19.02.1985
Sameinað þing: 51. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3044 í B-deild Alþingistíðinda. (2526)

222. mál, stofnun og rekstur smáfyrirtækja

Flm. (Guðmundur Einarsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um eflingu atvinnulífs með stuðningi við stofnun og rekstur smáfyrirtækja. Þetta er 222. mál, þskj. 269. Flm. auk mín eru hv. þm. Stefán Benediktsson, Kolbrún Jónsdóttir og Kristófer Már Kristinsson. Ég vil, með leyfi forseta, lesa till. sjálfa. Hún hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að gera áætlun um eflingu atvinnulífs með aðgerðum til stuðnings við stofnun smáfyrirtækja. Aðgerðir þessar nái m.a. til eftirtalinna atriða:

1. Fræðsla verði efld fyrir almenning um stofnun og rekstur smáfyrirtækja, m.a. með samningu fræðsluefnis, útgáfu handbóka og námskeiðahaldi.

2. Tímabundin, ódýr sérfræðiþjónusta verði veitt stofnendum smáfyrirtækja, t.d. með rekstrarráðgjöf, bókhaldsaðstoð, markaðskönnunum, lögfræðiþjónustu og aðstoð við vöruþróun.

3. Fjárhagslegur grundvöllur fyrir stofnun smáfyrirtækja verði styrktur með ýmsum hætti.“

Þessari þáltill. fylgir ítarleg grg. og ég ætla þess vegna ekki að hafa mörg orð um þetta mál nú. Ég vil hins vegar vekja athygli á því að það er niðurstaða athugana í ýmsum löndum að smáfyrirtæki henta mjög vel til atvinnuuppbyggingar. Þau eru afvinnuskapandi, þau hafa reynst mikil uppspretta nýsköpunar og þau hafa auk þess reynst fólki ánægjulegt umhverfi. Þar eru launakjör og ýmis aðbúnaður oft með þeim hætti að fólki þykir það fýsilegri vettvangur til þess að vinna á en í hinum stærri fyrirtækjum.

Til þess að efla rekstur smáfyrirtækja hafa verið farnar ýmsar leiðir eins og vikið er að í þáltill. sjálfri. Í fyrsta lagi hefur í ýmsum löndum verið rekin mjög öflug upplýsinga- og kennslustarfsemi um rekstur og stofnun smáfyrirtækja. Það hefur beinlínis verið rekinn áróður fyrir því að fólk reyni sig á þessum vettvangi, að fólk kynnti hugmyndir sem það hefur og mættu hugsanlega verða til gagns í atvinnulífi. Það hafa verið samin ýmiss konar fræðslu- og áróðursrit í þessu skyni. Að því er vikið í III. kafla ályktunarinnar þar sem rætt er um fræðslu. Ég ætla ekki að ræða það mál meira hér.

Í öðru lagi er, eins og ályktunin segir, mikilvægt að veita ýmiss konar sérfræðiþjónustu til að kanna og til að aðstoða fólk við fyrstu stig þess að hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd. Þar mætti nefna tæknismiðju. Það er þjónusta, sem er rekin í ýmsum löndum, þar sem fólki er veittur aðgangur að tækjum og sérfræðiþjónustu þar sem athugað er í grófum dráttum hvort þær hugmyndir, ef þær eru tæknilegs eðlis, gætu verið nýtilegar til framleiðslu. Þessi sérfræðiþjónusta getur verið af ýmsu fleiru tagi. Það getur verið aðstoð í sambandi við bókhald, rekstrarráðgjöf og ýmislegt fleira, en þessi þjónusta á að hafa það að markmiði að koma öllum til einhvers þroska þannig að þeir geti sinnt þessum efnum sjálfir þegar fram í sækir.

Veigamikið atriði í svona atvinnustefnu eru aðgerðir í fjármálum. Í því skyni hafa ýmsar leiðir verið farnar. Við þm. BJ munum á næstu dögum leggja fram þáltill. um það sem við köllum lánsábyrgðir smáfyrirtækja. Slík lánsábyrgðakerfi eru þekkt frá ýmsum löndum. Nærtækt dæmi er frá Bretlandi. Breska ríkisstjórnin setti árið 1981 af stað lánsábyrgðakerfi fyrir smáfyrirtæki þar sem hið opinbera ábyrgist ákveðinn hluta lána sem bankar veita smáfyrirtækjum. Í framkvæmdinni, eins og hún hefur verið hjá Bretum, hafa fyrirtæki á framleiðslusviði verið látin njóta forgangs. Það hefur gengið á ýmsu í þessari framkvæmd, en þetta kerfi var endurskoðað á síðasta ári og ákveðið að halda því áfram eftir þriggja ára reynslutímabil með ákveðnum breytingum. Ég tel að mikilvægt sé að sinna þessu máli hérlendis.

