25.02.1985
Neðri deild: 44. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3169 í B-deild Alþingistíðinda. (2658)

5. mál, útvarpslög

Frsm. meiri hl. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Þetta mál hefur fengið mjög ítarlega umfjöllun í menntmn. Alls voru haldnir 13 fundir um málið og stóðu flestir hverjir klukkustundum saman, sjaldan skemur en í tvær stundir og stundum mun lengur, þannig að ekki er hægt undan því að kvarta að n. hafi ekki gefið sér tíma til að fjalla um málið, enda bárust ítarlegar umsagnir frá ýmsum aðilum eða alls frá 15 aðilum og fjölmargir menn voru kvaddir á fund n. og í þeim efnum farið eftir öllum þeim óskum sem fram komu. Ég tek þess vegna ekki við því, sem fram kemur í einu nál., að skort hafi á það að n. hafi gefið sér tóm til að ræða þau atriði sem fram komu um einstök atriði frv. eða um Ríkisútvarpið almennt.

Um þetta mál hefur verið allítarleg umfjöllun í fjölmiðlum. Ég vil af því tilefni aðeins segja að sumt á þar að sjálfsögðu við rök að styðjast. Oft greinir menn á um einstök efnisatriði. Það eru skiptar skoðanir um fjölmargt, bæði varðandi útvarpslög sem annað. En því miður hefur einnig borið á hinu að menn hafa ýmist misskilið tilgang frv. eða ekki sett sig inn í þær brtt. sem meiri hl. n. flytur, þannig að margt er þar líka missagt og hefur raunar sumt verið leiðrétt á opinberum vettvangi.

Höfuðtilgangurinn með þessum frv.-flutningi er sá, eins og hv. þdm. er kunnugt, að veita einkaaðilum leyfi til útvarpsrekstrar og er hugsunin sú að slík leyfi skuli veitt til þriggja ára, enda skuli lögin endurskoðuð innan þess tíma, þannig að Alþingi veitist svigrúm til að fjalla um ný útvarpslög, og eru ýmis ákvæði frv., bæði í brtt. n. og í frv. sjálfu, sem bera keim af því að hér er um tilraunaútvarp að ræða, ef svo má segja. Menn treysta sér ekki til þess á þessari stundu að slá því föstu hversu þessum málum skuli skipað til frambúðar, enda tækniþróun mjög ör og erfitt að sjá fyrir hver þróun í fjölmiðlun verður á næstu árum.

Ég vil taka það sérstaklega fram að útvarpsráð eða meiri hluti þess með fimm atkv. gegn tveim hefur lýst stuðningi við þá meginstefnu frv. að fleiri en Ríkisútvarpið fái heimild til að útvarpa. Með því verði sköpuð skilyrði fyrir samkeppni í útvarpsrekstri sem hlýtur að orka hvetjandi á þá er starfa að slíkri þjónustu við almenning og notendum veittir auknir valmöguleikar, einkanlega að því er varðar staðbundið útvarp í einstökum byggðarlögum.

Í frv. er lögð áhersla á að útvarpsstöðvar skuli gæta lýðræðislegra grundvalarreglna í starfsemi sinni, virða tjáningarfrelsi og gefa svigrúm fyrir mismunandi skoðunum í dagskrá og nánari ákvæði eru um hvernig með skuli farið ef út af því er brugðið. Þetta er að sjálfsögðu í fullu samræmi við þá grundvallarskoðun lýðræðisþjóðfélaga að með öllum hætti sé nauðsynlegt að tryggja skoðanafrelsi, tjáningarfrelsi, að menn séu frjálsir að sínum orðum og að ekki skuli setja óeðlilegar tálmanir við því að menn geti látið þær í ljós og látið þær berast. Varðandi einstakar brtt. er þetta að segja:

Í fyrsta lagi varðandi 1. gr. Gleggra þykir að taka fram að hliðsjón skuli hafa af lögum um fjarskipti nr. 73 1984 og er þetta fyrst og fremst tæknilegt atriði. Á hinn bóginn hefur meiri hl. n. ekki fallist á að setja inn í þessa grein ákvæði um að sendingar milli radíóamatöra teljist ekki útvarp í skilningi laga þessara. Það er óþarft. Um starfsemi þeirra er fjallað í fjarskiptalögum og kemur þessu máli ekki við.

