12.03.1985
Sameinað þing: 58. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3512 í B-deild Alþingistíðinda. (2854)

249. mál, rannsókn á innflutningsversluninni

Flm. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. 2. þm. Reykv. fyrir góðar undirtektir við þessa þáltill. Alþb., sem kom fram í ræðu hans hér áðan. Hann sýndi skilning á því að nauðsynlegt væri að taka á ýmsum þáttum innflutningsverslunarinnar og lagði áherslu á nauðsyn þess í lokin að tryggt yrði að innflutningsverslunin væri sem allra hagkvæmust og ódýrust fyrir þjóðarbúið. Það er markmið sem við hljótum að keppa að í sameiningu. Spurningin er þarna eins og fyrr um leiðirnar í þeim efnum. Vafalaust sýnist þar að einhverju leyti sitt hverjum, en þó held ég að við eigum í þessu efni að kanna það vel hvort menn, jafnvel úr ólíkum stjórnmálaflokkum, geti ekki sameinast um niðurstöður að þessu leytinu til líka.

Ég verð að segja að ég sé ekki að það geti verið ósamrýmanlegt sjónarmiði núv. ríkisstj. og hæstv. viðskrh. að kannað verði hvaða leiðir eru til þess að tryggja að innflutningurinn til landsins verði enn þá hagkvæmari og miklu hagkvæmari en hann er. Um það hljóta allir hv. þm. að vera sammála að nauðsynlegt er að gera það. Ég er sannfærður um að hæstv. viðskrh., sem á að líta eftir þessum málum, er sammála mér um að það er eðlilegt að slík könnun fari fram.

Í 2. lið till. segir að það skuli kannað hvaða ráðstafanir sé unnt að gera til að koma í veg fyrir misnotkun gjaldeyris í innflutningsverslun. Ætli það sé nokkuð sjálfsagðara en að reyna að finna leiðir til að koma í veg fyrir slíka misnotkun? Ég er viss um að hæstv. viðskrh. er sammála mér um það atriði.

Í þriðja lagi stendur hér: „Hvað má ætla að stór hluti þjóðartekna tapist vegna óhagkvæmrar innflutningsverslunar?“ Er eitthvað á móti því að þetta verði kannað til hlítar? Hafa menn eitthvað að fela í þeim efnum eða hvað? Ég trúi því ekki að svo sé, að vísvitandi vilji menn fela eitthvað í þessum efnum. Því þá ekki að kanna það til þrautar?

Í fjórða lagi er hér spurt: „Hvaða ráðstafanir er unnt að gera til þess að koma í veg fyrir að þeir, sem brotið hafa reglur um innflutnings- og gjaldeyrismál, fái verslunarleyfi á ný?“ Ég hef flutt um það till. hér á þinginu aftur og aftur að gripið verði til þess að herða mjög reglur um verslunarleyfi þannig að þeir sem hafa orðið brotlegir við lög um innflutnings- og gjaldeyrismál fái ekki verslunarleyfi á nýjan leik. Ég tel að þetta sé sjálfsagt mál. Kannske á að beita einhverjum öðrum viðurlögum í þessu efni gegn þeim sem misfara með gjaldeyri þjóðarinnar, en þjóðin á gjaldeyrinn, hún skapar gjaldeyrinn, sjómenn og verkamenn. Þá er eðlilegt að reynt verði að finna leið til að koma í veg fyrir að misfarið sé með gjaldeyri.

Því næst er sjálfsagt atriði um það hvernig unnt sé að koma í veg fyrir að innflutningsverslunin skipti við milliliði erlendis. Þetta er mjög stórt mál í verðmyndun í innflutningi á Íslandi, gífurlega stórt mál eins og kemur m.a. fram í þáltill. og grg. sem henni fylgir.

Í sjötta lagi er beðið um samanburð á innflutningsverði til annarra norrænna landa og einkum til Færeyja. Hérna er um að ræða atriði sem eru alveg sjálfsögð. Ég heyrði að hv. 2. þm. Reykv. tók vel undir þetta í öllum meginatriðum og kom með ábendingar um viðbót, þ.e. að innflutningsvörur verði merktar eins og innlendar vörur. Það er sjálfsagt. Það er það bragð sem ýmsar þjóðir hafa gripið til til að tryggja eðlilega samkeppnisstöðu, svo maður segi nú ekki meira úr þessum ræðustól. Iðulega hefur það verið gert. Ég bendi t.d. á að það munu vera þær reglur í Japan að bandarískir bílar fara þar ekki inn í landið fyrr en búið er að reynsluaka þeim í Japan í tvö ár eða svo. Það er ekki brot á neinum reglum til eða frá og ekki nokkur leið að hanka Japani á því. Þetta er ég ekki að segja í beinum tengslum við ábendingar hv. þm., en mér fannst þær mjög athyglisverðar.

Hv. þm. nefndi enn fremur að till. væri einhvers konar uppgjör við framsóknarmenn. Það er mesti misskilningur að hér eigi sér stað uppgjör við framsóknarmenn. Það er alveg ástæðulaust. Þeir gera upp við sig sjálfir þessa dagana. Ég hef kynnst því m.a. á fundarferðum mínum út um landið að þeir þurfa enga hjálp í þeim efnum. Þeir eru að reyna að gera hlutina upp við sig sjálfir. Ég vona að þeir komist sem fyrst að þeirri skynsamlegu niðurstöðu að fara út úr þessari stjórn þó að Steingrímur formaður flokks þeirra, hæstv. forsrh., sitji þar við stjórnvölinn. Ég hef enga ástæðu til að vera að gera neitt upp við Framsfl. sérstaklega í þessu efni, en var bara að benda á þá athyglisverðu staðreynd að fyrrverandi forsrh. sá sig tilneyddan til að taka þessi mál úr höndum fagráðherrans, viðskrh., vegna þess að hann hafði ekki sinnt þeim eins og stjórnarsamþykktir stóðu til. Menn geta kallað þetta uppgjör við Framsfl. ef þeir vilja, en þannig var að þessi ákveðni viðskrh. var og er í Framsfl., að því er best verður vitað, þó að það hafi orðið viss breyting á högum hans núna um áramótin.

Ég tel ástæðu til að fagna því að hv. 2. þm. Reykv. kvaddi sér hér hljóðs og sagði nokkur orð um þessa till. og ég vona að þau orð séu til marks um að þm. úr ólíkum flokkum geti sameinast um að taka á þessu þýðingarmikla máli.