Í ýmsum löndum tíðkast ýmiss konar aðrar aðgerðir í fjármálum á þessu sviði. Það eru aðgerðir í skattamálum, ýmiss konar tímabundinn afsláttur af gjöldum, styrkir í ákveðnu skyni til að koma svona starfsemi af stað, rekstur iðngarða eins og við þekkjum og ýmsir hafa reynt hér og þannig mætti lengi telja. Þetta er atriði sem rætt er um í grg. og ég vísa til hennar.

Í síðasta lagi vildi ég gera að örstuttu umræðuefni stjórn aðgerðanna. Það er hugmynd okkar í BJ sem við höfum gert grein fyrir og voru fluttar um tillögur á síðasta þingi, að forræði heimamanna og landshluta verði aukið í atvinnumálum og reyndar á fleiri sviðum. Í því sambandi vil ég benda á þáltill., sem var flutt á síðasta þingi, sem var um að komið yrði á fót þróunarstofum landshlutanna. Þessar þróunarstofur áttu að okkar mati að hafa forgöngu um mótun atvinnustefnu og veita alhliða ráðgjöf á öllum sviðum atvinnulífs og ættu að hafa umtalsvert sjálfsforræði til áætlanagerðar, ákvarðanatöku og dreifingar og öflunar fjármagns. Ég tel að mjög mikilvægt sé að forræði heimamanna sé tryggt í þessum efnum hvernig sem að því er staðið. Nú er þegar fyrir hendi vísir að stjórnvaldi sem gæti sinnt þessum efnum, en það eru samtök sveitarfélaga sem eru orðin þó nokkuð sterk í ýmsum landshlutum. Ég held að með samstarfi þeirra aðila og iðnráðgjafa, sem einnig eru starfandi í flestum landshlutum, mætti stíga fyrstu skrefin í þessu efni. Ég legg á það áherslu um leið að ég held að þessu heimastjórnarmáli verði að sinna sérstaklega og þegar það er komið vel á rekspöl ætti atvinnustefna í smáfyrirtækjamálum e.t.v. að heyra undir nýtt stjórnvald á þessu sviði. En eins og er er hægt að hefja aðgerðir með þeim aðilum sem þegar eru fyrir hendi, samtökum sveitarfélaga, sveitarstjórnum og iðnráðgjöfum.

Ég hef hérna drepið á nokkur atriði sem ég held að séu mikilvæg í þessum efnum. Ég vísa aftur til grg., sem tekur ítarlega fyrir ýmsa þætti þessa máls, og vil benda á að síðan þetta mál var flutt á síðasta þingi hafa komið út á vegum iðnrn. þrjár skýrslur sem fjalla um atvinnumál af þessu tagi. Það er í fyrsta lagi skýrsla sem heitir Iðnráðgjöf í landshlutum, í öðru lagi Smáfyrirtækjaverkefni og í þriðja lagi Þróunarverkefni. Í þessum skýrslum er lýst verkefnum sem unnið hefur verið að af hálfu iðnrn. síðan 1981. Þar er að finna mikilvægan fróðleik og ágæta undirstöðu að stórtækari stefnumörkun til langs tíma eins og þessi till. gerir ráð fyrir.

Ég vil enda þessa stuttu framsögu mína með því að skora eindregið á Alþingi að taka þetta mál mjög sterklega fyrir, nýta þá reynslu sem þegar hefur fengist í þessu með þeim fyrstu skrefum sem hafa verið stigin og marka stórvirka, stórtæka stefnu í þessu efni. Ég er alveg viss um að smáfyrirtæki eiga eftir að reynast okkur jafn vel og þau hafa reynst í öðrum löndum þar sem þau hafa verið gerð að meginás í nýsköpun afvinnulífs.

Að svo mæltu vil ég leggja til að að þessum hluta umr. loknum verði málinu vísað til hv. atvmn.