24.10.1984
Neðri deild: 6. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 481 í B-deild Alþingistíðinda. (298)

30. mál, kjarasamningar Bandalags starfsmanna ríkis og bæja

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Flm. þessa lagafrv. benda á að í lögum um kjarasamninga Bandalags starfsmanna ríkis og bæja sé ekki að finna neitt ákvæði sem kveði á um að unnt sé að áfrýja úrskurðum kjaradeilunefndar. Þeir séu m.ö.o. endanlegir. Telja flm. þetta missmíði á lögum og að jafnvel geti svo farið að ríkisvaldið geti gegnum kjaradeilunefnd dregið verkfall opinberra starfsmanna endalaust á langinn með því að veita allar mögulegar og ómögulegar undanþágur.

Hvernig sem þetta ákvæði kann að reynast nú, að þessir úrskurðir séu endanlegir, þá held ég að mér sé óhætt að fullyrða að það var upphaflega sett til þess að hraða lausn mála. Tilgangur þess var að greiða fyrir hraðari og greiðari lausn mála. Það er vitað að málskotsrétt er næstum útilokað að nýta öðruvísi en svo að hann tefji málin að einhverju leyti.

Ég átti sæti í kjaradeilunefnd af þessu tagi þegar hún hljóp fyrst af stokkunum og vann í henni um skeið. Ég man það vel að við nm. litum svo á að það þyrfti að kveða upp skjóta úrskurði í þessum efnum, næstum því kveða þá upp á stundinni á vettvangi, enda man ég ekki eftir öðru en það gengi allvel á þeirri tíð. Úrskurðarefni þau sem þá bárust kjaradeilunefnd voru yfirleitt þess eðlis að það var um að gera að kveða úrskurðina upp strax. Ég man að við líktum þessu á þeim tíma stundum við starf dómara á knattspyrnuvelli, sem venjulega þarf að úrskurða samstundis, en hefur ekki langan tíma til að velta málum fyrir sér. Hitt er svo annað mál, að það má vel vera að þetta ákvæði laganna þurfi að endurskoða eins og fleiri ákvæði þeirra og ætla ég ekki að setja fótinn fyrir það. En á þetta atriði vildi ég einungis benda. Ég ætla það öruggt að við setningu laganna hafi þetta ákvæði verið haft svo til þess að hraða lausn mála.