19.02.1985
Sameinað þing: 51. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3051 í B-deild Alþingistíðinda. (2532)

268. mál, mengunarvarnir í fiskimjölsverksmiðjum

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég þakka þeim hv. þremur þm., sem hér hafa talað í umr. um þetta mál, fyrir jákvæðar undirtektir og skilning á þeim vanda sem hér er við að fást. Ég met þau sjónarmið sem þar komu fram og t.d. þau orð sem hv. þm. Valdimar Indriðason mælti um það mikla hagræði sem hægt væri að hafa af endurbótum í þessum málum. Það eru orð sem ég held að menn ættu að íhuga nú þegar nauðsyn er á því að við fáum sem mest út úr því sem aflast í okkar sjávarútvegi og einmitt sú staða ætti að vera mönnum hvatning til þess að ráðstafa fjármagni til þeirra úrbóta sem nauðsynlegar eru í þessu samhengi.

Mér er alveg ljóst að hér þarf að koma til lánsfé og það er ekki vinsælt á þessum dögum að mæla fyrir erlendum lántökum í sambandi við framkvæmdir í okkar atvinnulífi. Það þekkja menn af umr. í þinginu. En ég tel að þegar um brýn mál er að ræða sem þessi og sem einnig eru auðsæilega arðgefandi til lengri tíma litið beri að veita þeim ákveðinn forgang.

Það er alveg rétt, sem hér hefur verið undirstrikað af mér og þeim sem síðar hafa talað, að ástandið er misjafnt eftir staðháttum varðandi þennan mengunarvanda, sérstaklega loftmengunina, en einnig reyndar sjávarmengunina, þar sem dreifingunni er mjög misjafnlega háttað eftir staðháttum. Á engum landsfjórðungi mun þetta mál brenna heitar en Austurlandi nú í aflasældinni á yfirstandandi loðnuvertíð og við þær aðstæður í veðurfari sem ríkt hafa. En slíkir staðir eru víða eins og menn þekkja, þar sem þessi mengun er tilfinnanleg þannig að hér er ekki um afmarkað kjördæmismál að ræða. Það er hv. þm. auðvitað einnig ljóst.

Ég vænti þess, herra forseti, ekki aðeins að þetta mál fái þinglega meðferð í nefnd, heldur verði það tekið til meðferðar í tengslum við fjárfestingar-'og lánsfjáráætlun hér í þinginu fyrir þetta ár að tryggja lánsfjármagn til loðnuverksmiðjanna sem sérmerkt sé í þessu skyni. Ég er ansi smeykur um að eins og fjárfestingar- og lánsfjáráætlun liggur fyrir sé heldur þröngt fyrir dyrum hjá Fiskveiðasjóði, miðað við þá mörgu sem þangað sækja, og ég veit um það að á vissum stöðum a.m.k. er undirbúningur vel á veg kominn og fyrirliggjandi til úrbóta. Það á t.d. við um mína heimabyggð, Neskaupstað. Þar liggur fyrir áætlun um brýnustu úrbætur, aðgerðir sem unnt er að ráðast í á þessu ári ef hægt er að verða við umsókn um lánsfé til aðgerðanna. Og ég hygg að svo sé víðar. En jafnnauðsynlegt er að taka á þessum málum til lengri tíma litið þannig að hámarksárangri verði skilað í sambandi við nýtingu hráefnis, verðmætisauka og orkusparnað.