28.02.1985
Sameinað þing: 55. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3430 í B-deild Alþingistíðinda. (2765)

310. mál, viðmiðunargrunnur verðtryggingar langtímalána

Flm. (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ásamt hv. þm. Guðrúnu Agnarsdóttur og sigríði Dúnu Kristmundsdóttur leyfi ég mér á þskj. 495 að bera fram eftirfarandi till. til þál. með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að undirbúa nú þegar, að verðtrygging langtímalána til einstaklinga vegna náms eða byggingar eigin húsnæðis verði miðuð við vísitölu kauptaxta í stað lánskjaravísitölu.“

Um síðustu áramót svaraði ég nokkrum spurningum Morgunblaðsins fyrir hönd Kvennalistans og lýsti því m.a. yfir að Kvennalistinn vildi láta miða verðtryggingu langtímalána við vísitölu kauptaxta en ekki lánskjaravísitölu. Margir hafa síðan komið að máli við okkur Kvennalistakonur og lýst sig fylgjandi þeirri hugmynd og hvatt okkur til að fylgja henni eftir á þingi og það höfum við nú gert með till. þeirri sem ég hef nú lesið. Þessi till. hefur reyndar verið talsvert lengur í undirbúningi, enda vorum við lengi í vafa um hver væri besta lausnin í þessu máli.

Umræðan um vanda húsbyggjenda er ákaflega hávær þessa dagana. Sá vandi er margþættur, en hæst ber hina óbærilegu greiðslubyrði lántakenda sem hefur vaxið langt umfram greiðslugetu vegna misgengis í þróun kauptaxta og lánskjara, en frá því í júní 1979, þegar lánskjaravísitalan var fyrst reiknuð út, hefur hún hækkað um 34% umfram kauptaxta verkamanna.

Flestir eru orðnir sammála um réttmæti verðtryggingar fjárskuldbindinga og viðurkenna það sjónarmið að lánardrottni beri að fá verðmæti lánsfjárhæðar að fullu endurgreitt að lánstíma loknum og eitthvað að auki fyrir greiðann. Það er hins vegar ekkert einfalt mál og öldungis ekki sama við hvað verðtryggingin er miðuð, eins og lántakendur hafa rækilega orðið varir nú síðustu árin.

Fram til þessa hefur þótt rétt að miða við kostnaðarþróun og verðtryggingin þannig miðuð við lánskjaravísitölu sem er mynduð af vísitölu byggingarkostnaðar að 1/3 og vísitölu framfærslukostnaðar að 2/3 hlutum. Hugmyndin var þá sú að fá mætti jafngilt verðmæti í hlutum eða þjónustu fyrir endurgreiðsluna og upphaflegu lánsfjárhæðina, en vextir væru svo að auki. Þetta virðist eðlileg viðmiðun að því tilskildu að þróun kaupgjalds haldi a.m.k. í við þróun verðlags og framfærslukostnaðar. Því er þó alls ekki alltaf að heilsa og reynsla undanfarinna mánaða kallar eindregið á breytingu í þessum efnum. Það hlýtur að teljast með öllu ósanngjarnt að neyða fólk til að spá um verðlagsþróun til margra ára eða jafnvel áratuga til að átta sig á greiðslubyrði langtímalána með föstum vöxtum. Slíkt er raunar ógerlegt eins og komið er á daginn.

Nú um nokkurt skeið hefur þróunin verið almennu launafólki afar óhagstæð og ljóst að margir eru að kikna — og hafa þegar kiknað — undir greiðslubyrði lána sem í flestum tilfellum hefur vaxið langt umfram greiðslugetu. Kaupmáttur hefur illa fylgt eftir kostnaðarþróun og einsýnt að mikið misgengi hefur myndast nú að undanförnu, m.a. vegna aðgerða stjórnvalda sem æ ofan í æ hafa hindrað að laun haldi í við verðlagsþróun. Af því leiðir að fólk þarf ekki aðeins að bera skertan kaupmátt á neysluvörum, heldur einnig að borga af langtímalánum sínum með sífellt fleiri vinnustundum.

Langt er síðan farið var að benda á þennan vanda og er furðulegt að stjórnvöld skuli ekki fyrir löngu vera búin að taka á honum með einhverju móti til að koma í veg fyrir það ástand sem nú hefur skapast hjá fjölmörgum. Því miður virðast þau ekki koma auga á aðra leið en að bjóða lán á lán ofan sem farið er að minna óþægilega á eitt atriðið í áramótaskaupi fyrir rúmu ári þegar ímynd launþegans var látin skjögra um sviðið með hverja byrðina ofan á annarri. Ég hlýt að lýsa miklum vonbrigðum með þær aðgerðir því ljóst er að þær leysa ekki vandann, þær auka hann aðeins og slá honum á frest. Greiðslubyrðin léttist vitanlega um skeið, en svo fara viðbótarlánin að falla í gjalddaga og menn festast í vítahring sem erfitt reynist að rjúfa. Aukin lán eru því tæpast til bóta. Þau eru dæmigerðar skammtímalausnir sem hafa verið reyndar margsinnis áður. Varanlegri lausnir eru nauðsynlegar.

Svo að gætt sé fullrar sanngirni skal þess getið að sumar tillögur stjórnvalda varðandi húsnæðismálin eru góðra gjalda verðar, svo sem að leyfa einstaklingum að draga frá tekjum til skatts það sem þeir spara til húsnæðiskaupa, einnig tilraunir þeirra til að hamla gegn byggingu óhóflegs húsnæðis. En áfram um verðtryggingu lána.

