28.02.1985
Sameinað þing: 55. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3427 í B-deild Alþingistíðinda. (2763)

304. mál, lögregluvarðstöð í Mosfellshreppi

Flm. (Salome Þorkelsdóttir):

Herra forseti. Á þskj. 485 hef ég leyft mér að bera fram till. til þál. um lögregluvarðstöð í Mosfellshreppi sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að ríkisstj. hlutist til um að komið verði á fót lögregluvarðstöð í Mosfellshreppi ásamt tilheyrandi búnaði og fjölgun í lögregluliði sýslumannsembættis Kjósarsýslu svo að unnt verði að þjóna Kjalarneshreppi og Kjósarhreppi auk Mosfellshrepps.“

Till. þessi var flutt á 105. löggjafarþingi, en varð þá eigi afgreidd og er nú endurflutt óbreytt.

Með ört vaxandi byggð og auknu þéttbýli er þörfin fyrir sérstaka lögregluvarðstöð í Mosfellshreppi orðin mjög brýn. Íbúar í hreppnum voru 1. desember s.l. 3627 og býr meiri hluti þeirra í þéttbýlinu við Varmá, en byggð í dreifbýli er einnig allnokkur. Auk þess eru í Kjalarneshreppi 366 íbúar og 187 í Kjósarhreppi. Íbúatala þessara þriggja hreppa er því orðin 4180 miðað við 1. desember s.l. skv. bráðabirgðatölum Hagstofunnar. Þessa er getið hér til þess að leiðrétta þær tölur sem eru í grg. till., en þær eru orðnar tveggja ára og á þessu tímabili hefur orðið um 10% fjölgun íbúa a.m.k.

Umferðarmál og slysahætta eru meðal annarra ástæðna fyrir brýnni þörf á virkri löggæslu á þessu svæði. Vesturlandsvegur liggur um þéttbýlasta hluta Mosfellshrepps og sker raunar byggðina í tvennt með þeim hætti að samgöngur milli hverfa eru ógerlegar án umferðar yfir veginn. Opinber þjónusta, svo sem skólar, barnaheimili og íþróttasvæði, er öll staðsett öðrum megin vegarins og sama gildir um verslanir. Af þessu leiðir að innansveitarumferð um og yfir Vesturlandsveg er mjög mikil, hvort heldur um er að ræða ökutæki eða gangandi vegfarendur, börn jafnt sem fullorðna. Þetta ástand hefur í för með sér mikla og vaxandi slysahættu, eins og dæmi sanna, sem ber brýna nauðsyn að bæta úr.

Íbúar og sveitarstjórn hafa vaxandi áhyggjur af þessu ástandi og telja að ein mikilvirkasta vörnin gegn umferðarslysum hvers konar á þessu svæði sé virk löggæsla á og við Vesturlandsveginn. Hreppsnefnd Mosfellshrepps hefur ítrekað ályktað um þetta mál og leggur þunga áherslu á að löggæsla á þessu svæði verði efld.

Í ályktun hreppsnefndar er m.a. bent á að Vesturlandsvegurinn er í hópi fjölförnustu þjóðvega landsins, sérstaklega kaflinn frá Reykjavík og upp fyrir Mosfellshrepp. Þungaflutningar um veginn eru mjög miklir og við Brúarland liggur vegurinn í kvos sem leiðir af sér mikinn umferðarhraða, sérstaklega stórra og þungra bifreiða. En það er einmitt við Brúarland sem fjölfarnasta gangbraut barna og unglinga er yfir veginn þar sem þau fara í skólann eða til íþróttaiðkana að Varmá. Það dylst engum sem til þekkja, sérstaklega í ljósi reynslunnar, að verði umferðarslys á þessum stað er um líf að tefla. Hreppsnefndin leggur því þunga áherslu á stóraukna löggæslu við Vesturlandsveg í þéttbýli Mosfellshrepps. Hreppsnefndir Kjalarnes- og Kjósarhreppa hafa einnig ályktað um nauðsyn á efldri löggæslu á svæðinu og að lögregluvarðstöð verði staðsett í Mosfellshreppi.

