26.02.1985
Sameinað þing: 53. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3210 í B-deild Alþingistíðinda. (2683)

260. mál, útlán banka og sparisjóða

Valdimar Indriðason:

Herra forseti. Fyrirspyrjandi beindi orðum sínum einnig til okkar sem sæti eigum í bankaráðum ríkisbankanna. Það er ósköp eðlilegt. Við erum kjörnir í þau af Alþingi. En hvort okkur er skylt að veita sérstakar upplýsingar um einstök bankamál, það hef ég ekki séð í mínu skipunarbréfi. (JS: Á að hvíla leynd yfir þessu?) Nei, en nú vil ég leyfa mér að fara örlítið út í spurningarnar.

Ég vil að hv. fyrirspyrjandi spyrji beint: Við hverja er átt? 1. spurningin er: „Hver var heildarfyrirgreiðsla viðskiptabanka og þriggja stærstu sparisjóðanna til fimm stærstu lántakenda einstakra banka og sparisjóða í árslok 1983 og 1984?“ Það er átt við einhverja fimm aðila. Ég vil fá að vita hverjir þeir eru til þess að hægt sé að svara þessu. Fyrirspyrjandi er með einhverja fimm aðila í huga.

Svo kemur 2. spurning: „Hvert er hlutfall heildarfyrirgreiðslu hvers lánþega um sig af eigin fé stofnunarinnar? Er þar um að ræða lántakendur, einn eða fleiri, sem eru svo fjárhagslega tengdir öðrum lántakendum stofnunarinnar að skoða beri heildarfyrirgreiðslu til þeirra í einu lagi?“

Við skulum ekkert vera að fela okkur bak við þetta því að þarna er áreiðanlega verið að skjóta spjótum að ákveðnum aðilum. Mér þykir best að það komi þá fram við hverja er átt.

Ég er algjörlega sammála því, sem hæstv. viðskrh. sagði áðan, því að ég tel það ekki til bóta fyrir neinn bankanna, hvort sem það er einkabanki eða ríkisbanki, að hann láti allar upplýsingar algjörlega lausar. Ég tel það ekki vera til bóta fyrir þann sem á sitt fé í bönkunum eða fær fé lánað að þarna myndist trúnaðarbrestur á milli.