Það hefur verið talað um afnám verðtryggingar, en slík lausn mundi vafalaust kalla á enn frekari hækkun vaxta en orðið hefur og greiðslubyrðin vaxa af þeim sökum. Vissulega hafa heyrst tillögur til úrbóta, t.d. að fresta greiðslu á þeim hluta verðtryggingar sem er umfram almennar launahækkanir þar til í lok lánstíma, en þá lausn hefur t.d. Alþfl. sett fram í frumvarpsformi á þskj. 445. Í umr. um það frv. í Nd. 4. febr. s.l. lýsti ég yfir stuðningi Kvennalistans við það um leið og ég skýrði frá því að við værum að vinna að till. þeirri sem hér er til umr.

Þá hafa heyrst hugmyndir um breytingu á lánskjaravísitölunni í þá átt að byggingarvísitalan verði látin vega þyngra eða jafnvel að miða verðtryggingu eingöngu við byggingarvísitölu. Til þess að það sé alveg á hreinu hvað um er að ræða, skal þess getið að frá því í júní 1979 hefur lánskjaravísitalan hækkað, eins og hv. þm. vafalaust vita, um 906%, byggingarvísitalan um 820%, en vísitala kauptaxta um 606%. Til þess að skýra málin enn frekar má taka dæmi: 1 millj. kr. lán tekið í janúar 1983 er með beinni framreiknun, þ.e. án afborgana og vaxta, orðið að 2 millj. 61 þús. 475 kr. í janúar 1985 miðað við lánskjaravísitölu. Miðað við byggingarvísitölu er upphæðin orðin 1 millj. 850 þús. eða 211 þús. 475 kr. lægri en miðað við lánskjaravísítöluna. En ef við miðum við vísitölu kauptaxta væri þessi upphæð orðin 1 millj. 678 þús. 571 kr. eða 382 þús. 904 kr. lægri en ef miðað væri við lánskjaravísitölu og 171 429 kr. lægri en ef miðað væri við vísitölu byggingarkostnaðar.

Allar þær hugmyndir sem heyrst hafa og ég hef hér getið eru til bóta á núverandi kerfi, sem er gersamlega ónothæft, en bestu lausnina telur Kvennalistinn að miða verðtryggingu við kaupgjaldsvísitölu eins og fyrrgreind till. okkar felur í sér. Meginhugsunin að baki slíkrar verðtryggingar er þá sú að launafólk þurfi að vinna jafnmargar vinnustundir fyrir greiðslu lánsins og virði þess var í vinnustundum þegar lánið var tekið að viðbættum einhverjum vöxtum. Mikið öryggi fælist í því að vita að endurgreiðsla lána yrði alltaf svipuð í vinnustundum talið.

Launafólk er í raun algerlega varnarlaust gagnvart ráðstöfunum sem miða að skerðingu kaupmáttar. sala vinnu er eina tekjuöflunarleið þess og því eðlilegast og réttlátast að það sé lagt til grundvallar við ákvörðun verðtryggingar lána.

Það er sú mikla kjaraskerðing, sem almennt launafólk hefur mátt þola síðustu árin, sem er meginorsök vandans og þeir sem tekið hafa á sig fjárskuldbindingar til margra ára, þar sem boginn er spenntur til hins ýtrasta, ráða einfaldlega og skiljanlega ekki við afborganir og vaxtagreiðslur þegar slíkt misgengi verður í þróun kaupgjalds og verðlags eins og reynslan sýnir að undanförnu. Reyndar er mjög freistandi að leggja til að miðað væri við breytingar á kaupmætti kauptaxta, en við teljum tæpast raunhæft að fara fram á slíkt þótt ég standist ekki freistinguna að varpa því hér fram.

Hins vegar er full ástæða til að ætla að till. Kvennalistans um viðmiðun verðtryggingar við vísitölu kauptaxta hafi fylgi hér á Alþingi, sbr. t.d. grein hv. 2. þm. Reykn. í DV 11. febr. s.l., svo og ummæli ýmissa annarra nýlega í umr. hér á þinginu og annars staðar og sakna ég nú sannarlega ýmissa sem ég hefði vænst að mundu taka til máls í þessari umr.

Lánskjaravísitalan er ónothæf, a.m.k. eins og hún er nú saman sett. Það sannast best á því að hækkun áfengis og tóbaks s.l. tólf mánuði olli hækkun lánskjaravísitölunnar um rúmlega 1% og jók þar með skuldir kaupanda dæmigerðrar verkamannaíbúðar um 24–30 þús. kr. Og nú vilja stjórnvöld og stefna að því að taka upp virðisaukaskatt. Við Kvennalistakonur munum, eins og við höfum marglýst yfir, vinna sem við getum gegn því að hann hafi áhrif á verð matvæla, en leggist hann óheft og af fullum þunga á matvæli mun það valda stórfelldri hækkun lánskjaravísitölunnar. Það slys verður að hindra. Þetta rugl verður að stöðva strax. Í þeim tilgangi er till. Kvennalistans borin hér fram.

Herra forseti. Að loknum fyrri hluta umr. um till. þessa legg ég til að henni verði vísað til hv. allshn. og treysti því að hún vinni þetta mál fljótt og vel.