Þá hefur fjölmennur borgarafundur um umferðarmál, sem haldinn var fyrir tveimur árum, ályktað og samþykkt áskorun um að komið verði upp svo fljótt sem verða má lögregluvarðstöð í Mosfellshreppi.

Auk þeirrar sérstöku löggæslu vegna umferðarmála sem að framan greinir er löngu orðið tímabært að efla alhliða löggæslu í þéttbýlinu við Varmá sem og í hreppnum í heild. Í þeim efnum er það ekki hvað síst þýðingarmikið öryggisatriði ef vá ber að dyrum, hvort sem um er að ræða vegna náttúruhamfara, óveðurs, stórslysa eða bruna. Í janúar s.l. var gerð athugun á stöðu almannavarna í Kjósarsýslu á vegum Almannavarna ríkisins og Almannavarna Kjósarsýslu. Í þeirri athugun er fjallað sérstaklega um löggæslumálin og um þann þátt segir, með leyfi forseta:

„Að engin aðstaða er fyrir lögreglu á svæðinu og ekkert lögreglulið verður að teljast hafa lamandi áhrif á starfsemi almannavarna. Við vá á höfuðborgarsvæðinu verða íbúar á almannavarnarsvæðinu að taka löggæslu í eigin hendur þar sem aðrir staðir, svo sem Reykjavík, Kópavogur og Hafnarfjörður með Garðabæ, yrðu ekki aflögufærir varðandi löggæsluna. sem neyðarráðstöfun vegna almannavarna var ákveðið að þjálfa a.m.k. 10 manns, hjálparliða til löggæslustarfa á hættutímum.“

Þess má geta í þessu sambandi að slíkt alvarlegt ástand hefur skapast á Vesturlandsvegi þegar óveður og ófærð hafa borið snögglega að á undangengnum árum, en við höfum að vísu blessunarlega sloppið við á þessum vetri enn sem komið er.

Það er augljóst mál að það að hafa ekki staðsetta lögregluvarðstöð sem sinnir þessu svæði í hreppnum er afar veikur hlekkur með tilliti til almannavarna. Löggæslu í Mosfells-, Kjalarnes- og Kjósarhreppum er í dag sinnt frá lögreglustöðinni í Hafnarfirði og er skylt að taka fram að góð samvinna er við lögreglu Hafnarfjarðar, enda sinna þeir þjónustu við byggðarlögin eftir því sem kostur er miðað við aðstæður. Það er ljóst að með núverandi mannafla og tækjakosti er mjög erfitt fyrir stöðina að sinna lágmarksþjónustu við Mosfellshrepp og upphreppana, hvað þá að nokkur möguleiki sé á virkri löggæslu eins og brýna þörf ber þó til.

Ég hef hér undir höndum nokkrar upplýsingar um mannafla og tækjakost lögreglunnar í Hafnarfirði og þar kemur m.a. fram að tækjakostur lögreglunnar er þrír sendibílar, ein fólksbifreið og þrjú lögreglubifhjól. Rannsóknarlögreglan er með eina bifreið. Á dagvakt á virkum degi eru sex lögreglumenn og eru tveir á lögreglustöð og fjórir lögreglumenn á tveimur lögreglubifreiðum. Annar lögreglubíllinn sér um útköll í Hafnarfirði og hinn í Garðakaupstað og Mosfellssveit. Á sumartíma eru tveir bifhjólalögreglumenn á vakt, sem þeir skipta á milli sín, og þrír lögreglumenn sinna vöktum á bifhjólum og eru í umferðareftirliti. Þessir bifhjólalögreglumenn, sem sinna vöktum á sumartíma, eru á vetrartíma á bifreið.

