26.02.1985
Sameinað þing: 54. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3236 í B-deild Alþingistíðinda. (2717)

251. mál, fullvinnsla sjávarafla

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég vil lýsa yfir stuðningi við þá þáltill. sem hér er til umr. og þakka hv. 7. þm. Reykv. fyrir mjög góða ræðu er hann flutti hér áðan. Ég ætla ekki að flytja hér neinn boðskap um þá möguleika, þar er ég einfaldlega sammála ræðumanni, en vil vekja athygli á því að boðskapurinn er algjörlega öfugur við það sem allir fjölmiðlar þjóðarinnar hafa látið dynja á landslýð nú um alllangt skeið. Þar hefur sí og æ verið talað um offjárfestingu í sjávarútvegi, of stóran skipastól. Samt er það svo að því eins náum við þeim afla á land sem um er að ræða. En við nýtum ekki nema brot af þeim verðmætum sem þar eru til umfjöllunar. Á Íslandsmiðum tíðkaðist það einu sinni, til þess að koma sem mestu magni af karfa fyrir í skipunum, að hann var höggvinn í sundur og stórum hluta fleygt. Þetta finnst okkur skoplegt í dag, ekki satt? En við erum enn að framkvæma sömu vinnubrögðin.

Það sem ég ætlaði að vekja athygli á er grein sem birtist í Morgunblaðinu 26. febr. Með leyfi forseta vil ég fá að vitna í greinina. Fyrirsögnin hljóðar svo: „Hið opinbera og bankarnir hafa aukið mannafla sinn yfir 200%. 34.4% samdráttur á mannafla í landbúnaði á sama tíma.“ Það hefur einnig orðið samdráttur í fiskveiðum. Það hefur einnig orðið samdráttur í fiskiðnaði í prósentum á þessu tímabili. Þetta tímabil nær frá 1963 til 1983. Í fiskiðnaði hefur fækkað úr 9.9% í 9%. Í fiskveiðum hefur fækkað úr 6.6 í 5%. Bankarnir hafa verið að auka í prósentum sinn mannafla um 217.9% og opinber stjórnsýsla um 232.2% . Það vantar ekki að við höfum fengið okkur atvinnuveg og starfsmöguleika fyrir þá æsku sem við höfum verið að ala upp. Við höfum búið henni á þessum stöðum það miklu betri kjör að menn streyma frá hinum dreifðu byggðum þar sem frumframleiðslan hefur að stórum hluta farið fram. Og við erum farnir að hegða okkur eins og Aþenubúar til forna. Þeir fluttu inn þræla. Svíar flytja líka inn erlenda þjóðstofna til að vinna viss verk. Við flytjum inn menn í stórum stíl til að láta þá vinna í fiski.

Það hlýtur að vera umhugsunarefni hvort engar tækniframfarir hafi orðið t.d. í bankakerfinu á öllum þessum tíma. Það er nú öðru nær, það er búið að fjölga þar tækjum ekki svo lítið. En við byggjum myndarlega á því sviði og það er lengi hægt að koma fyrir stólum og fleiri mönnum.

Raunverulega skerast hér tvær stefnur. Sú fjölmiðlastefna, sem hefur fengið að ráða, að það sé ekkert vit í því að halda áfram að fjárfesta í sjávarútvegi, vegna þess að það hefur verið tískufyrirbrigði hjá fjölmiðlum allt frá því að ég man eftir mér að menn hafa talað um tonnafjölda, hver væri aflakóngurinn, ekki hver kom með mest verðmæti að landi. Öll umræðan virðist grundvölluð á þessu.

Ég hygg að það sé erfitt að snúa þessu tafli við. En ég er sammála flm. að hagvöxturinn í landinu fer eftir því hvort það verður gert eða ekki. En þá verður líka að nást sá friður í þessu landi að illindi út af því hvort það sé byggðastefna eða ekki byggðastefna, að tryggja það að þeir sem vinna við sjávarútveg vítt og breitt um landið hafi þá starfsaðstöðu og þau laun sem þarf til að sætta fólkið við það vinnuframlag sem það er að leggja til þjóðarbúsins. En því miður hefur reyndin orðið sú að við höfum ekki reynt að leysa þetta á þennan veg. Við höfum reynt að velja þann kostinn að flytja inn erlent vinnuafl. Hver og einn sem ekki skynjar samhengið á milli þess og þeirrar sögulegu staðreyndar þegar Aþenubúar fóru að flytja inn þræla til að vinna ákveðin störf, hann skynjar ekki þá þróun sem á sér stað. Það var nefnilega ekki langt tímabil sem menn gátu leikið sér í Aþenu og haldið þjóðfélaginu eðlilega gangandi eftir að þeir töldu sig of fína til að vinna þau störf sem skiptu máli fyrir borgina. Og það er hætt við því að það geti farið eins fyrir okkur Íslendingum ef niðurstaðan verður sú að við höldum áfram að láta fjölmiðlaheiminn ráða ferðinni með þá kenningu að það sé offjárfesting í sjávarútvegi, launum illa þá sem vinna þessi störf og leysum málið með því að flytja bara inn erlent vinnuafl. Þá gæti farið svo að það hefði örlagaríkari afleiðingar fyrir efnahag og sjálfstæði þessa lands en margan grunar.