Við 2. gr. er sú brtt. að útvarpsréttarnefnd skuli skipuð til fjögurra ára og er hugsunin á bak við þá brtt. sú að sama nefndin skuli sitja þann tíma sem þessum lögum er ætlað að gilda eða þangað til endurskoðun á þeim lýkur.

Nokkrar breytingar eru við 3. gr. Er þar fyrst að nefna að í frv. er talað um að útvarpsréttarnefnd geti veitt sveitarfélögum og félögum, sem til þess eru stofnuð, tímabundið leyfi til útvarps fyrir almenning á afmörkuðum svæðum. Okkur þykir þessi takmörkun óþörf og skiljum ekki tilgang hennar og leggjum til að í staðinn fyrir „félögum, sem til þess eru stofnuð“ komi: lögaðilum. Með þessu er að sjálfsögðu rýmt fyrir þeim sem kynnu að vilja stofna til útvarpsrekstrar og reglurnar gerðar frjálsari en ella. Að því sama lýtur sú brtt. að 2. tölul. falli niður, að það sé gert að skilyrði að sveitarstjórnir mæli með veitingu leyfis áður en það sé veitt. Þetta miðar hvort tveggja að því að gera reglurnar einfaldari og nema burt þá þröskulda sem eru fyrir slíkri leyfisveitingu í lögunum eins og þau eru nú.

Varðandi 1. tölul., sem er umorðaður, er annars vegar um að ræða lagfæringu á orðalagi, hins vegar er því bætt við að heimilað sé í undantekningartilvikum að veita heimild til að útvarpa á miðbylgju þar sem landfræðilegar aðstæður torvelda útsendingar á metra- og desímetrabylgju. Það er nauðsynlegt að hafa þetta ákvæði mjög þröngt vegna þess að frá tæknilegum sjónarhóli eru því þröngar skorður settar hversu mörgum sé unnt að veita leyfi til útsendinga á miðbylgju. Þess vegna er nauðsynlegt að hafa það mjög í hófi, en á hinn bóginn réttlætismál fyrir ýmsa landsfjórðunga, Vestfirði m.a. og ekki síst, að þeir eigi þess kost að geta notið þráðlausra útvarpssendinga.

Þá er í frv. gert ráð fyrir því að óheimilt sé að veita erlendum aðilum leyfi til útvarpsrekstrar og því er bætt við að ekki skuli heldur leyfa félagi eða stofnun, þar sem eignarhlutdeild erlendra aðila er meiri en 10%, slíkt leyfi.

Aðrar brtt. við 3. gr. skýra sig að mestu leyti sjálfar. 5. töluliður er óþarfur að okkar mati. Sjálfsagt er að menn fari eftir lögum og þarf ekki að setja inn sérstök ákvæði þess efnis. Að því sama lýtur brtt. við 6. tölulið.

Breytingar við 5. gr. eru tæknilegs eðlis og skv. ábendingum Póst- og símamálastofnunarinnar. Þær þarfnast ekki skýringa.

Hér er lagt til að á eftir 6. gr. komi ný grein er verði svohljóðandi:

„Útvarpsstöð er heimilt að reisa sendistöð og endurvarpsstöð, eiga og reka senditæki, viðtæki og önnur slík tæki sem eru sérstaklega framleidd fyrir útvarpssendingar enda fullnægi tækin reglum sem Póst- og símamálastofnunin setur um öldutíðni, útgeislun o.fl. í samræmi við settar reglur og alþjóðasamþykktir varðandi fjarskipti sem Ísland er aðili að.“

Þessi grein er sett inn til að taka af tvímæli og er í fyllsta samræmi við þær alþjóðasamþykktir sem við erum aðilar að, eins og fram kemur í greininni og er óþarfi að fjalla nánar um það.

Það er nýmæli og ein meginbreyting n. að hér er gert ráð fyrir því að nýr kafli, II. kafli, bætist inn í lögin, „Menningarsjóður útvarpsstöðva“. Hlutverk hans er að veita framlög til eflingar innlendri dagskrárgerð, þeirri er verða má til menningarauka og fræðslu. Ástæðan fyrir þessari till. n. er fyrst og fremst sú að við óttumst að nægilegt fjármagn sé ekki fyrir hendi, a.m.k. í öndverðu, til þess að vanda innlenda dagskrárgerð.

