20.03.1985
Neðri deild: 49. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3729 í B-deild Alþingistíðinda. (3076)

235. mál, Háskóli Íslands

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Hv. 10. landsk. þm. heldur aldrei langar ræður hér og mun ekki gera það frekar núna.

Ég stóð aðeins upp til að lýsa stuðningi mínum við frv. sem hér liggur fyrir. Að vísu kemur mér dálítið á óvart að þar sem þetta lagafrv. er sagt vera fram borið að beiðni Háskólans sjálfs skuli það ekki vera veigameira en það er. Ég hefði átt von á að ýmis mál þyrfti að afmarka skýrar í lögum sem varða Háskóla Íslands og finnst satt að segja ekki vera tekið hér á stórkostlegum breytingum. Ég hefði haldið að Háskóli Íslands stæði frammi fyrir því nú og hef minnst á það áður, að hlutverk hans yrði gert skýrara. Ég hef áður minnst á að mér finnst verða æ óljósara hvers konar stofnun Háskóli Íslands er og þá ekki síst eftir tilkomu nýrra háskóladeilda sem mér finnst, a. m. k. persónulega, orka tvímælis um að ættu að vera á háskólastigi. En út í þá umræðu skal ég ekki fara hér, herra forseti.

Ég vil hins vegar nota tækifærið til að minna á kjör stundakennara við Háskólann. — Jú, hæstv. ráðh. er þarna.

Mér hefur sýnst á liðnum árum að stundakennarar við Háskólann annist oft fulla kennslu. Það sem hér er lagt til finnst mér rétt, þ. e. að unnt sé að flytja lektor í dósentsstöðu og dósent í prófessorsembætti. En þá finnst mér vissulega kominn tími til að gert sé upp hversu margir eigi að annast stundakennslu við Háskólann. Margir stunda jafnvel fulla kennslu árum saman og verða þannig af ýmsum þeim réttindum sem fastir starfsmenn Háskólans njóta. Ég ætla ekki að koma með neinar tillögur þar að lútandi, enda tel ég að það sé verkefni Háskólans sjálfs að gera þær. En ég vildi nota tækifærið til að minna á margra ára baráttu stundakennara við Háskólann fyrir sínum rétti. Að öðru leyti get ég verið sammála þeim tillögum sem hér liggja fyrir, en ég vil lýsa þeirri skoðun minni að gaman væri að sjá ítarlegra frv. um málefni Háskóla Íslands.

Um aðdróttanir hv. síðasta ræðumanns, hv. 3. þm. Vestf., vil ég ekki mikið segja. Ég held hins vegar að hann hafi mjög óraunsæjar hugmyndir um vinnu þeirra manna sem fást við andleg störf. Þegar hann talar um kennsluskyldu felst auðvitað í því að honum finnist hún lítil. (KP: Heyrði þm. eitthvað um það?) Ég þykist orðið þekkja hv. þm. það vel að ég heyrði tóninn í því sem hann sagði. Hins vegar skal honum tjáð hér að kennsluskylda íslenskra háskólakennara er miklu meiri en í nokkrum öðrum háskóla í nálægum löndum, enda kemur það niður á afköstum háskólakennara við rannsóknir sem eru hluti af þeirra starfi. Til þeirra hafa þeir að sjálfsögðu engan tíma. Launakjör prófessora og kennara við háskólann hér á Íslandi eru náttúrlega, eins og önnur launakjör opinberra starfsmanna, fyrir neðan allar hellur og með öllu ósæmileg.