19.03.1985
Sameinað þing: 61. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3658 í B-deild Alþingistíðinda. (3009)

203. mál, kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Á undanförnum árum hafa umræður um allan heim farið vaxandi um afstöðuna til vígbúnaðarkapphlaupsins og þá einkum og sér í lagi um kjarnorkuvopnavæðinguna. Árekstrar spruttu upp í Ástralíu og Nýja-Sjálandi nú ekki fyrir löngu síðan, þar sem Ný-Sjálendingar og Ástralíumenn vildu ekki kjarnorkuvopnaæfingar innan sinnar lögsögu. Af því varð allmikið mál á milli svokallaðra bandalagsþjóða í þeim varnarsamtökum sem eru ríkjandi í þeim heimshluta. Hér í Evrópu hafa umræður um kjarnorkuvopn farið fram með auknum þunga á undanförnum árum. Á Bandaríkjaþingi hafa verið fluttar tillögur í þá átt að draga úr kjarnorkuvopnavæðingunni og hér hefur verið rakið í umræðum af flm. þessarar till. að á Norðurlöndum hafa þessi mál einnig verið mjög ofarlega á baugi.

Það sama gildir auðvitað um Ísland, að það hafa farið fram umræður um vígbúnaðarmál og vaxandi áhugi er hér á Íslandi á því að taka þátt í hinni alþjóðlegu umræðu og láta rödd sína heyrast á þeim vettvangi. Skoðanir í varnar- og öryggismálum að þessu afmarkaða leyti fara ekki eftir flokkum eða kynslóðum eða búsetu, enda held ég að óhætt sé að segja að það séu friðarsinnar í öllum stjórnmálaflokkum, það sé fólk sem að öðru leyti skipar sér undir merki hinna ýmsu stjórnmálaflokka sem sameinast í hinni einlægu von um það að mannkynið tortími ekki sjálfu sér. Og vitaskuld er öllum ljóst að kjarnorkuvopnin og hinar ægilegu afleiðingar notkunar þeirra boða ekkert nema ragnarök fyrir veröldina.

Íslendingar hafa alla tíð skipað sér í flokk með þeim þjóðum sem hafa virt friðinn. Fyrst og lengst af lýstum við yfir hlutleysi. Við höfum alla tíð verið vopnlaus þjóð og við höfum verið einlægir bandamenn í hvers konar friðar- og frelsisviðleitni, m. a. með þátttöku í Atlantshafsbandalaginu sem eru sterkustu friðarsamtök sem sögur fara af á okkar tímum.

Þegar borið hefur á góma í hinni pólitísku umræðu hér á landi hvort kjarnorkuvopn væru staðsett hér á landi eða ekki, þá held ég að fullyrða megi að talsmenn stjórnmálaflokka allra hafi gefið þær yfirlýsingar að hér séu ekki kjarnorkuvopn og eigi ekki að vera. Síðasti ræðumaður, Ólafur Ragnar Grímsson, ræddi hér nokkuð um þann mun sem hann telur vera á yfirlýsingum annars vegar Geirs Hallgrímssonar núv. utanrrh. og hins vegar ýmissa forvera hans og telur að yfirlýsingar utanrrh. Geirs Hallgrímssonar séu á þá leið að engin kjarnorkuvopn verði hér staðsett nema með leyfi íslenskra stjórnvalda. Vitaskuld er það rétt að á þessu er allmikill munur ef rétt er. Hæstv. ráðh. mun væntanlega gera þessar fullyrðingar þm. að umræðuefni og skýra þá sínar fyrri yfirlýsingar og sína afstöðu. En ég ætla ekki að fara að blanda mér í þann blæbrigðamun sem vera kann á þessum ummælum því að ég efast ekki eitt augnablik um það að fyrir Geir Hallgrímssyni, eins og flestum öðrum Íslendingum, vakir það eitt að forða Íslendingum frá afleiðingum kjarnorkuvopnastyrjaldar. Hann vill forða okkur frá því að vera hlekkur í hinu ægilega vígbúnaðarkapphlaupi kjarnorkuvopnanna og fyrir honum vakir áreiðanlega það sama og fyrir mér, að styðja þá stefnu sem felst í því að á Íslandi verði ekki staðsett kjarnorkuvopn og það sé afdráttarlaust.

