12.03.1985
Sameinað þing: 57. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3481 í B-deild Alþingistíðinda. (2815)

318. mál, framtíðarflugvallarstæði fyrir Ísafjörð

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Áður en ég svara þessari fsp. vil ég taka fram að lengd flugbrautarinnar inni í Skutulsfirði er 1400 metrar, en breidd 45 metrar. Þangað fljúga á vegum Flugleiða Fokker F-27 flugvélarnar sem þurfa a.m.k. 1200–1300 metra langa braut, auk fjölda minni véla sem þurfa mun styttri brautir.

Þegar Ísafjarðarflugvöllur var hannaður árið 1958 voru staðhættir á Arnarnesi athugaðir. Kom Arnarnesið ekki til greina sem flugvallarstæði af eftirfarandi ástæðum sem nú skal greina:

1. Arnardalsáin skiptir svæðinu í tvo hluta þannig að beggja megin má fá um 500 metra brautarstæði, en brú yfir ána þvert gegnum brautina þarf að vera a.m.k. 60–80 m löng og er því mikið og dýrt mannvirki.

2. Jafnvel þótt brúin væri gerð fæst ekki meiri flugbrautarlengd en um 1000 m sem er ekki fullnægjandi.

3. Hliðarhalli er allmikill á svæðinu og er það því illa fallið fyrir flugbraut sem þarf að vera a.m.k. 60–80 metra breið að meðtöldum öryggissvæðum.

4. Staðurinn er mjög varhugaverður vegna misvindis í sunnan- og vestanáttum, en þá geta komið vindhnútar út Arnardalinn og Skutulsfjörðinn. Búast má við að eftir brautinni endilangri geti orðið misátta og óstöðugur vindur.

5. Flugvallargerð verður þar dýr því fyllingarefni þarf líklega að sækja að verulegu leyti inn í botn Álftafjarðar, en þangað er um 16 km vegalengd.

6. Þótt hægt væri að koma fyrir flugbraut á nesinu verður erfitt að fá nægilegt svæði fyrir stórt hlað og eins fyrir þær byggingar sem reisa þarf á flugvellinum.

7. Vegalengdin frá Ísafjarðarkaupstað og þar með einnig Bolungarvík lengist um 5–6 km, en á þann kafla geta snjóskriður fallið.

Ég vil til viðbótar þessu, þó að það sé ekki beint svar við þessari spurningu, segja að það sem mest er aðkallandi, að mínum dómi, til þess að auka öryggi í flugsamgöngum er í fyrsta lagi að bæta og stytta veginn á milli kauptúnanna í Vestur-Ísafjarðarsýslu. Þá á ég fyrst og fremst við Þingeyri og Önundarfjörð með því að byggja brú yfir Önundarfjörð, sem þegar er lokið, byggja brú og fyllingu yfir Dýrafjörð, sem styttir vegalengdina eftir því sem ég best man um 14 km, og jafnframt er það okkar framtíðarstefna og áhugi að gera jarðgöng á Breiðadalsheiði. Þegar þessar tvær framkvæmdir, jarðgöng og fylling og brú á Dýrafjörð, eru komnar má segja að þessi byggðarlög hafi færst saman og öruggari samgöngur verði á milli þeirra. Það er augljóst af þeirri ástæðu sem ég nefndi varðandi Arnardal að ekki er fýsilegt að fara þar í flugvallargerð, heldur væri hitt verkefnið miklu nær og þá að taka ákvörðun um varaflugvöll fyrir flugið til kaupstaðanna við Ísafjarðardjúp. Er örugglega besta og skynsamlegasta lausnin ef Þingeyrarflugvöllur tæki við því hlutverki og eins kemur einnig mjög sterklega til greina að bæta verulega og lengja völlinn í Holti í Önundarfirði.

Eins og þessum málum er nú háttað tel ég ekki mikið fengið með því að eyða fjármunum í rannsóknir í Arnardal, en hitt mjög mikilsvert. Það er eðlilegt að þessi fsp. komi fram, en það skiptir ekki fyrst og fremst máli hvar þessi flugvöllur er, heldur að greitt verði fyrir samgöngum á milli þessara þéttbýlisstaða allra og sem öruggustum flugsamgöngum árið um kring.

Út af því sem hv. fyrirspyrjandi sagði varðandi Akureyrarflugvöll og þó einkum Egilsstaðaflugvöll, þá er öðru máli að gegna með Egilsstaðavöll. Ásigkomulag þess vallar er langt frá því að vera með sæmilegu móti og ég tel að það verði ein fyrsta framkvæmd sem í þarf að ráðast af hinum stærri framkvæmdum í flugmálum.