að menn séu tilbúnir að draga úr samneyslu um stund til að bæta úr fyrir þeim sem verst kjörin hafa. Slíkt er eðlilegt á erfiðum tímum. En hins vegar er það ekki nein framtíðarstefna eins þjóðfélags að gera slíkt vegna þess að við þurfum að halda áfram að byggja upp til að bæta tekjur okkar og geta aukið einkaneyslu okkar síðar. Ef við förum út fyrir þennan ramma bætum við ekki kjörin, við missum efnahagslegt jafnvægi og gerum það enn þá líklegra en áður að við missum tök á efnahagsmálum okkar. Við höfum náð verulegum árangri og ég er alveg sammála hv. þm. Ellert Schram að því leytinu til að við megum ekki hrósa sigri og höfum aldrei mátt það. Að mínu mati er auðveldara að ná verðbólgunni niður í þær tölur sem við höfum náð henni en að halda það út um nokkurra ára tímabil. Það mun taka mörg ár að komast út úr þeim efnahagserfiðleikum sem við vorum komin í.

Hv. þm. Svavar Gestsson komst að þeirri niðurstöðu að atvinnuvegirnir væru í miklum vandræðum og nánast meira og minna í rúst, nema þá nokkrir kaupsýslumenn hér í Reykjavík. Ég efast ekki um að nokkrir þeirra eru ágætlega stæðir. En ekki á ég von á því samt að það sé svo mikið til þeirra að sækja að það fái bjargað undirstöðuatvinnuvegunum. Það er alveg rétt að undirstöðuatvinnuvegirnir eru í miklum vandræðum og þangað er ekki neitt að sækja. Þeir hafa verið í miklum vandræðum um langan tíma. Það voru gerðar á síðasta Alþingi margvíslegar ráðstafanir til að reyna að laga þá stöðu. Það var tekin upp ný stjórnun fiskveiða, það var ráðstafað fjármagni Aflatryggingasjóðs til sjávarútvegsins, það voru lækkaðir vextir hjá Fiskveiðasjóði og svo má lengi telja. Ég man aldrei eftir því að hv. þm. Svavar Gestsson eða hans flokkur teldu nokkuð af þessu vera nauðsynlegt til að bæta stöðu þessarar greinar. Ég held að ég muni það rétt að hann og hans flokkur hafi verið á móti öllum þessum ráðstöfunum. Og ég man ekki betur, þegar ráðstafanirnar voru gerðar í upphafi valdaferils þessarar ríkisstj. til að hjálpa þessum undirstöðuatvinnugreinum, en að hann og hans flokkur hafi talið það algjöran óþarfa og verið á móti þeim ráðstöfunum.

En hvernig skyldi nú þessi atvinnugrein vera stödd í dag ef ekkert af þessu hefði verið gert? Skyldi eitthvert fyrirtæki vera þar starfandi og skyldi eitthvað af því fólki sem annars hefur þar vinnu hafa einhverja vinnu þar í dag? Það leyfi ég mér að efast um. En hitt er svo annað mál að þessi atvinnugrein er enn í miklum vanda og það mun taka mörg ár fyrir hana að komast út úr því erfiðleikatímabili.

Sannleikurinn er sá að þegar ríkisstj. tók við var sjávarútvegurinn í miklum vanda, en við gerðum alls ekki ráð fyrir því að yfir okkur mundu dynja öll þau áföll sem við höfum orðið fyrir síðan. Þrátt fyrir það hefur verið haldið við þá gengisstefnu sem er mörkuð og e.t.v. var það óraunhæft, en að breyta frá henni hefði haft í för með sér enn meiri kjaraskerðingu fyrir fólkið í landinu en nú þegar er orðin. Það var að sjálfsögðu alvörumál að stofna til slíks. Menn töldu betra og í reynd nauðsynlegt að reyna að komast yfir þessi áföll án þess að breyta genginu frekar, m.a. með því að gera ýmsar skipulagsbreytingar og það þarf að eiga sér stað margvísleg fjárhagsleg endurskipulagning í atvinnuvegunum.

Hv. þm. Svavar Gestsson kom inn á þær skoðanir sem ég hef haft í frammi varðandi skip Hafrannsóknastofnunarinnar og vildi ég aðeins koma inn á það mál.