Kvikmyndaiðnaður er nú mjög nýr af nálinni og nauðsynlegt að efla hann eftir föngum, enda má færa rök fyrir því að í framtíðinni geti hann veitt mörgum mönnum atvinnu og orðið verulegur þáttur í íslensku atvinnulífi, aflað okkur gjaldeyris og orðið til menningarauka. Meiri hl. n. telur m.ö.o. rétt að stuðla að slíkri starfsemi og varð sammála um að sérstakt gjald skyldi lagt á auglýsingar í því skyni sem við köllum „menningarsjóðsgjald“ og skuli vera 10% og leggjast á allar auglýsingar í útvarpi.

Skv. þeirri fjárhagsáætlun, sem Ríkisútvarpið hefur gert á þessu ári, er reiknað með því að sjónvarpsauglýsingar nemi 83.1 millj. kr., Ríkisútvarpið Rás 1 93.5 millj. og Ríkisútvarpið Rás 2 23.3 millj., eða 199.9 millj. kr. Það þýðir m.ö.o. að um 20 millj. kr. munu koma inn í sjóðinn skv. þessari till. ef gengið er út frá því að magn auglýsinga verði hið sama og áður og að nýjar útvarpsstöðvar bætist ekki í hópinn. Hér er engu slegið föstu um það hvenær þetta gjald skuli tekið upp. En ég vek athygli á því að í þessum brtt. er jafnframt gert ráð fyrir því að af því greiðist sá hallarekstur sem Ríkisútvarpinu er gert skv. lögum um Sinfóníuhljómsveitina að standa skil á, sem er sennilega um þriðjungur þessa gjalds, um 7 millj. kr. á þessu ári, 7–7.5 millj. kr. Sjóðurinn mun þá hafa til ráðstöfunar um 14 millj. kr. ef tekið er mið af heilu ári og ef ekki er gert ráð fyrir því að önnur auglýsingaútvörp komi til skjalanna sem auðvitað verður ekki.

Það má að sjálfsögðu jafnan deila um það hvort rétt sé að vera með markaða tekjustofna eins og þennan. Það hefur oft komið fram hér á Alþingi að of mikið sé af slíku í íslenskri löggjöf og þessi ríkisstj., eins og margar aðrar, hefur sett sér það markmið að reyna að höggva suma þessa mörkuðu tekjustofna í herðar niður, ef svo má segja, nema ákvæði um þau úr lögum, og ég get verið sammála því. Á hinn bóginn töldum við nauðsynlegt að setja skýr ákvæði um það hvaðan Menningarsjóðurinn skyldi hafa sínar tekjur ef á annað borð yrðu sett inn ákvæði um hann. Ég vil í þessu sambandi líka minna á það að útvarpsauglýsingar, hvort heldur er í útvarpi eða sjónvarpi, eru söluskattsskyldar eins og nú standa sakir meðan t.d. auglýsingar í blöðum eru undanþegnar söluskatti. Það hefur þess vegna verið litið svo á af Alþingi að ástæða sé til að standa vörð um auglýsingamiðilinn hjá dagblöðunum og verið rökstutt með því að þau standi mörg hver höllum fæti og nauðsynlegt sé að hlúa að slíkri útgáfu til þess að auðvelda það að mismunandi sjónarmið komist til skila og reyna með þeim hætti að standa vörð um prentfrelsið og tjáningarfrelsið.

Nú hefur ríkisstj. lýst því yfir að virðisaukaskattur verði upp tekinn um næstu áramót sem eðli sínu samkvæmt hlýtur þá að leggjast á allar auglýsingar hvort heldur er í útvarpi eða blöðum. Þessi skattvernd verður þá úr sögunni samtímis. Þá sýnist okkur ekki óeðlilegt þótt nokkrar byrðar verði eftir sem áður lagðar á útvarpsreksturinn. Með hliðsjón af því er hér í raun um helmingslækkun á opinberum gjöldum að ræða borið saman við aðra fjölmiðlun og er ég þá að tala um dagblöðin.

Ég vil vekja athygli á því sérstaka eðli virðisaukaskattsins að hann kemur til frádráttar hjá auglýsendum við lokauppgjör skattsins hjá viðkomandi auglýsanda. Það má því með nokkrum rétti segja að þjónustuiðnaður eins og auglýsingaiðnaður sé undanþeginn virðisaukaskattinum þegar til hins endanlega uppgjörs kemur borið saman við þann praxís sem verið hefur á álagningu söluskattsins. En söluskattur af sjónvarpsauglýsingum og útvarpsauglýsingum hefur ekki verið frádráttarbær við endanlegt uppgjör söluskatts. Þarna er þess vegna um mismunandi skattútreikning að ræða þessum fjölmiðlum í hag og þangað sækjum við m.a. þau rök að réttlætanlegt sé að leggja þetta 10% gjald á auglýsingar í útvarpi.

