19.02.1985
Sameinað þing: 50. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3030 í B-deild Alþingistíðinda. (2502)

257. mál, starfsemi banka og sparisjóða

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég hef á þskj. 435 leyft mér að flytja fsp. til hæstv. viðskrh. um starfsemi banka og sparisjóða. Þessi fsp. er sú fyrsta sem hér kemur til umr. af þeim sex fsp. sem ég hef lagt fyrir hæstv. viðskrh. og snerta umsvif og ýmsa þætti í starfsemi banka og sparisjóða. Sú fsp. sem hér er lögð fram hljóðar svo, með leyfi forseta:

„1. Hverju nema skuldbindingar viðskiptabankanna erlendis?

2. Hverjar eru heimildir viðskiptabankanna til lántöku erlendis?

3. Hvernig er ábyrgð ríkissjóðs háttað á erlendum skuldbindingum bankanna?

4. Hvernig er háttað ábyrgð viðskiptabanka og sparisjóða á innstæðum sparifjáreigenda og með hvaða hætti eru innstæður sparifjáreigenda tryggðar í bönkum og sparisjóðum?“

Aðrar fsp., sem enn er ósvarað, snerta eiginfjárstöðu banka og sparisjóða, fjárfestingarbankanna, útlán- og heildarfyrirgreiðslur til stærstu lántakenda, verðbréfamarkaðinn, auglýsingakostnað bankanna, vaxtamismun, vanskil í bönkum og sparisjóðum og fleira.

Ég þarf ekki að fjölyrða frekar um þessa sérstöku fsp. sem nú liggur fyrir til umr. Ljóst er að það hvernig starfsemi banka og sparisjóða er háttað getur haft víðtæk áhrif á hag alls almennings og þjóðfélagsins í heild. Því er nauðsynlegt aðhald af hálfu Alþingis og að sem gleggstar upplýsingar liggi fyrir um starfsemi peningamálastofnana í landinu.