20.02.1985
Neðri deild: 43. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3089 í B-deild Alþingistíðinda. (2572)

279. mál, ráðstafanir í húsnæðismálum

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Þessum fsp. mun ég reyna að svara. Þetta sem hv. 3. þm. Reykv. las upp úr DV sá ég bara á skotspónum um leið og ég kom hér inn áðan. Kemur mér það ákaflega mikið á óvart og mun að sjálfsögðu láta rannsaka það niður í kjölinn af þeirri einföldu ástæðu að það var einmitt að minni tillögu í ríkisstj. 1983 að gerður yrði mismunur á meðferð vaxtahækkunar í sambandi við það sem þá lá fyrir. Lánskjaravísitalan átti þá að mæla 8.1% en lagt var til að það yrði ekki nema 5.1% að því er varðaði húsnæðislán til námsmanna sérstaklega. Um þetta var gerð ákveðin samþykkt sem var birt opinberlega í öllum fjölmiðlum og Húsnæðisstofnun hafði bein fyrirmæli í bréfi 2/9 1983 um afgreiðslu mála í samræmi við þessa samþykkt. Hins vegar mun ég láta rannsaka það, eins og ég sagði áðan, hvernig á því stendur að aðstoðarbankastjóri Seðlabankans gefur þessar upplýsingar og ekki hvað síst það sem haft er eftir forstjóra Húsnæðisstofnunar ríkisins en það er kapítuli út af fyrir sig. Ég vissi ekki annað en þetta hefði verið framkvæmt eins og frá því var gengið því að þetta var sérstök aðgerð af hálfu stjórnvalda til að reyna að létta undir við meðferð lánskjaravísitölunnar í sambandi við húsnæðismálin og í sambandi við Lánasjóð ísl. námsmanna. Þetta verður athugað.

Varðandi það sem hv. þm. spyrst fyrir um, lánskjaravísitöluna og áhrif hennar og hvort um væri að ræða tillögugerð eða áform um að breyta lánskjaravísitölunni að því er varðar húsnæðislánin, skilji ég rétt, og miða eingöngu við byggingarvísitölu, þá vil ég geta þess hér að þetta mál er í meðferð. Hinn 15. janúar s.l. lagði ég fram tillögu í ríkisstj. um að endurskoðun færi fram á lánskjaravísitölunni og meðferð hennar miðað við þá miklu greiðslubyrði, sem er mér og ég geri ráð fyrir flestum ljós, og þann vanda sem fólk er í vegna verðtryggðu lánanna. Niðurstaðan varð sú að til starfa tók sérstök nefnd sem er nú að ljúka úttekt á þessu máli. Reynt er að finna aðferð sem gæti dugað til frambúðar, án þess þó að breyta lánskjaravísitölunni út af fyrir sig, heldur yrði fundin greiðslujöfnunaraðferð til að mæta þeim vanda sem fólk er í með verðtryggð lán, a.m.k. að því er varðar opinbera sjóði.

Ég geri ráð fyrir því að núna fljótlega, a.m.k. ekki seinna en í næstu viku, verði hægt að skýra frá því hvaða meðferð þetta mál fær. Þessar tillögur verða lagðar fyrir ríkisstj. og það er vilji fyrir því að reyna að finna viðráðanlegan flöt á þessu máli sem brennur á öllum. Ég geri ráð fyrir að menn séu sammála um það. En það er ekki sama hvernig þetta er gert. Hér hafa komið fram á hv. Alþingi fleiri en ein tillaga um það hvernig við þessu verði orðið og eins og ég segi, það er verið að leita leiða til að leysa þetta vandamál. Ég svara þessari spurningu ekki öðruvísi á þessu stigi máls.

Í sambandi við það sem spurt var hér um fjárhagsvanda byggingarsjóðanna er það rétt að því leyti til að það kom frétt um það í Morgunblaðinu í morgun að búið væri að leysa þessi mál. Við vorum á fundi, hæstv. fjmrh. og ég, í gær og samkomulag náðist um tilfærslu á því fjármagni sem öruggt er í dag að byggingarsjóðunum er ætlað á þessu ári, að færa það fram til þess að hægt sé að mæta þeim lánarétti sem þegar liggur fyrir vegna framkvæmda á árinu 1984 og hefja útgreiðslu á lánum til húsbyggjenda. Þessi lánaréttur er liðlega 300 millj. kr. og mun það fé þá koma til útborgunar í þessum og næsta mánuði. Og ég reikna með því að það geti leyst úr þessu máli. Ég hef þegar haldið fund í morgun með Húsnæðisstofnun um framkvæmd á þessu og þegar í dag er byrjað að skrifa út til fólks um þessa afgreiðsluákvörðun sem væntanlega verður þá hægt að hraða útborgun á.

Hins vegar mun öllum vera ljóst og ég gerði grein fyrir því í umr. s.l. mánudag í þessari hv. deild að það er eftir að fjalla um lánsfjáráætlunina og lánsfjárlög. Þar er um að ræða að marka þá lánastefnu og þá útlánastefnu sem Alþingi og ríkisstj. koma sér saman um á árinu 1985. Og fyrr en búið er að taka þá ákvörðun er ekki nákvæmlega hægt að segja til um útlánastefnuna fyrir árið 1985 að öðru leyti. En ég tel mjög mikilvægt að gera sér grein fyrir því að sú áætlun og ákvörðun verður að vera þannig að við hana verði hægt að standa.

Ég vil geta þess, af því að það hefur nú komið fram í fjölmiðlum, að það hefði verið ástæða til að gera ráðstafanir á árinu 1984 til þess að draga úr þenslu í byggingariðnaðinum. En hvorki í eldri lögum frá 1980 né í nýsettum lögum frá 1984 fannst mönnum ástæða til að setja sérstakar skorður við frelsi manna til bygginga. Og ég get getið þess hér að það hefur sjálfsagt aldrei verið farið af stað með eins mikið magn af byggingum eins og á árinu 1984, án þess þó að menn hefðu í höndum sérstakan lánsrétt hvað slíkar framkvæmdir varðar, nema það sem gert er ráð fyrir í lögum.

Þar sem ljóst var að lánsréttur vegna framkvæmda 1984 er miklu, miklu meiri en áætlanir Húsnæðisstofnunar og lánsfjárlög gerðu ráð fyrir þá var ekki um annað að ræða en að taka ákvörðun um það að setja eindaga á lánaumsóknir, sem var 1. febrúar s.l., og einnig að taka ákveðna stefnu gegnum Húsnæðisstofnun um þær takmarkanir sem kæmu til greina varðandi lán úr byggingarsjóðunum. Það var gert og Húsnæðisstofnun hefur nú þegar skilað mér tillögum um það hvernig stofnunin vill draga úr lánarétti með takmörkun á stærð íbúðarhúsnæðis. Þær eru nú til meðferðar hjá ráðh. og munu verða staðfestar innan tíðar.

Ekki verður hægt að gefa fólki nein fyrirheit um lánamöguleika til nýrra framkvæmda á árinu 1985 að mínu mati fyrr en lánsfjárlög hafa verið endanlega samþykkt hér á hv. Alþingi. Og ég mun ekki láta Húsnæðisstofnunina fara af stað með lánsfyrirmæli til nýrra framkvæmda á árinu 1985, sem ekki var byrjað á eða samþykkt á árinu 1984, fyrr en Alþingi hefur gengið frá lánsfjárlögum, svo að tryggt sé að það fjármagn sem stofnunin á að byggja sínar áætlanir á til fólksins fái staðist.