Við gerum ráð fyrir því að menntmrh. setji nánari reglur um starfsemi sjóðsins. Í till. okkar er gert ráð fyrir því að stjórn hans skuli skipuð þrem mönnum, einum tilnefndum af útvarpsráði, einum af öðrum útvarpsstöðvum eða útvarpsréttarnefnd ef þeim er ekki til að dreifa og formaður nefndarinnar skuli skipaður af menntmrh. án tilnefningar.

Í nefndinni komu ekki fram athugasemdir við þetta fyrirkomulag og hafa aðrar hugmyndir ekki verið uppi um það. Hins vegar gerum við ráð fyrir því að tengsl ríkisútvarps og sjónvarps rofni ekki þrátt fyrir þetta nýja ákvæði og gerum þess vegna ráð fyrir því að sérstakur samningur verði gerður milli Ríkisútvarpsins og Sinfóníuhljómsveitarinnar svo sem verið hefur og er ákvæði um það í 7. brtt.

Ég vek sérstaka athygli á því varðandi núverandi II. kafla frv., sem verður III. kafli, að í brtt. er gert ráð fyrir því að Ríkisútvarpið komi upp aðstöðu til dagskrárgerðar og hljóðvarps í öllum kjördæmum landsins. Jafnframt er kveðið skýrt á um það að Ríkisútvarpið skuli starfrækja fræðsluútvarp í samvinnu við fræðsluyfirvöld og skuli veitt til þess fé á fjárlögum. Með þessu viljum við leggja áherslu á nauðsyn fræðsluútvarpsins og undirstrika þá skoðun að ekki sé við því að búast, eftir að hin aukna samkeppni kemur til sögunnar, að Ríkisútvarpið geti eitt staðið undir hinum aukna kostnaði sem fræðsluútvarpið hlýtur að hafa í för með sér, enda ekki nema eðlilegt að aukin áhersla sé lögð á hvers konar fræðslu, menntun og endurmenntun, eins og hæstv. menntmrh. hefur lagt mjög ríka áherslu á.

Þá gerum við ráð fyrir því að sú heimild sé afdráttarlausari í lögunum en í frv. að Ríkisútvarpinu sé heimili að hafa samvinnu við aðra aðila um dagskrárgerð og útsendingar.

Í 11. brtt. er sú skylda Ríkisútvarpsins gerð ríkari en í frv. að því beri að stuðla að því að frumflutt dagskrárefni sé varðveitt til frambúðar og haft til útlána eða sölu og fram tekið að því sé rétt að ganga frá samningum við rétthafa efnis um að slíkt sé heimili. Við viljum m.ö.o. auka hlut Ríkisútvarpsins í slíkri miðlun á útvarpsefni, bæði til heimilisbrúks og hjá hinum ýmsu aðilum til sjós og lands sem slíks kynnu að óska. Þetta þarfnast ekki skýringar, en við teljum þetta ákvæði mjög þýðingarmikið og geti orðið til menningarauka.

Í nál. meiri hl. er gerð grein fyrir því að sú er skoðun Ríkisútvarpsins að það afnotagjaldakerfi, sem það hefur stuðst við frá öndverðu, standi nú mjög höllum fæti og að nauðsynlegt sé að taka það mjög til endurskoðunar. Ástæðan fyrir því að meiri hl. menntmn. hefur ekki á þessu stigi ákveðnar tillögur fram að flytja um það hvað við skuli taka er einfaldlega sú að fyrir tíu dögum hafði Ríkisútvarpið samband við formann nefndarinnar um að það hefði falið sérstökum rekstrarráðgjafa að gera úttekt á tekjustofnum Ríkisútvarpsins — og þá einkum afnotagjaldakerfinu eins og það hefur verið rekið — og gera tillögur til úrbóta þar um. Ríkisútvarpið spurðist fyrir um það hvort nefndin gæti ekki fallist á að bíða með endanlegan tillöguflutning þangað til álit rekstrarráðgjafans lægi fyrir og var það að sjálfsögðu auðsótt.

