21.02.1985
Sameinað þing: 52. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3132 í B-deild Alþingistíðinda. (2615)

26. mál, framkvæmdadeild Innkaupastofnunar ríkisins

Flm. (Stefán Benediktsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka þá málefnalegu umr. um þessi till. hefur fengið. Ég vil benda hv. síðasta ræðumanni, nafna mínum, hv. 3. þm. Norðurl. e,., á að það er hægt að leysa þau vandamál sem hann lýsti á afskaplega einfaldan hátt. Í fyrsta lagi hefur maður ekki samninga við arkitektinn fyrr en maður hefur hreinlega og ítarlega byggingarlýsingu, þar sem er tekið fram hvað í byggingunni eigi að vera, af hvaða stærðum og hvað byggingin megi kosta.

Ef maður verður fyrir því óhappi að skipta við slíkan vitleysing að hann taki engum sönsum eða sinni ekki athugasemdum manns, þá hefur maður náttúrlega ekki nema um eitt að velja og það er að skipta ekki við hann aftur. Sá möguleiki er fyrir hendi þegar maður hefur úr rúmlega 100 sérfræðingum á þessu sviði að velja. Þetta segi ég ekki hvað síst í ljósi orða hv. 10. landsk. þm. Það er nefnilega nokkuð áberandi að jafnvel við þá menn, sem hvað mest er kvartað undan í viðskiptum, og þá á ég við starfsbræður mína, arkitekta, er alltaf skipt aftur og aftur. Og reyni nú einhver að skýra út fyrir mér hvers vegna það er gert. Það skyldi þó aldrei vera að þar gilti nokkuð sem hv. 3. þm. Norðurl. e. kallaði einhvern tíma að nauðsynlegt væri að menn væru eitt og hið sama yst sem innst klæða.

Til upplýsingar fyrir hv. 10. landsk. þm., þá er það reyndar ekki þannig að greiðslur til arkitekta fari beint eftir verklagi hússins sem um er að ræða hverju sinni. En því miður eru greiðslur til arkitekta háðar rúmmálsstærð hússins. Þetta er óheppilegt og hefur lengi verið unnið að því að reyna að breyta því. Mér skilst að þær breytingar nái fram að ganga jafnvel á þessu ári að þóknunargreiðsla til arkitekta verði ekki miðuð við rúmmálsstærð því að stórt rúmmál þýðir reyndar hærri byggingarkostnað. Aftur á móti hefur það prjál og sá lúxus, sem arkitektar samþykkja eða jafnvel standa fyrir í húsbyggingum, ekki bein áhrif á þóknun til þeirra. En því miður fara oft og tíðum saman með ákveðnum hætti hagsmunir arkitektsins og ímyndaðir hagsmunir sveitarstjórna, sem ætla sér að drýgja hlut sinn vegna kostnaðarþátttöku ríkisins við upphaf verks við viðkomandi byggingu, upphaflegan stofnkostnað, og taka þá oft og tíðum of stór skref í ákvörðunum og það leiðir endanlega svo e.t.v. til fáránlega dýrra bygginga. En vel að merkja, þetta tel ég þá vera enn eina röksemd fyrir því að títtnefnd stofnun, sem hér er til umr., hafi ekki gegnt sínu hlutverki sem skyldi, því að aldrei hef ég vitað til þess að hún hafi raunverulega gengið þarna á milli og stöðvað menn í bruðli.