24.10.1984
Neðri deild: 6. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 477 í B-deild Alþingistíðinda. (296)

30. mál, kjarasamningar Bandalags starfsmanna ríkis og bæja

Flm. (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Ég þakka þeim hv. þm. sem hér hafa tekið til máls og skýrt sjónarmið sín Ég vil byrja á að svara tilmælum hæstv. forseta og ábendingum annarra þm. um það hvar rétt sé að mál þetta beri niður í nefnd. Ég hafði sjálfur litið svo á, að lög um stéttarfélög og vinnudeilur ættu með eðlilegum hætti heima í félmn. Mér hefur verið á það bent að áður hafi oft á það reynt, fyrir því séu fordæmi, að frv. til l. um stéttarfélög og vinnudeilur hafi verið vísað til allshn. En hafi fordæmið frá 1976 verið það, að þessi lög hafi verið sett í framhaldi af kjarasamningum Bandalags starfsmanna ríkis og bæja í fjmrn. og fjmrn. er þar samningsaðili fyrir hönd ríkisins, þess vegna þyki rétt að vísa þessu til fjh.- og viðskn., þá er mér það að meinalausu. Mér sýnist kannske skorta eitthvað á í festu og venjum í þeim efnum.

Ég tók eftir því að hv. 2. þm. Norðurl. v. kvaðst ekki að fullu sannfærður um að þetta væri rétta leiðin. Hann tók undir það að sér sýndist af reynslu að hér þyrfti að koma til lagabreyting, en hann var ekki endilega viss um að þetta væri rétta leiðin. Hugsanlegt væri að setja upp aðra nefnd til hliðar við kjaradeilunefnd. Auðvitað kemur slíkt til álita. Ég tek vel út af fyrir sig öllum ábendingum um það. Ég get skýrt frá því að það hvarflaði að mér, þegar þetta mál var undirbúið, að til greina gæti einnig komið að setja reglur um aukinn meiri hluta innan kjaradeilunefndar- hún er skipuð 9 mönnum — þegar úrskurðir hennar væru vefengdir, að þeir væru sem sé staðfestir af 6 manna meiri hluta innan nefndarinnar, sem þýddi þá að það gæti aldrei myndast meiri hluti innan nefndarinnar nema því aðeins að fulltrúar Hæstaréttar hefðu þar oddaatkvæði. Þessi aðferð gæti líka fyllilega komið til greina. Þó dugar hún ekki að öllu leyti. Ef uppi eru háværar kröfur um vanhæfi einstakra nefndarmanna vegna hagsmunatengsla, þá getur nefndin varla verið úrskurðaraðili um sjálfa sig. Ég hvarf því frekar að því ráði í samráði við lögfræðinga að hafa þetta sem málskotsrétt til Hæstaréttar, enda stutt þeim rökum að slíkt sé eðlilegt þegar uppi eru deilur um embættisrök eða takmörk á valdsviði embættismanna. Það er eitt af hlutverkum hans. Ég spurðist fyrir um það meðal lærðra lögfræðinga hvort ekki mætti búast við því, eins og þarna segir, að Hæstiréttur væri til þess bær að kveða upp slíka úrskurði mjög skjótlega og fékk þau svör að það mætti þykja eðlilegt.

Ég er hins vegar ekki sannfærður um það að tillagan um að skipa aðra nefnd til hliðar við kjaradeilunefnd leysi málin. Ég sé það ekki í fljótu bragði. Það hefur verið gagnrýnt í yfirstandandi kjaradeilu að kjaradeilunefnd hafi tekið við allt of mörgum málum og látið ógert að úrskurða að þau væru utan hennar verksviðs. Þar með hefur hún farið út í það að túlka hin þröngu ákvæði 26. gr. um öryggisvörslu og heilsugæslu allt of vítt. Þetta hefur án nokkurs vafa kynt undir kolum heitra deilna og orðið til þess að gera nefndinni erfitt um vik í hennar störfum. Hún nýtur ekki að fenginni þessari reynslu þess trausts sem hún þarf að njóta. Um það tjóar ekkert að halda fram einhverri skoðun. Það er staðreynd, ein af staðreyndum málsins að nefndin hefur reynst vera mjög umdeild. Ef litið er á þann fjölda úrskurða, sem frá nefndinni hefur komið, hann skiptir mörgum hundruðum, og síðan litið á það hversu mörgum þeirra hefur verið formlega mótmæli af hálfu BSRB, þá fer ekkert á milli mála að hér er uppi vandamál. Annar aðilinn, BSRB, heldur því fram fullum fetum, og um það snerust deilurnar jafnvel vikum saman, að efnisatriðin hafi nú horfið í skuggann fyrir deilum um verklag og vinnubrögð. Í því efni nægir kannske að vitna til fréttaskýringar í blaði því sem verkfallsdagana gekk undir nafninu TNT. Þar segir, með leyfi forseta:

