23.10.1984
Sameinað þing: 9. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 442 í B-deild Alþingistíðinda. (265)

Umræður utan dagskrár

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég tel ástæðu til að fara nokkuð yfir þau svör og þær spurningar sem hér hafa aðallega verið á dagskrá. Ég vil í fyrsta lagi ítreka spurningu hv. þm. Karvels Pálmasonar varðandi afstöðu fulltrúa ríkisins í stjórn Orkubús Vestfjarða. En þar var um að ræða kjarasamning sem hefur þau ákvæði inni að halda að kaupmáttur launa skuli miðast við það sem verður á fjórða ársfjórðungi 1984. Nauðsynlegt er að fá um það vitneskju hvort ríkisstj. sem slík var þarna höfð með í ráðum og beri því ábyrgð á þessu ákvæði, sem er í rauninni mjög athyglisvert og e.t.v. stefnumótandi í þeirri kjaradeilu sem nú stendur yfir.

Ég lagði fyrir hæstv. forsrh. fjórar spurningar. Sú fyrsta var um kaupmáttartryggingu. Ég spurði hæstv. forsrh. ekki um vísitölukerfi. Það þarf ekkert að vera að snúa út úr mínum orðum með þeim hætti að ég hafi verið að gera kröfur um vísitölukerfi eða það vísitölukerfi sem hér hefur verið og var í gildi. Ég var að spyrja um kaupmáttartryggingu, sem er aðalatriðið. Ég endurtek það sem ég sagði áðan: Ég held að snúningspunkturinn í kjaradeilunni núna liggi þarna. Vill ríkisstj. með einhverjum hætti stuðla að því að ákveðin verði einhvers konar kaupmáttartrygging eða endurskoðunarákvæði í þeim kjarasamningum sem nú er verið að undirbúa? Ég er sannfærður um það að lykillinn að lausn kjaradeilunnar gæti legið einhvers staðar þarna og ég bið forsrh. að skilja ekki orð mín svo að ég sé hér að tala um eitthvert bandvitlaust vísitölukerfi. Það er ekkert slíkt sem ég er hér að tala um.

Hv. þm. Þorsteinn Pálsson skildi það alveg rétt sem ég var að segja. Ég var að tala um kaupmáttartryggingu, tryggingu þess kaupmáttar sem um er samið, hvernig svo sem að því verður farið. Til þess er hægt að hugsa sér margs konar aðferðir eins og hér hefur verið rætt um undanfarna daga.

Svör forsrh. í þessum efnum voru að vísu skýr að því leyti að hann hafnar algerlega vísitölutengingu. En hann hafnaði ekki þeim möguleika — og það gerði hv. þm. Þorsteinn Pálsson ekki heldur-að tekið yrði á því sérstaklega að sett yrði inn í samninga einhvers konar kaupmáttartrygging. Því hefur ekki verið hafnað af stjórnarliðinu hér í dag.

Í öðru lagi spurði ég: Er það ætlun ríkisstj. að taka það af með lögum sem samið kann að verða um í kaupi umfram kaupmátt fjórða ársfjórðungs 1983? Allar þessar umr. um blandaða leið, um 20% hér og 5% þar, skattalækkun o.s.frv., snúast í raun og veru um þetta atriði. Ríkisstj. hefur bitið sig fasta í það að kaupmáttur launa 1985 megi ekki fara fram yfir fjórða ársfjórðung 1983 og þess vegna er þetta alger lykilspurning. Er ríkisstj. enn með þá skoðun að ekki komi til greina að líða það að kaupmáttur fari fram yfir þessa tölu? Eða er ríkisstj. nú að átta sig á því að hún verður að slaka þarna eitthvað á, m.a. vegna þess að þjóðartekjur urðu hærri á þessu ári en spáð var í febrúarmánuði s.l.? Er hugsanlegt að aðild ríkisstj. að samningnum á Vestfjörðum bendi til þess að menn séu eitthvað að slaka til varðandi þennan fjórða ársfjórðung 1983, en ríkisstj. hefur hangið á honum til þessa eins og hundur á roði? Ég hef spurt aftur og aftur og ég spyr enn: Er ætlun ríkisstj. að miða við þetta eitt og er það þá ætlun hennar að taka það af með lögum sem samið kann að verða um umfram þetta? Þessari spurningu hefur hæstv. forsrh. því miður ekki svarað.

Þriðja spurningin, sem ég bar hér fram, var varðandi lög. Svör bæði formanns Sjálfstfl. og hæstv. forsrh. í þeim efnum voru skýr. Þeir sögðu: Lög verða ekki sett í deilunni. Það þýðir að ef þeir nálgast deiluna á síðari stigum með því að setja lög, þá væru þeir að ganga á bak þeirra afdráttarlausu yfirlýsinga sem þeir báðir hafa gefið hér í dag.

Fjórða atriðið, sem ég spurði hér um í dag, var varðandi aðild ríkisstj. að þessu makalausa þriðja bréfi Alberts Guðmundssonar, hæstv. fjmrh. En eins og kunnugt er eru í gömlum bókum ýmis bréf talin til bókmenntaverka og þau nefnd Fyrsta bréf, Annað bréf og Þriðja bréf þeirra sem skráðu. Við förum nú að fá í okkur sögu Fyrsta, Annað og Þriðja bréf Alberts. Þau verða vonandi ekki fleiri því að fjmrn. hefur svo mikið að gera við að svara fsp. hv. þm. Jóns Baldvins Hannibalssonar.

En það sem kom hér fram varðandi Hið þriðja bréf Alberts var það að ríkisstj. ber ábyrgð á því. Forsrh. ber ábyrgð á því bréfi líka. Hann lýsti því yfir áðan að ríkisstj. bæri öll ábyrgð á því bréfi, þar sem mönnum er hótað tukthúsvist. Þá er það skýrt hvaða afstöðu hún hefur til mannréttinda hér í þjóðfélaginu, ríkisstj. í heild og þar með báðir flokkar ríkisstj. Í þessari stöðu væri auðvitað sæmst að Alþingi samþykkti ályktun um að fela fjmrh. að draga öll þessi bréf til baka, enda mætti það verða til þess að greiða fyrir lausn þeirrar erfiðu kjaradeilu sem nú stendur yfir.

Ummæli þau sem hæstv. fjmrh. viðhafði hér um opinbera starfsmenn áðan voru alveg með ólíkindum. Hafði hann þó þau ummæli uppi án frammíkalla sem hafa valdið honum erfiðleikum fyrr í sögunni, eins og kunnugt er. En hæstv. ráðh. talaði orðrétt um það gerræði sem unnið hefði verið af verkfallsvörðum og BSRB. Hér talar sá maður sem ætti að reyna að stuðla að góðu samningsandrúmslofti. Það er alveg bersýnilegt að hann er ekkert á þeim brókunum enn þá.

Varðandi þá skattaumræðu sem hér hefur farið fram vil ég bara leyfa mér að lokum að taka undir það sem fram kom hjá hv. þm. Karvel Pálmasyni og hv. þm. Karli Steinari Guðnasyni. Vinnuveitendasambandið og ríkisstj. hafa hafnað skattalækkunarleiðinni. Þess vegna er nauðsynlegt fyrir verkalýðshreyfinguna að fá svör við spurningunni um kaupmáttartrygginguna. Það er þess vegna sem spurningin um kaupmáttartrygginguna er úrslitaspurningin í stöðunni í dag. Ég endurtek hana og vona að hæstv. forsrh. sjái sér fært að gera a.m.k. tilraun til að svara henni hér á eftir.