Ástæðan fyrir því að þetta kerfi hefur — ég veit ekki hvort ég á að segja — hrunið eða er orðið mjög erfitt í framkvæmd er sú annars vegar að tækninni hefur fleygt fram þannig að torveldara er en áður að fylgjast með því hverjir séu rétthafar hljóðvarps- eða sjónvarpstækja. Á hinn bóginn hefur borið á því eftir að sú regla var upp tekin að einungis skyldi greitt af einu sjónvarpstæki á hverju heimili að mörg tæki eru skráð á sama mann þótt þau séu jafnvel í raun í notkun í þrem landsfjórðungum, eins og fram kemur í grg. Það er m.ö.o. augljóst að sú tilhneiging að koma sér undan að greiða afnotagjaldið er fyrir hendi og nú fer fram úttekt á því hversu mikil brögð kunni að vera að því og hvort unnt sé að komast fyrir slíka misbeitingu.

Ég tek það fram að þegar fjármálastjóri Ríkisútvarpsins hitti nefndina að máli í nóvembermánuði hafði hann ekki uppi neinar hugmyndir um það að afnema afnotagjaldið. Þessi hugmynd Ríkisútvarpsins kom því nm. í opna skjöldu.

Áður en þetta samtal formanns nefndarinnar við fjármáladeild útvarpsins átti sér stað hafði meiri hl. látið gera könnun á því hvort gerlegt væri að taka upp nefskatt í stað afnotagjalds, eins og hér er gerð grein fyrir. Þá er gert ráð fyrir því að greiðendur afnotagjalds séu um 105 þús. á landinu öllu. Ef gengið er út frá 289.7 millj. kr., sem er sú fjárhæð sem Ríkisútvarpið hyggst ná inn með afnotagjöldum á þessu ári, þarf slíkur nefskattur, sem miðast við það að börn innan 16 ára aldurs séu undanþegin honum og þeir einstaklingar sem á s.l. ári höfðu tekjuskattsstofn undir 115 500 kr., að vera miðað við 100% innheimtu 2700 kr., miðað við 85% innheimtu 3176 kr. og miðað við 80% innheimtu 3375 kr. Afnotagjaldið er nú 2650 kr. fyrir fyrri hluta ársins. Miðað við einstakling yrði því þarna um verulega lækkun að ræða, á hinn bóginn um nokkra hækkun að ræða ef miðað er við hjón þar sem báðir aðilar vinna sér inn umtalsverðar tekjur. Fjárhæðin 115 500 kr. svarar til fullrar tekjutryggingar með heimilisuppbót, sem er sú viðmiðun sem Tryggingastofnun ríkisins og Ríkisútvarpið hafa nú þegar einstaklingum er veitt undanþága frá greiðslu afnotagjalds. Út frá þessu er gengið.

Ég vil aðeins víkja að því að hv. 5. þm. Reykv. Jón Baldvin Hannibalsson gerir í sínum brtt. efnislega ráð fyrir því að afnotagjald verði upp tekið sem hefur þó ekki við útvarpstæki að styðjast heldur við nef, það yrði þá nýr nefskattur. Skv. hans till. er gert ráð fyrir því að sérhver einstaklingur á aldrinum 20–70 ára skuli greiða gjald fyrir útvarpsafnot sem innheimtumenn ríkissjóðs innheimti. Undanþegnir gjaldinu séu blindir og aðrir sem undanþegnir eru í reglugerð sem menntmrh. setur.

Það er náttúrlega mjög einfalt að leysa málið með þessum hætti, slá því föstu í lagagrein að slíkt gjald skuli á lagt og að útvarpsstjóri skuli ákveða hæð gjaldsins, að vísu að höfðu samráði við menntmrh. Ég hygg á hinn bóginn að slík opin lagaákvæði varðandi skattamál stangist á við ákvæði stjórnarskrárinnar, en þar segir í 40. gr. að engan skatt megi á leggja né breyta né af taka nema með lögum. Í bók Ólafs Jóhannessonar, Stjórnskipun Íslands, segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Málefnum þeim sem stjórnarskráin sjálf felur löggjafanum verður því aðeins skipað með lögum og löggjafanum er óheimilt að framselja framkvæmdavaldshafa ákvörðunarvald um þau efni.“ Þar segir enn fremur, með leyfi hæstv. forseta:

„Og þegar stjórnarskráin sjálf býður að eitthvað skuli gert með lögum er almenna löggjafanum, eins og áður er sagt, almennt óheimilt að fela framkvæmdavaldshöfum ákvörðun um þau efni.“

