12.03.1985
Sameinað þing: 57. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3468 í B-deild Alþingistíðinda. (2795)

255. mál, auglýsingar banka og sparisjóða

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Það hefur ekki farið fram hjá neinum að með vaxtafrelsinu í ágúst á s.l. ári hófst mikið auglýsingastríð milli banka og sparisjóða um sparifé landsmanna. Ekkert lát virðist á því hvað bankarnir hafa af fjármagni í allt auglýsingaflóðið á sama tíma og upplýsingar berast um slæman hag ýmissa bankastofnana og sífellt er erfiðara um vik fyrir einstaklinga, sem komnir eru í greiðsluþrot með sínar fjárhagsskuldbindingar, að fá fyrirgreiðslu. Spurningin er líka hvort allt auglýsingaflóðið verði ekki fremur til að rugla fólk í ríminu en hafa almennt upplýsingagildi.

Ríkissjóður hefur líka verið knúinn til þátttöku í þessu auglýsingastríði og í samkeppni um takmarkað fé landsmanna, ekki síst síðan verðbréfamarkaðurinn fór að verða æ umsvifameiri, en hann virðist hvorki háður ákvæðum laga né eftirliti varðandi umsvif og þau verðbréfaviðskipti sem þar fara fram. Ég hef því leyft mér að beina fsp. til hæstv. viðskrh. um verðbréfamarkaðinn og auglýsingakostnað banka og sparisjóða. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„1. Hversu mikill var auglýsingakostnaður einstakra banka og sparisjóða á árunum 1983 og 1984? Auglýsingakostnaður fyrir árið 1984 óskast sundurliðaður eftir ársfjórðungum.

2. Hve mikið var keypt af veðskuldabréfum og spariskírteinum á verðbréfamarkaðinum árin 1982, 1983 og 1984, og hvernig var sú velta í samanburði við spariskírteinasölu ríkissjóðs og heildarinnlán banka og sparisjóða á þessum árum?“