Ég tel ekki óeðlilegt, með hliðsjón af þeim umræðum sem hér áttu sér stað fyrr í vetur um skýrslu Williams nokkurs Arkins og í tengslum við þá almennu umræðu sem farið hefur fram á alþjóðavettvangi, að yfirlýsingar ráðamanna á Íslandi, yfirlýsingar stjórnmálaflokka á Íslandi verði í eitt skipti fyrir öll staðfestar hér á Alþingi með því að Alþingi árétti þá stefnu að á Íslandi verði ekki staðsett kjarnorkuvopn. Mér er alveg útilokað að sjá að sú yfirlýsing geti skaðað stöðu Íslands, hvorki í Atlantshafsbandalaginu né að öðru leyti á alþjóðavettvangi þegar þessi mál eru á dagskrá. Ég held líka að sú yfirlýsing sé í fullkomnu samræmi við viðhorf meginþorra allra Íslendinga. Við lýsum yfir eindreginni skoðun og afdráttarlausri. Þetta er annað megininntak tillögunnar: að árétta og staðfesta þá stefnu sem ég tel að hafi ríkt og ríki hér á landi í þessum málum.

Hinn hluti tillögunnar gengur út á það að Alþingi samþykki að kjósa sjö manna nefnd er kanni hugsanlega þátttöku Íslands í umræðu um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum. Vitaskuld geri ég mér grein fyrir því að Ísland er þátttakandi í varnarbandalagi, Atlantshafsbandalaginu. Ég er einn af stuðningsmönnum þess bandalags og þeirrar þátttöku. En ég held að menn megi ekki vera svo ósjálfstæðir í þessu varnarsamstarfi sínu að öll hugsun, öll afstaða og öll skoðanamótun hverfi til höfuðstöðva Atlantshafsbandalagsins án þess að Íslendingar láti rödd sína heyrast eða taki þátt í þeirri skoðana- og stefnumótun sem á að fara fram á þessum vettvangi. Við erum þátttakendur í Atlantshafsbandalaginu en ekki bandingjar og við erum þar samstarfsmenn en ekki neinir statistar. Þess vegna vísa ég því á bug þegar menn telja að þessi tillaga stríði gegn hagsmunum Atlantshafsbandalagsins og veiki þá samstöðu sem þar er. Það er náttúrlega fráleitt að um sé að ræða svik við NATO þótt Íslendingar staðfesti sinn eigin vilja um notkun og dreifingu kjarnorkuvopna. Og auðvitað bannar NATO-aðildin okkur ekki viðræður við einn eða neinn um þau mál sem brenna á okkur.

Ég held meira að segja að það að Íslendingar kveðji sér hljóðs, taki þátt í umræðum, eigi að vera til styrktar og stuðnings málstað Atlantshafsbandalagsins, okkar sérstaklega og bandalagsins í heild. Það væri styrkur fyrir Atlantshafsbandalagið, ef á annað borð umræða og viðræður fara í gang meðal hinna Norðurlandanna um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum, að Íslendingar séu með í þeim umræðum vegna þess að Svíar eru utan Atlantshafsbandalagsins svo og Finnar og uppi eru ýmsar ankannalegar hugmyndir bæði í Danmörku og í Noregi sem ekki teljast beint í samræmi við stefnu Atlantshafsbandalagsins. Þess vegna held ég að það sé, þó ekki væri nema að því leyti til, skynsamlegt og hagkvæmt fyrir Atlantshafsbandalagið og okkur sem þátttakendur í því að vera með í þessum umr. Við höfum þarna hagsmuna að gæta og við eigum að láta í okkur heyra.