Ég held þess vegna að það sé ekki vafamál að þessi brtt., eins og hún er fram sett af formanni Alþfl., stangast á við ákvæði stjórnarskrárinnar. Þó að í sumum tilvikum kunni að vera réttlætanlegt að framkvæmdavaldið kveði á um ýmsar þær reglur sem í þröngum skilningi ber að ákveða af Alþingi sjálfu sé slíkt með öllu óþolandi þegar um almenna skattlagningu er að ræða. Ég held að hið háa Alþingi hljóti að standa fast á þeim rétti sínum að setja framkvæmdavaldinu þröngar skorður um skattlagninguna. Það verður heldur ekki ráðið af tillögum Alþfl. hvaða viðmiðun þeir hyggist hafa í þessum efnum. Tel ég því að till., eins og hún liggur fyrir á þskj. 518 frá formanni Alþfl., sé ekki frambærileg.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um fjármálakafla n. í frv. Það má að sjálfsögðu halda því fram að menntmrn. hafi ekki átt að taka málið til 2. umr. fyrr en endanleg niðurstaða væri komin varðandi þennan þátt málsins. Á hitt vil ég þó leggja áherslu í því sambandi að nm. höfðu komið sér saman um að málið kæmi til endanlegrar afgreiðslu á fundi nefndarinnar s.l. þriðjudag. Þá skýrði ég einstökum nm. frá því að ég óskaði eftir því að fjármál Ríkisútvarpsins yrðu sérstaklega tekin til meðferðar í nefndinni milli 2. og 3. umr. Engin athugasemd kom um það frá einstökum nm. Mönnum finnst þetta ekki óeðlileg málsmeðferð og vil ég vænta þess að ég geti átt jafngott samstarf við nefndina milli 2. og 3. umr. um þetta efni og ég hef að öðru leyti átt við hana um þetta mál. Hér er um mjög afmarkaðan þátt í frv. að ræða, og snertir ekki efni þessa máls að öðru leyti. En ég sé ástæðu til þess að undirstrika í þessu samhengi að meiri hl. nefndarinnar telur það eina af höfuðskyldum sínum í sambandi við þetta frv. að ganga þannig frá rekstrargrundvelli Ríkisútvarpsins að það verði áfram rekið með myndarbrag og geti rækt þær miklu menningarlegu og fréttalegu skyldur sem því eru lagðar á herðar.

Ég vil vekja sérstaka athygli á 16. brtt. Þar er nýrri lagagrein bætt inn sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Hver sá, sem heimild hefur til rekstrar útvarps skv. lögum þessum, skal varðveita í a.m.k. 18 mánuði hljóðupptöku af öllu frumsömdu, útsendu efni. Þó er heimilt að varðveita fréttir í handriti. Skylt er að láta þeim, sem telur misgert við sig í útsendingu, í té afrit af hljóðupptöku þeirrar útsendingar.“

Þetta orðalag hefur fengið verulega umfjöllun og teljum við að nægilegt svigrúm sé að miða við 18 mánuði í þessu samhengi. En hér er að sjálfsögðu fjallað um ábyrgð á útvarpsefni og skyldur útvarpsstöðva til þess að varðveita þau gögn sem nauðsynlegt er að séu til staðar ef menn vilja leita réttar síns gagnvart þeim.

Að síðustu vil ég víkja aðeins að ákvæðum til bráðabirgða. Hér er gert ráð fyrir því að lögin öðlist þegar gildi. Gert er ráð fyrir því að leyfi til útvarps, sem veitt verði, geti ekki orðið til lengri tíma en þriggja ára og, eins og ég sagði áður, að útvarpsréttarnefnd skuli kjörin þegar eftir gildistöku þessara laga og sitja til ársloka 1989 og að stjórn Menningarsjóðs útvarpsstöðva skuli skipuð í fyrsta sinn fyrir árslok 1985. Loks er hér ákvæði um að utanrrn. sé heimilt að veita varnarliðinu leyfi til áframhaldandi útvarpsrekstrar, sbr. lög nr. 110/1951 og lög nr. 106/1954, og skuli þá tekið mið af ákvæðum 1. kaflans að svo miklu leyti sem við getur átt. Við töldum nauðsynlegt að taka af skarið um það að varnarliðið hefði áfram sömu heimildir og nú til slíks rekstrar, enda var það aldrei tilgangur þessa frv. að raska neinu varðandi útvarpsrekstur varnarliðsins.