Á föstudögum og laugardögum eru tveir menn teknir á aukavakt til að hafa þrjá lögreglumenn í þeim bifreiðum sem sinna útköllum og nú nýverið var skipun gefin frá dómsmrn. þess efnis að menn þeir sem hafa komið sem aukamenn um helgar ættu að mæta kl. 22 og fara af vakt kl. 5 að morgni, og áttu varðstjórar að meta það hvort eitthvað kæmi upp á eftir kl. 5. Dæmi sýna að þessi fjöldi lögreglumanna er algert lágmark til að halda uppi löggæslu ef eitthvað bjátar á. Þess skal getið að lögreglumenn í Hafnarfirði koma sjúkraflutningsmönnum oft til aðstoðar. Ef sjúkrabifreið sú sem sinnir útköllum er í verkefni hafa lögreglumenn ekið sjúkrabifreiðinni sem er til vara á Slökkvistöð Hafnarfjarðar. Fjórar vaktir eru sem sagt með sex mönnum. Eru það því 24 menn sem ganga vaktir og þrír bifhjólamenn, yfirlögregluþjónn og aðstoðaryfirlögregluþjónn ásamt einum manni sem vinnur í skráningu.

Í rannsóknarlögreglu starfa þrír rannsóknarlögreglumenn. Standa þeir bakvaktir eftir að vinnutíma lýkur og um helgar og koma á vettvang ef slys verða á fólki. Samtals starfa því 33 lögreglumenn við embættið. Auk þess eru tveir lögreglumenn sem starfa við embætti bæjarfógetans í Hafnarfirði og starfa ekki við almenna löggæslu.

Þess má geta að nýlega var maður sendur til að kanna fíkniefnaneyslu í umdæmi lögreglunnar í Hafnarfirði. Var ekki settur annar fyrir þann sem sendur var vegna þessa málefnis. Var því aðeins einn maður í lögreglubifreið þeirri sem stundar umferðareftirlit.

Tveir lögreglumenn eru starfandi á Seltjarnarnesi og vinna þeir einir á tvískiptri vakt og á bakvöktum um helgar. Ef íbúafjöldi í lögsagnarumdæmi lögreglunnar í Hafnarfirði er borinn saman við fjölda lögregluþjóna kemur í ljós að u.þ.b. 700 íbúar eru bak við hvern lögreglumann og ef miðað er við stærri umdæmi eru samsvarandi tölur frá rúmlega 300 manns og upp í 500.

Rétt er að geta þess að í Mosfellssveit hefur lögreglan aðstöðu í litlu herbergi við Þverholt og er þar sími með sjálfsvara en engin talstöð. Lögreglan reynir að sinna þessu eftirliti með því að koma upp eftir þrisvar á dag, fyrir hádegi eftir hádegi og á kvöldin. Þetta er alls ófullnægjandi, sérstaklega nú á síðustu mánuðum þar sem innbrotafaraldur hefur aukist mjög og bitnar illa á byggðarlögum sem eru þannig sett að lögreglustöðin er staðsett svo fjarri þeim sem raun ber vitni og það tekur svo langan tíma fyrir lögreglu að sinna útköllum að þeir sem að verki hafa staðið er löngu horfnir á braut þegar hún kemst á áfangastað.

Það er alvarlegt hve staða þessara mála er slæm hjá lögreglu Hafnarfjarðar, bæði vegna of lítils tækjabúnaðar og manneklu. Það ber brýna nauðsyn að bæta þar úr. En lausn löggæslumála sem snúa að upphreppunum, Mosfells-, Kjalarnes- og Kjósarhreppum, má ekki verða á kostnað þeirrar þjónustu og þess öryggis sem lögregla Hafnarfjarðar veitir í heimabyggðarlögum, þ.e. Hafnarfirði og Garðabæ, enda leysir það ekki málið þar sem vegalengdir eru slíkar að svæðinu verður aldrei þjónað, svo vel sé, með útgerð mannafla frá Hafnarfirði né heldur frá t.d. lögreglustöðinni í Árbæ sem stundum hefur verið nefnd sem möguleg lausn í þessu sambandi. Því er ljóst að til að tryggja virka löggæslu í Mosfells,- Kjalarnes- og Kjósarhreppum þarf að koma á fót sérstakri lögregluvarðstöð í Mosfellshreppi sem hafi á að skipa nægjanlegum mannafla og tækjakosti til sólarhringsvaktar á þessu svæði. Þannig er unnt að veita íbúum þessara byggðarlaga þá alhliða löggæslu sem þörf er á og ekki verður veitt með núverandi fyrirkomulagi.

Eftir að þessari umr. hefur verið frestað, herra forseti, legg ég til að málinu verði vísað til hv. allshn.