13.03.1985
Efri deild: 49. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3529 í B-deild Alþingistíðinda. (2868)

307. mál, fjárfestingarsjóður launamanna

Valdimar Indriðason:

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð út af því sem hv. síðasti ræðumaður sagði áðan. Hann mótmælti því, sem ég sagði í minni ræðu, að líta mætti þannig á að þetta frv. innihéldi skyldusparnað fyrir launþega. Ég ítreka að þetta er minn skilningur og hann er réttur. Ég sagði áðan að ef atvinnureksturinn gæti greitt 2% launahækkun væri spurning hvort það fé væri þá ekki betur komið í launaumslögum þrautpíndra launþega en í sérstökum sjóði sem væri skyldusparnaður því að hann er ekkert annað. Atvinnureksturinn greiðir féð, en launþeginn á ekki að fá það, heldur er því varið til stofnunar sjóðs. Þetta vil ég ítreka svo að það skiljist.

Mig langar ennfremur til að vitna í grg. til að undirstrika hvernig farið er í kringum hlutina og lesa upp eina grein, með leyfi hæstv. forseta, þar sem segir:

„Spyrja má hvort með þessu væri ekki verið að leggja gjald á atvinnureksturinn sem síðan væri endurgreitt í formi hlutafjár eða lánsfjár. Svo er ekki. Greiðslan kæmi frá báðum aðilum, launagreiðendum og launamönnum, án þess að greint yrði á milli, hvað væri frá hverjum; hún kæmi til frádráttar í bókhaldi rekstrar og væri því í mörgum tilvikum greidd af neytendum og auk þess kæmi greiðslan ekki til skatts, hvorki hjá launagreiðendum né launamanni, og væri þess vegna að hluta til greidd af ríkissjóði.“

Þess vegna spyr ég aftur: Hver er raunverulega greiðandinn í þennan væntanlega sjóð?