Það er öllum ljóst og vita allir að á haustin eru skip Hafrannsóknastofnunarinnar send í svokallaða loðnuleiðangra. Þessir leiðangrar eru mikilvægir vegna þess að út frá þeim eru teknar ákvarðanir um veiðar og þeir eru einnig mikilvægir vegna samninga okkar við erlendar þjóðir.

Þegar lögin um verkfallsrétt opinberra starfsmanna voru afgreidd hér á Alþingi 1976, og ég man vel eftir því vegna þess að ég var formaður annarrar þeirrar nefndar sem fjallaði um þá löggjöf, var lögð á það mikil áhersla að hér væri um takmarkaðan verkfallsrétt að ræða. Ég man það vel að hv. þm. Eðvarð Sigurðsson, margreyndur verkalýðsforingi og orð hans voru ekki dregin í efa á Alþingi, sagði í umræðum og við meðferð þessa máls að hann vonaðist til þess að þessi löggjöf yrði aldrei fyrirmynd að verkfallsrétti hinna almennu verkalýðsfélaga, enda er þessi verkfallsréttur annar. Það gildir þar ekkert verkbann, svo ég nefni eitt dæmi.

Forsenda fyrir þessum verkfallsrétti var m.a. að sett yrði upp svokölluð kjaradeilunefnd. Það lá fyrir að ekki væri hægt að úrskurða um það nákvæmlega hver skyldu vera hennar úrlausnarefni, en þau skyldu fyrst og fremst vera á sviði öryggis og heilsugæslu þannig að það væri tryggt að slíkum málum væri sinnt í þjóðfélaginu. Það var að sjálfsögðu ekki hægt að koma með tæmandi upptalningu á því hvað fyrir þessa nefnd gæti komið því að hér var verið að fara inn á nýjar brautir. En þessi nefnd hefur nú fjallað um yfir 300 mál og úrskurðum hennar er í flestum tilfellum hlítt.

Það var að sjálfsögðu eðlilegt að við leituðum með þessi mál til kjaradeilunefndar. Það getur vel verið að það sé ekki á hennar valdsviði, það er ekki mitt að segja til um það. Það er hennar að gera það og dómstóla landsins. Það er ekki eingöngu Bandalag starfsmanna ríkis og bæja sem á að kveða upp úrskurð um slíkt, heldur nefndin sjálf og dómstólar landsins.

Við vissum að þessi nefnd hafði talið alla eignavörslu og öryggi eigna falla undir sitt verksvið. Það má vel vera að það séu einhverjir hér sem telji ekki neina eign í fiskistofnum þjóðarinnar og það beri ekki að gera ráðstafanir sem tryggja að réttilega sé úr þeim stofnum tekið, hvorki of mikið né of lítið. Við erum kannske svo langt leidd í þessu þjóðfélagi að þessi eign okkar sé talin skipta svo litlu máli að það megi ekki um það tala á slíkum vettvangi, það megi bara tala um hvernig eigi nú að passa bankana, hvernig eigi að passa handritin og hvernig eigi að passa hinar og aðrar byggingar. Ég er ekki þeirrar skoðunar. Ég tel þessa eign vera miklu mikilvægari og merkilegri en allar aðrar eignir.

En hvað um það. Kjaradeilunefnd taldi þetta mál vera komið inn á sitt verksvið. Málið var þar afgreitt. Það eru lög í landinu sem segja að það beri að hlíta úrskurðum kjaradeilunefndar, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr. Er hv. þm. Svavar Gestsson að mæla með því að lögum landsins sé ekki hlítt í þessu efni á sama tíma sem hann gagnrýnir réttilega að öðrum lögum skuli ekki hlítt eða er hann að beina því til mín að ég eigi ekki að telja það lögbrot, að ég eigi að halda því fram að það sé ekki lögbrot að koma í veg fyrir að úrskurði laganna o réttrar nefndar sé hlítt? Hvað er maðurinn að fara? Ég vildi gjarnan fá útskýringar á því.

Hann sagði að vísu að þau áföll sem við hefðum orðið fyrir ætti þjóðin sjálf að borga og hann sagði það í undrunartóni. Telur hann að einhverjir aðrir geti borgað þessi áföll en þjóðin sjálf? (Gripið fram í.) Ég skrifaði þetta niður eftir þm. Hann sagði í undrunartón, og ég veit að hann getur lesið ræðu sína þegar hún hefur verið prentuð, að þjóðin sjálf ætti að borga þetta, almenningur í landinu. Er til einhver önnur leið? Ég kann hana ekki, en það væri fróðlegt að fá hv. þm. Svavar Gestsson til að lýsa því betur hver annar gæti borgað þau áföll sem við verðum fyrir.

