19.03.1985
Sameinað þing: 60. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3636 í B-deild Alþingistíðinda. (2981)

278. mál, tannsmíðanám

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir að bera upp þessa fsp. á hv. Alþingi vegna þess að þessi mál hafa verið í miklum ólestri.

Árið 1980 voru samþykkt lög á Alþingi sem áttu að færa nám og réttarstöðu tannsmiða í það horf að þeir öðluðust menntun sína í samræmi við lög um iðnfræðslu, en þá hafði lengi staðið deila milli menntmrn. og heilbrrn. um þessi mál. En þó að höggvið hafi verið á þennan hnút á Alþingi árið 1980 er ljóst, og reynsla undanfarinna ára staðfestir það, að ekki hefur verið komið á þeirri skipulagningu í námi tannsmiða sem nauðsynlegt var.

Strax haustið 1981 kom fram að skipulagningu var mjög ábótavant í bóklegri og verklegri kennslu og þeir átta nemendur sem lokið höfðu almennum námsgreinum í Iðnskólanum þurftu sjálfir að beita sér fyrir því að eitthvað yrði gert þannig að þeir fengju verklega kennslu í tannsmíði. Málinu var þá bjargað til bráðabirgða. Sama staða virðist vera komin upp núna varðandi verklega þáttinn í tannsmíðanámi, að nokkrir nemendur hafa hvergi fengið inni með verklega kennslu.

Ég fagna því sem fram kom í svörum hæstv. ráðh., en mér er kunnugt um að deilur hafa staðið um hver skuli greiða fyrir þá aðstöðu sem er fyrir hendi til verklegrar kennslu í húsi tannlækningadeildar Háskóla Íslands, hvort það eigi að greiðast af Iðnskólanum eða Háskólanum. Mér fannst ekki koma kannske nægilega ljóst fram í svörum hæstv. ráðh. hvort það mál sé leyst núna og það liggi þá ljóst fyrir hver muni greiða þann kostnað.

Það er ljóst að ekki er nægjanlegt að leysa þetta mál til bráðabirgða frá ári til árs. Það er orðið brýnt að komið verði á festu og skipulagi í námi tannsmiða þannig að það þurfi ekki að vera árlegt verkefni tannsmíðanema sjálfra að ganga á milli rn. og stofnana til þess að fá úrlausn á þessum þætti í námi sínu. Hæstv. ráðh. upplýsti að það lægju fyrir drög að samkomulagi varðandi verklega þáttinn þannig að til frambúðar yrði þá komið á föstu skipulagi varðandi verklega þáttinn í húsi tannlæknanna, en mig langar að spyrja hæstv.. ráðh. að því hvort þá liggi ljóst fyrir að þessi mál séu þá leyst núna og hver það er sem muni bera kostnaðinn af þessu.