21.03.1985
Sameinað þing: 62. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3752 í B-deild Alþingistíðinda. (3093)

206. mál, nýjar hernaðarratsjárstöðvar á Íslandi

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. síðasta ræðumanni, 11. þm. Reykv., að þetta mál snýst um grundvallaratriði, en ég er þeirrar skoðunar að það snúist um svolítið önnur grundvallaratriði en hún vildi vera láta í sinni ræðu. Þetta mál snýst um það grundvallaratriði hvort við viljum að hér sé haldið uppi vörnum. Það er það grundvallaratriði sem þetta mál snýst um.

Það er skoðun sem menn geta rökstutt að hér eigi ekki að vera neinar varnir, að hér eigi ekki að hafa uppi neinn viðbúnað af því tagi sem varnir mega kallast, Ísland eigi að vera varnarlaust. Þeirri skoðun er hægt að halda fram. Ég veit ekki til þess að til sé neitt ríki í veröldinni sem ekki hefur uppi varnir af einhverju tagi eða hefur þá falið einhverju öðru ríki að annast varnir borgara sinna og sinna landamæra í sínu umboði. Ég veit ekki til þess að það ríki sé til. (Gripið fram í.) Mörg ríki sem græða á vörnum? Já, það er sjálfsagt alveg rétt hjá hv. þm., en ég var að tala um þetta út frá öðrum forsendum og ég hygg að hann muni ekki gefa bent á eitt einasta ríki, jafnvíðförull maður og hann er og vel kunnugur þessum málum í veröldinni. Ég veit að hann þekkir þessa hluti vel og ég skora á hann að koma í þennan ræðustól og nefna ríki sem ekki hefur neinar varnir uppi eða hefur ekki falið öðrum ríkjum að sjá um þær. Stundum nefna menn í þessu sambandi Costa Rica, ef ég man rétt. Það ríki hefur lögreglu sem er búin skriðdrekum og fallbyssum. Þeir segjast ekki hafa her. Það eru sjálfsagt til fleiri dæmi. En þau grundvallaratriði sem við erum að tala um eru hvort við eigum að halda áfram þátttöku í varnarsamstarfi vestrænna ríkja sem við höfum verið aðilar að um áratugi og sem hefur gefist okkur vel.

Ég er andvígur hugtakinu einhliða afvopnun vegna þess að ég held að það sé röng stefna. Ég held að um afvopnunarmál, og um það er ekki ágreiningur, sé ekki raunhæft að tala öðruvísi en að þar sé um gagnkvæmni að ræða. Ég vil lýsa því yfir af hálfu Alþfl., virðulegi forseti, að við erum andvígir þeirri till. sem hér liggur fyrir og munum greiða atkv. gegn samþykkt hennar þegar þar að kemur. Það er alveg skýr stefna, skýr afstaða og hrein.

Það kemur ekkert á óvart að þm. Alþb. skuli flytja till. á borð við þessa. Það er í samræmi við utanríkisstefnu Alþb., sem við höfum alloft rætt hér og ég hef stundum leyft mér að segja að mætti líta á sem bergmál af stefnu Sovétríkjanna í utanríkismálum, og hefur sú yfirlýsing mín ekki vakið neina sérstaka kátínu Alþb.manna. Ég segi þetta vegna þess að utanríkisstefna Sovétríkjanna að því er varðar Ísland er: Ísland úr NATO — herinn burt! Hvaða stjórnmálaflokkur íslenskur hefur þá stefnu? (GHelg: Alþb.) Alþb. fyrst og fremst, segir hv. þm. Guðrún Helgadóttir. Þetta er alveg rétt. Þessi röksemdafærsla fellur þá alveg heim og saman. Og þegar þeir eru að bera þetta af sér, þeir ágætu Alþb.-menn, finnst mér líka stundum eins og það sé þegar þeir eru að bera það af sér að vera kommúnistar. Ég minni á nýafstaðið Norðurlandaráðsþing þar sem flokkarnir skipta sér í hópa eftir stefnumörkun og eftir stefnu. Þar starfar Alþb. með kommúnistaflokkum þeim sem til eru á Norðurlöndunum. Þetta er ekkert leyndarmál. Þetta vita allir. Ég er ekki einu sinni viss um að það séu allir mjög óánægðir með þetta. En þetta má ræða betur seinna.

Það kemur svo sem ekki heldur á óvart að þm. Kvennalistans skuli lýsa stuðningi við þessa till. (Gripið fram í.) Já, það sagði hv. þm. Guðrún Helgadóttir. Ég ætla raunar ekki að segja það. En þær hafa jafnan haft sérstakt lag á því að vera bergmál af stefnu Alþb. í hverju einu máli, svoleiðis að það kemur svo sem ekki heldur á óvart. Hins vegar var skilgreining á stefnumálum Kvennalistans og stefnu Kvennalistans í Morgunblaðinu í gær. Það getur vel verið að mér sé illa gefið að skilja, en það er enn að veltast fyrir mér ýmislegt af því sem ég las þar í gær. Ég ætla kannske, með leyfi forseta, þó að það sé útúrdúr úr þessari umr., að lesa eins og eina mgr.:

„Feminismi er pólitík þar sem persónuleg reynsla kvenna og persónulegt mat er fullgild ástæða skoðanamyndunar. Okkur er vel stætt á þessum skilningi okkar á meðan sameiginlegur sögulegur skilningur sameinar okkur og hugmyndafræðin er afdráttarlaus, sem um leið gefur möguleika á mikilli breidd í hreyfingunni.“

(Gripið fram í.) Ég veit ekki hvort það mundi koma mér að miklu gagni, hv. þm., en þetta er orðarugl sem fólk sveipar um sig þegar það veit ekki hvað það á að segja.