Herra forseti. Það mun áreiðanlega reyna á það næstu daga og það verður að reyna á það næstu daga hvort menn geta fundið lausn á þeim vandamálum sem við sjáum nú fram á til þess að við getum af alvöru farið að taka á þeim miklu viðfangsefnum sem bíða okkar. Ef þjóðin ætlar að eyða öllum sínum kröftum í innbyrðis deilur og verkföll munum við tæpast ná landi í þeim annars miklu viðfangsefnum — ekki aðeins vandamálum heldur viðfangsefnum — sem við sjáum fram undan. Þessi deila verður að mínu mati ekki leyst öðruvísi en með einhverjum breytingum á skattkerfi okkar. Þá er að sjálfsögðu mikilvægt að þær breytingar séu notaðar til að jafna á milli þeirra sem meira mega sín og þeirra sem minna mega sín. Það er hægt að gera slíkar breytingar og það er það eina sem getur í reynd bætt um fyrir því fólki sem á um sárast að binda. Ég vænti þess að ríkisvald og verkalýðshreyfing geti náð saman um slíkar breytingar á skattkerfinu.

Ég ætlaði ekki að fara að tala hér um útvarpsrekstur í landinu og það er í sjálfu sér undarlegt að fara að gera það að einhverju stórmáli við þessar umræður eins og hér hefur komið fram. Ég tel mjög gagnrýnisvert að Ríkisútvarpið og starfsmenn þess skuli leyfa sér að leggja niður vinnu fyrirvaralaust. Í reynd sýnir það fram á að ástæða er til að endurskoða þann verkfallsrétt sem við gáfum opinberum starfsmönnum á sínum tíma. Ég er ekki með því að mæla með að hann sé afnuminn, langt í frá, en ég tel hins vegar að það eigi að takmarka hann, t.d. varðandi þessa starfsemi, þannig að ekki sé hægt að rjúfa upplýsingamiðlun í landinu eins og þessir starfsmenn leyfðu sér að gera. Því er að mínu mati rétt að afnema verkfallsrétt þessara aðila þannig að slíkt komi ekki fyrir aftur.

Hins vegar vara ég við því að þetta mál verði best leyst með því að gefa útvarpsrekstur algjörlega frjálsan í landinu. Ég er ekki á móti því að sú löggjöf sé endurskoðuð, en ég er hins vegar alfarið á móti því að hér verði settar upp margar útvarpsstöðvar sem lifa á auglýsingatekjum. Það mun þýða að útvarp úti um land mun gjalda þess. Við höfum ekki nema takmarkaða fjármuni í þessu landi og rekstur á fleiri stöðvum mun að sjálfsögðu kosta fjármuni sem einhver þarf að láta í té og væntanlega þeir aðilar helst sem kaupa auglýsingar í þjóðfélaginu og munu þá kaupa minna af þeim annars staðar. Þetta er nefnilega ekki bara frelsi til að gera eitthvað fyrir einhverja, heldur líka frelsi til að skilja aðra út undan sem minna mega sín og búa dreifðar í landinu. Það búa margir á höfuðborgarsvæðinu og auðvelt að ná á milli fólks hér, m.a. með útvarpi. Það hefur kostað mikla fjármuni að byggja upp dreifikerfi útvarps og sjónvarps um allt land og opna nýjan heim fyrir fólkinu í landinu og að sjálfsögðu eiga nokkrir starfsmenn útvarps og sjónvarps engan rétt á því að loka þessum tækjum landsmanna. Ef á að fara út í algjört frelsi á þessu sviði og gera þessa fjölmiðlun að nokkurs konar „business“ mun það hins vegar verða til þess að veikja upplýsingamiðlun í landinu, að mínu mati, og ég er því andvígur.

Hitt er svo annað mál að við þurfum að endurskoða þessi lög og það mun verða gert. Menntmrh. hefur þegar lagt fram frv. um það. Við hljótum að verða að breyta lögunum í takt við nýja tíma. En ég vara við að atburðir undanfarinna daga verði forsenda og leiðsögn í þeirri annars nauðsynlegu endurskoðun.