„Verkfall BSRB er að breytast í hörkudeilur um hver úrskurði um það hvaða störf skuli unnin í verkfallinu. Snýst deilan einkum um valdsvið kjaradeilunefndar og telur ríkið að hún sé eini aðilinn sem eigi að úrskurða um hvaða störfum skuli sinnt. Höskuldur Jónsson, ráðuneytisstjóri í fjmrn., hefur t.d. sent út bréf þar sem hann segir að aðeins þeir sem starfi skv. úrskurði nefndarinnar séu undir vinnuréttarákvæðum, aðrir séu ekki tryggðir fyrir slysum eða óhöppum og geti ekki reiknað með launum. BSRB telur hins vegar að kjaradeilunefnd eigi aðeins að úrskurða um öryggis- og heilsugæslu“, eins og reyndar var ríkjandi sjónarmið í umr. hér á þingi þegar lögin voru sett, „en að öðru leyti eigi BSRB sjálft að stjórna sínu verkfalli og nefnd í því skyni verkfallsnefnd BSRB. Þessi deila hefur einnig leitt til þess að BSRB hefur ekki viljað una úrskurðum nefndarinnar og reynir að hindra t.d. flugsamgöngur og að hafrannsóknaskipin láti úr höfn með verkfallsvörslu.“

Þetta nægir til að sýna fram á og rifja upp fyrir mönnum að þessar deilur eru vissulega uppi. Ég held að það sanni ótvírætt að hér er um að ræða vankanta á lögunum og það þurfi að setja undir þennan leka. Það er ótækt ef deilurnar fara að snúast um sjálft verklagið og sjálf vinnubrögðin. Lögunum frá 1976 var ætlað að leysa þennan vanda. Það hefur komið á daginn að þær aðferðir sem þar voru leiddar í lög hafa ekki dugað. Hér þarf þess vegna lagabreytingu til.

Ég held að þær leiðir sem til greina komi séu aðallega tvær. Annars vegar sú sem stungið er upp á í þessu frv. til l., sem ég held að sé eðlileg leið og standist að öllu leyti, bæði þegar upp koma deilur um vanhæfni nefndarmanna og deilur um verksvið nefndarinnar. Mér sýnist í fljótu bragði að hugmynd hv. 2. þm. Norðurl. v. dugi ekki til að leysa þessi mál, vegna þess að deilur kynnu strax að rísa um verksvið þeirrar hliðarnefndar sem hann stingur upp á, fyrir nú utan það að deilur um vanhæfni einstakra nefndarmanna leysast ekki með þeim hætti.

Hin leiðin gæti hins vegar verið sú, sem ýmsir lögfræðingar bentu á, að leiða í lög regluna um aukinn meiri hluta innan nefndarinnar, þannig að fulltrúi Hæstaréttar væri sá aðilinn sem ævinlega þyrfti til og hefði oddaatkvæði til þess að úrskurður nefndarinnar yrði endanlegur. Þó sýnist mér að sú leið dugi ekki eins vel og sú sem hér er stungið upp á. Ég tók eftir því að hv. 2. þm. Norðurl. v. taldi rétt að geyma þetta mál.

