21.02.1985
Sameinað þing: 52. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3100 í B-deild Alþingistíðinda. (2590)

123. mál, ilmenitmagn í Húnavatnssýslum

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil með. nokkrum orðum lýsa efnislegum stuðningi mínum við till. sem hér er til umr. Ég held að hér sé gerð þörf till. og er ánægjulegt í hvert sinn sem menn ræða nýtingu íslenskra auðlinda, hvort sem það eru jarðefni eða annað.

Ég vil taka undir það, sem kom reyndar fram í máli hv. flm. þegar hann las úr umsögnum Iðntæknistofnunar um þetta mál, að það er ástæða til, að mínu mati, að gera þessa till. víðtækari, án þess að ég sé að draga úr því að Húnavatnssýslur eigi að koma þar sérstaklega til skoðunar svo sem eðlilegt er af jarðfræðilegum ástæðum og landfræðilegum. En það er auðvitað víðar basískt djúpberg að finna á Íslandi en í Húnavatnssýslum. Ég held að eðlilegt væri að gera víðtækari úttekt á möguleikum okkar á þessu sviði sem og reyndar á fleiri sviðum er varða nýtingu íslenskra jarðefna, hvort sem þar er um að ræða jarðefni úr föstu bergi eða lausum jarðlögum.

Ég held að málið liggi einnig þannig að óhjákvæmilegt sé að vinna í tengslum við slíka úttekt og jarðfræðilega könnun ákveðna tilraunastarfsemi því að það er allmikið til af efnagreiningum úr basísku djúpbergi og einnig er eitthvað til af efnagreiningum af lausum jarðefnum sem þaðan eru ættuð og innihalda titan, en hitt hygg ég að menn skorti meira vitneskju um, þ.e. vinnslulega eiginleika þessara jarðefna. Þar þarf óhjákvæmilega að gera nokkrar tilraunir, jafnvel frumrannsóknir, því að basískt djúpberg er ekki algengt á yfirborði jarðarinnar. Það vill nú svo til að Ísland er jarðfræðilega í miklum minnihlutahópi, ef svo má að orði komast. Það tilheyrir botni úthafanna miklu fremur en þurrlendinu og meginlandsskildir heimsálfanna hafa yfirleitt ekki á yfirborði sínu berg af þeirri tegund sem við erum hér að ræða um. Ísland er, eins og kunnugt er og óþarfi er að lýsa fyrir hv. þingheimi, jarðfræðilega miklu skyldara botni úthafanna og hryggjunum sem þar liggja enda reyndar kollur á einum slíkum.

Í gamni og alvöru bendi ég flm. og þeirri nefnd sem fær þetta til umfjöllunar á að snúa sér til Seðlabanka Íslands í leit að upplýsingum því að eins og allir vita hefur Seðlabankinn undanfarna mánuði staðið fyrir umfangsmikilli starfsemi sem er að saga gabbró, sem er einmitt bergtegund sú sem hér er til umfjöllunar, niður í þunnar sneiðar. Það gefur auga leið að miklar upplýsingar hljóta að hafa komið fram við þetta brautryðjendastarf Seðlabankans og þá miklu vinnu sem þar hefur verið innt af höndum. Ég held því að ástæða sé til að kanna hvort þeir lumi ekki á einhverjum upplýsingum sem að gagni mega koma í þessu efni.

Að öllu gamni slepptu er auðvitað nauðsynlegt fyrir okkur Íslendinga að fylgjast vel með hvað varðar nýtingu á þessu efni sem og fleiri jarðefnum. Það er ýmislegt að breytast úti í hinum stóra heimi, bæði af völdum þess að námur, sem fram undir þetta hafa verið nýttar, ganga til þurrðar og einnig hitt að ný tækni kallar á ný hráefni. Almennt séð má segja að þar sé tilfærsla frá hinum hefðbundnu jarðmálmum yfir til ýmissa léttari málma og nýrra tegunda í svonefndum hátæknigreinum, en þetta mál gæti sem best flokkast og fallið undir það.

Herra forseti. Ég hef þessi orð þá ekki fleiri, en lýsi efnislega stuðningi mínum við þessa till. svo langt sem hún nær.