18.03.1985
Neðri deild: 48. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3627 í B-deild Alþingistíðinda. (2962)

49. mál, vinnumiðlun

Frsm. (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. félmn. Nd. Hún hefur orðið sammála um afgreiðslu málsins. Fjöldi umsagna barst um þetta mál og einnig hugmyndir að brtt. Á sumar þeirra hefur verið fallist, aðrar ekki.

Á þskj. 580, sem er nál., bendir nefndin á nokkur atriði sem gætu verið til lögskýringar.

Þar er í fyrsta lagi bent á að ráðgjafarnefnd sú, sem um getur í 3. gr. og víðar í lögunum, þurfi að ná samkomulagi um framkvæmd laganna ef tryggja eigi eðlilega samvinnu allra aðila.

Í öðru lagi bendir nefndin á að nauðsynlegt sé að samkomulag náist við samtök atvinnurekenda verði heimildin til að setja reglugerð nýtt, en sú heimild er í 14. gr. laganna.

Í þriðja lagi eru skilgreind hugtökin „atvinnuleitandi“ og „atvinnuumsækjandi“ eins og þau koma fyrir í þessum ákveðnu lögum.

Loks bendir nefndin á að þrátt fyrir orðalag 17. gr., þar sem segir að einkaaðilum sé óheimilt að reka vinnumiðlun í ágóðaskyni, verði framkvæmd ekki breytt frá því sem nú tíðkast, enda eru efnisatriði þessarar greinar eins og í núgildandi lögum. Þetta þýðir að fyrirtæki og einstaklingar, sem hingað til hafa annast milligöngu um ráðningar, geti gert það, enda sé það gert á kostnað atvinnurekenda.

Á þskj. 581, herra forseti, flytur félmn. tvær brtt. Í þeirri fyrri er lagt til að fjölgað verði í ráðgjafarnefndinni og inn komi fulltrúi Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, enda munu lögin taka til starfsmanna ríkis og bæja.

Í öðru lagi er lagt til að gerð verði breyting á 6. gr. frv. Sú breyting er fólgin í því að 1. málsgr. tekur til allra sveitarfélaga og þar með fellur 2. málsgr. brott.