12.03.1985
Sameinað þing: 57. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3484 í B-deild Alþingistíðinda. (2820)

313. mál, vanskil vegna húsnæðislána

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Sem svar við fsp. hv. 2. landsk. þm. á þskj. 498 hef ég hér í höndum upplýsingar frá veðdeild Landsbanka Íslands, dags. 22. febrúar s.l.

Fyrsti liður fsp. var: Hver var heildarupphæð vanskilaskulda í árslok 1984 vegna útlána annars vegar úr Byggingarsjóði verkamanna og hins vegar úr Byggingarsjóði ríkisins og hversu margir einstaklingar voru í vanskilum?

Svar: Byggingarsjóður ríkisins. Þar var um að ræða 136 millj. kr. sem voru í vanskilum um síðustu áramót. Þar af voru um 50 millj. kr. vegna nýbyggingarlána með gjalddaga 1. maí 1984, eða um 17.7% af því sem gjaldféll þá, og um 59 millj. kr. vegna lána til eldri íbúða með gjalddaga 1. nóvember 1984, eða um 47.7% af því sem gjaldféll þá. Sambærileg hlutföll um áramótin 1983/1984 voru vegna nýbyggingarlána 13.6% og vegna eldri íbúða 40.5%. Þess er getið að vanskil eru send til fógetaembættanna 3–4 mánuðum eftir gjalddaga.

Um áramótin voru um 14 700 lán í vanskilum. Einstaklingarnir eru færri, þar sem margir eru með fleiri en eitt lán í vanskilum. Hjá Byggingarsjóði verkamanna voru í vanskilum 6.2 millj. kr. um síðustu áramót vegna 588 einstaklinga.

Annar liður: Hversu miklir dráttarvextir voru greiddir vegna vanskila á árinu 1984? Svar: Dráttarvextir af lánum Byggingarsjóðs ríkisins voru 29.2 millj. kr. og dráttarvextir hjá Byggingarsjóði verkamanna 0.8 millj. kr.

Þriðji liður: Hversu margar beiðnir um nauðungaruppboð sendi veðdeild Landsbanka Íslands frá sér á árinu 1984 vegna vanskila við Byggingarsjóð verkamanna annars vegar og við Byggingarsjóð ríkisins hins vegar? Svar: Beiðnir um nauðungaruppboð frá veðdeildinni vegna Byggingarsjóðs ríkisins voru 17 600 á árinu 1984 og vegna Byggingarsjóðs verkamanna 183 beiðnir.