21.02.1985
Sameinað þing: 52. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3125 í B-deild Alþingistíðinda. (2608)

27. mál, húsameistari ríkisins

Flm. (Stefán Benediktsson):

Herra forseti. Ég verð víst að byrja á því að biðjast afsökunar á því að mér láðist, í tilraun minni til þess að hafa orð mín um seinustu þáltill. sem fæst, að beiðast þess að þáltill., sem ég mælti fyrir hér áðan, yrði vísað til allshn. Sþ.

Ég mæli þá hér fyrir till. á þskj. 27 um að ríkisvaldið hætti rekstri embættis húsameistara ríkisins, þ.e. leggi niður þá starfsemi sem þar fer fram. Til skýringar þá get ég sætt mig við það að embættið sjálft sé fyrir hendi. Það þarf að sinna ýmsum verkefnum sem eru kannske meira bókasafnslegs eðlis en verklegs eðlis. Einhver þarf að sinna þeim og því er alveg hægt að hugsa sér það að til þess sé skipaður eða ráðinn maður sem megi þá heita húsameistari ríkisins. Það sem ég er að leggja áherslu á að afnumið verði er annars vegar óeðlileg niðurgreidd starfsemi húsameistaraembættisins, óeðlileg í ljósi þess að þessa sérfræðilegu þjónustu er raunverulega ekki hægt að draga til ábyrgðar fyrir störf sín með sama hætti og sérfræðinga sem keyptir eru að úr atvinnulífinu. Þar sem ríkisvaldið ber ábyrgð á gerðum þessa sérfræðings getur það ekki sótt sjálft sig til saka.

Hins vegar hefur þjónusta þessa embættis mælst illa fyrir víðs vegar í kerfinu þar sem menn hafa orðið að nota hana — eða í sumum tilvikum nánast orðið að þola hana. Það er bæði hægt að benda á það að byggingarkostnaður þeirra bygginga, sem húsameistaraembættið hefur staðið að, er óeðlilega hár þar sem hægt er að bera hann saman við sambærilegar byggingar á frjálsum markaði og það er með öllu óeðlilegt að þeir aðilar, sem sinna annars vegar embætti húsameistara ríkisins Ég hins vegar störfum hjá embættinu, séu að meira eða minna leyti teiknandi og vinnandi sem sérfræðingar og ráðgjafar fyrir einkaaðila út um borg og bæ. Ég er þá að tala um það að húsameistari ríkisins sinni þeim verkefnum, sem honum eru falin af sínum yfirboðara, sem í þessu tilviki er forsrh., en sé ekki að teikna hótel eða atvinnubyggingar. Á ég þá við byggingar eins og Hótel Sögu, Breiðablik eða Eimskip eða einkahús út um borg og bæ. Ég held því fram að þessi aukastarfsemi starfsmanna embættis húsameistara ríkisins, og þar undanskil ég fáa, leiði hreint og beint til þess að þjónusta þessa embættis við viðskipavini sína sé léleg og slök. Þess vegna beri að leggja þessa starfsemi niður.