Hann lét í ljós þá von að kjaradeilur yrðu nú leystar áður en þetta mál yrði afgreitt frá þingi og eðlilegra væri að þetta yrði tekið til skoðunar þegar um hægist og menn geta sest í meiri sáttatón niður til viðræðna og metið reynsluna af framkvæmd verkfallsins. Þetta eru góð og gild rök að því er varðar það stóra mál, sem ýmsir hafa haft orð á að nú þurfi að endurskoða, stóru spurninguna um það: var því skynsamlega ráðið á sínum tíma að lögleiða verkfallsrétt opinberra starfsmanna og gera breytingar á því? Ég er hins vegar ekkert að fjalla um það mál, heldur einungis lítið mál, sem getur orðið stórt, í framkvæmd verkfallsins og ég tel ekki eftir neinu að bíða með að Alþingi fjalli um það í ljósi nýfenginnar reynslu.

Hitt málið kemur vafalaust á dagskrá. Ég vil t.d. vekja athygli á því að fr'á því hefur verið skýrt í blöðum að ein af tillögum stjórnskipaðrar nefndar, sem nú situr og semur frv. til l. um Stjórnarráð Íslands og um stjórnsýslu, sé sú að kjaramálum opinberra starfsmanna allra fyrir ofan — eigum við að segja fulltrúa og upp úr, skuli hagað á þann veg að um þau fjalli kjaradómur. Þessi mál voru kynnt fyrir fulltrúum stjórnarandstöðunnar nú fyrir nokkrum vikum, þ. á m. þetta frv. og það fylgdi að að því væri stefnt að frv. af þessu tagi yrðu lögð fyrir í upphafi þings. Ég mundi nú geyma mér að ræða þá stóru spurningu þangað til t.d. slík mál litu dagsins ljós.

Að því er varðar aðfinnslur hv. 2. þm. Norðurl. e. um að það sé ómaklegt með öllu að þau orð heyrist héðan úr ræðustól eða komi fram í grg. að á því sé hætta að kjaradeilunefnd verði verkfæri ríkisvaldsins, eða umdeildir úrskurðir hennar verði til þess að draga verkfall á langinn, þá er því til að svara að það þýðir ekkert að loka augunum fyrir því að þessi ágreiningur er uppi í þjóðfélaginu. Annar deiluaðilinn hefur hvað eftir annað vefengt fjöldann allan af úrskurðum nefndarinnar og haldið því fram fullum fetum í sínu málgagni að nefndin hafi í starfi sínu dregið taum ríkisvaldsins óhóflega, en kvartað undan því að geta ekki náð rétti sínum vegna þess að málskotsréttur er enginn. Þess vegna þýðir ekkert að kvarta undan þessu. Þetta er bara ein af staðreyndum málsins.

Hv. þm. bað einnig um skýringar á því hvers vegna flm. vilja hafa þá reglu á hlutunum að framkvæmd á úrskurði kjaradeilunefndar frestist uns dómur Hæstaréttar er fallinn. Svarið við því er mjög einfalt. Hér er verið að reyna að leiða í lög reglur, sem eru óumdeildar og greiða fyrir því að samkomulag geti tekist um aðalatriði máls, en deilurnar leysist ekki upp í úlfúð og illindi um sjálf vinnubrögðin. Ef annar hvor deiluaðili vefengir verksvið kjaradeilunefndar, vefengir einstaka úrskurði eða annað slíkt, þá er það best til friðar fallið að framkvæmd á slíkum úrskurðum frestist þann stutta tíma sem á að líða þangað til endanlegur úrskurður kemur, ella verður um að ræða hættuna á því að framkvæmd á slíkum hlutum verði snúið við, kannske með úrskurði kjaradeilunefndar, og það tel ég að væri ekki vel til fundið.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta. Ég ítreka þau fyrri ummæli mín að ég teldi mjög æskilegt að það takmarkaða málefni laganna sem hér er fjallað um, sú tillaga sem hér er gerð til lagabreytingar, verði skoðuð vandlega í nefnd og að ég sé ekki ástæðu til að salta þetta mál eða láta það bíða einhverrar allsherjar endurskoðunar á þessum lögum, sem eðli málsins skv. bíður seinni tíma ef af verður.