Að síðustu vil ég aðeins víkja nokkrum orðum að því sem hlotið hefur nafnið „boðveitur“ þar sem ég sé að þetta orð er að finna sums staðar í þeim brtt. sem fluttar eru við þetta frv. Ég hef haft samband við Orðabók Háskólans til þess að fá skilgreiningu á því hvað orðið boðveita þýðir, en það er ekki að finna í þeim plöggum. Ef maður reynir að skilja orðið með hliðsjón af öðrum samsettum orðum þar sem „veita“ kemur fyrir, eins og hitaveita eða rafveita, kemur í ljós að orðið virðist notað um stofnanir sem hafa það verkefni að dreifa t.d. rafmagni eða vatni til almennings. Getum við því vel sagt að stærsta boðveita hér á landi sé Póstur og sími. En við getum líka sagt að Ríkisútvarpið, eins og það er rekið, sé boðveita þar sem það kemur boðum úf til almennings þó að Póstur og sími annist um það að menn geti talast við í ýmsum landsfjórðungum, jafnvel innan sama húss eða landa á milli, komið boðum landa á milli.

Ég vakti athygli á því í nefndinni að skilgreiningu vantaði á þessu orði og það væri að sjálfsögðu óhugsandi að fatlast á að það væri tekið inn í brtt. meiri hl. nefndarinnar nema þeir menn, sem bæru orðið fyrir brjósti, legðu á sig það ómak að reyna að gera öðrum grein fyrir því hvað þeir meintu nákvæmlega með orðinu.

Ég vil vekja athygli á því að í lögum um fjarskipti er nákvæmlega skýrgreint hvað einstök orð, sem þar koma fyrir, þýða. 1. gr. frv. og 1. kafli ber heitið Orðskýringar. Þar er nákvæmlega skýrgreint hvað orðið fjarskipti þýðir, fjarskiptavirki og notendabúnaður. Mér skilst að orðið boðveita taki yfir öll þessi orð og meira en það, taki yfir þau fyrirtæki sem ráða yfir slíkum tækjum og notast við þau.

Ég hef borið það undir m.a. Póst og síma og ýmsa lögfræðinga hvort ákvæði um boðveitur, eins og gert er ráð fyrir í brtt. hv. 5. þm. Reykv., eigi heima í útvarpslögum og hefur mér ekki tekist að finna neinn þann mann sem telur svo vera. Þvert á móti hefur mér verið bent á það af öllum að þessi ákvæði eigi heima í fjarskiptalögum. Ég hef skýrt frá því á nefndarfundi að hæstv. samgrh. hafi þessi mál til athugunar og muni leggja fram frv. um þau efni þegar niðurstöður liggja fyrir. Ég hlýt því að leggja til að þær brtt. sem lúta að þessum svokölluðu boðveitum verði felldar, í fyrsta lagi vegna þess að þær eru fluttar við vitlaust frv. og í öðru lagi vegna þess að skýrgreiningu á orðinu „boðveita“ vantar í brtt. Á hinn bóginn var það óhugsandi að menntmn. tæki þetta mál upp á sína arma þar sem fjarskiptalög heyra skv. þingsköpum undir samgn. Ég bauðst til þess að gera formanni samgn. viðvart um það að í menntmn. væri ríkur áhugi á því að koma að breytingum á fjarskiptalögum en slík milliganga hefur ekki verið þegin fram að þessu. Ég vil hins vegar beina því til hv. samgn. að athuga þessi mál, ef henni þykir ástæða til, jafnframt því sem ég beini því til einstakra þm., sem telja fjarskiptalögum ábótavant, að flytja um það sérstakt frv. með þinglegum hætti. En eins og fram kemur hef ég enga löngun til þess að fara inn á verksvið samgn. og frábið mér um leið að samgn. fari inn á verksvið menntmn.

Í nefndinni urðu mjög ítarlegar umr. varðandi 4. gr. sem lýtur að auglýsingum og þau ákvæði í 5. gr. sem lúta að hinu sama. Ég hef séð að fjölmargar brtt. hafa verið lagðar fram varðandi þann þátt frv. Ég mun taka þau mál upp í menntmn. um leið og fjármál Ríkisútvarpsins verða rædd milli 2. og 3. umr. og vil beina því til tillögumanna að þeir dragi brtt. sínar varðandi 4. gr. til baka til 3. umr. til þess að nefndinni gefist kostur á að líta nánar á þær.