Það má vel vera að það sé lítið mark tekið á þáltill. sem þessari ef til átaka kemur og styrjaldar. En ætli það fari ekki svo að ef til styrjaldar kemur þar sem kjarnorkuvopnum er beitt verði Íslendingar yfirleitt eða hvorki einn né neinn spurður álits á því hvaða vopnum sé beitt í þeim átökum. Og það verða víst fáir sem segja af leikslokum.

En ég held að þótt ekki verði tekið mikið mark á slíkri þáltill. þegar til átaka kemur þá er viljayfirlýsing af þessu tagi í þágu friðarins, í þágu afvopnunarinnar og í þágu slökunarinnar þjóða í milli. Það getur varla talist stóralvarlegt brot gagnvart varnar-, öryggis- og utanríkisstefnu Íslendinga undanfarna áratugi þó að við látum í ljós áhuga okkar á því að taka þátt í umr. án þess að nokkur skuldbinding sé um það hvaða niðurstöður þær umræður eigi að fá.

Ég tek undir það með frsm. þessarar till. að án þátttöku í slíkum umr. fara áhrif okkar þverrandi, þá er minna tillit tekið til okkar, þá er minna hlustað eftir því hver staða Íslands er og þá verður kannske okkar hlutur fyrir borð borinn ef og þegar til þess kemur að einhver niðurstaða fæst í umr. um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum.

Ég vil, herra forseti, hins vegar síðast en ekki síst undirstrika mjög rækilega þá skoðun mína að það komi ekki til greina fyrir okkur Íslendinga að lýsa einhliða yfir samþykki eða þátttöku í kjarnorkuvopnalausu svæði á Norðurlöndum. Ég held að þessar viðræður eða umræður, sem væntanlega fara í gang á Norðurlöndunum, eigi að geta fjallað um afstöðu Norðurlanda almennt og um hugsanlegan möguleika til lausnar á vígbúnaðarmálum í heild sinni. Okkur er ljóst hér á norðurhveli jarðar að Sovétríkin ógna okkur með kjarnorkuvopnum, bæði af landi og legi, Kola-skaga og úr hafinu, og það er hagsmuna- og öryggismál að Norðurlöndin komi sameiginlega fram gagnvart þessari ógnun og láti rödd sína heyrast þannig að hagsmunir okkar fari saman annars vegar gegn risaveldinu í austri hins vegar.

Með þessum örfáu orðum, herra forseti, vildi ég gera grein fyrir því að ég hef gerst meðflm. að þessari till. Mér var sagt frá því að enginn þm. úr þingflokki sjálfstæðismanna hefði verið fáanlegur til að skrifa upp á þessa till. Ég hefði talið það skaðlegt ef enginn fulltrúi þess stóra hóps, sem greiddi Sjálfstfl. atkvæði í síðustu kosningum, hefði verið með í slíkri tillögugerð. Ég held að þúsundir kjósenda Sjálfstfl. styðji tillögugerð sem þessa, vilji af einlægni vinna að friði, hafa mestu andstyggð á kjarnorkuvopnum og vilja bægja þeim frá okkar landsteinum. Þess vegna taldi ég það skyldu mína sem einn af þeim sem kosnir voru af kjósendum Sjálfstfl. að ljá nafn mitt á þessa till. enda, eins og ég hef sagt áður, er aðeins verið að árétta þá stefnu sem ég skil að sé ríkjandi á Íslandi að því er varðar kjarnorkuvopnin og það er verið að lýsa yfir áhuga á því að taka þátt í umr. um þessi ógnvænlegu mál hér á Norðurlöndunum, en ekki verið að lýsa yfir stuðningi við einhliða aðgerðir eða einhliða samþykktir af okkar hálfu og allra síst í blóra við bandamenn okkar í Atlantshafsbandalaginu.