Ég hallast að skilgreiningu sem hv. þm. Guðrún Helgadóttir kom með í útvarpinu núna um daginn þá er hún talaði um Kvennalistann. Hún sagði að það væri kannske einna helst að þann lista kysu konur sem nenntu ekki að hugsa um pólitík. Það getur vel verið að þetta sé rétt hjá henni. Ég er ekki svo sem að gera orð hennar að mínum orðum, en það getur vel verið að þetta sé rétt.

Hins vegar kemur það svolítið á óvart að BJ skuli standa að þessari þáltill. vegna þess að í stefnuskrá þess flokks er lýst stuðningi við aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu. Nú vita menn væntanlega hvað þetta þýðir. Þetta þýðir að BJ hefur skipt um skoðun í þessum málum frá því sem var þegar sá flokkur var stofnaður á sínum tíma. Ekki verður annað séð en að BJ styðji það ekki lengur að hér sé haldið uppi vörnum og þeirri starfsemi sem þeim tengist. Þetta eru athyglisverðar staðreyndir sem ég veit að stuðningsmenn BJ hljóta að íhuga vegna þess að hér hefur greinilega orðið um stefnubreytingu að ræða. Ég spyr: Styðja allir þm. BJ þessa till. eða ekki? Eða hvernig er það, ber ekki að líta svo á að það sé stefna flokksins sem hv. þm. Kolbrún Jónsdóttir túlkar með undirskrift sinni undir þessa till.?

Nú ræða menn hér í löngu máli um þessar tvær ratsjárstöðvar og það gerði hv. 1. flm. þessarar till. Hann fer með mikið af skammstöfunum hér. Ég minnist þess eiginlega ekki að hafa heyrt jafnútlenskuskotna ræðu flutta úr þessum ræðustóli og hans ræðu áðan. Það var alveg með sérstökum hætti. En ef hans lesning og lærdómur í þessum efnum er í takt við það þegar hann var að þýða hér eitt orð úr enskri tungu í þessum ræðustóli, þá gef ég ekki mikið fyrir vinnubrögðin. (Gripið fram í.) Nei það er rétt, hv. þm., en sumir eru það. Og þá heyra þeir kannske það sem aðrir ekki heyra. Ég heyrði að hann talaði um þolgæði og nefndi í sömu andránni að það væri þýðing á enska orðinu „redundancy“. Það er algjör misskilningur. Ef aðrar þýðingar þessa hv. þm. eru á borð við þetta gef ég ekki mikið fyrir hans málflutning. Orðið „redundancy“ getur ekki þýtt þolgæði. Hv. þm. getur leitað í öllum orðabókum. Orðið þýðir allt annað.

Það hefur í þessum umr. öllum verið vitnað mikið til Arkins, einkavinar hv. þm., um varnir Íslands. Hann hefur komið þar við sögu, varð frægur þegar við áttum um hann nokkur orðaskipti í Ed. við hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson. Hann kom nú raunar ekki hingað þá, en lét Ríkisútvarpið eiga viðtal við sig um það að hér væru geymd kjarnorkuvopn. Mér eru afar ljós í minni þau orðaskipti sem við hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson áttum um það fyrir þremur árum í hv. Ed. Alþingis. Nú gerðist það á þessu hausti að Ólafur Ragnar Grímsson kom með þennan ágæta mann í heimsókn í þetta hús á fund sem haldinn var í þingflokksherbergi framsóknarmanna þar sem William Arkin byrjaði á því að segja: Mínir kæru vinir. Ég sagði vorið 1982 að hér væru geymd kjarnorkuvopn. Ég hafði rangt fyrir mér. Síðan fór hann með miklar fullyrðingar um að hér væru uppi áætlanir um að geyma kjarnorkuvopn, koma fyrir hér kjarnorkuvopnum. Eitthvað hefur hann nú orðið að draga í land með það, lítið eitt a. m. k. (Gripið fram í.) Svona lítið eitt a. m. k. En ég dreg ekkert úr því að það er alvarlegt mál þegar bandarísk yfirvöld í hermálaráðuneytinu gera áætlanir af því tagi sem komið hafa í ljós og það án vitundar íslenskra stjórnvalda. Og þótt slíkar áætlanir séu ekki samþykktar af æðri stjórnvöldum eru þær engu að síður ekki gott mál.

Í þessum umr. hefur verið vikið af því sem menn kalla „bænarskrá Vestfirðinga“ og hv. 11. þm. Reykv. gerði það mái að meginefni sinnar ræðu. Hvað búa margir á Vestfjörðum? (Gripið fram í: Spurðu Karvel.) Ég er búinn að spyrja hann að því, hv. þm. 9–10 þús. manns. Það eru 100 manns sem skrifa hér undir þetta. Hvernig er hægt að kalla þetta bænarskrá Vestfirðinga? Þetta er bænarskrá nokkurra Vestfirðinga eða fáeinna.

Í viðtali við Þjóðviljann 6. des. 1984 ræðir blaðamaður Þjóðviljans við áðurnefndan William Arkin um þessar ratsjárstöðvar. Arkin er þá raunar að endursegja kafla úr fyrirlestri sem hann flutti í félagsvísindadeild Háskólans. Hann er þar að tala um umræðurnar um þessi mál og segir þá það sama og hann sagði á fundinum með okkur fulltrúum þingflokkanna í þessu húsi um þetta leyti:

Þessar ratsjárstöðvar eru algjört smáatriði. Orðrétt segir, með leyfi forseta, í Þjóðviljanum: „Einu ráðin sem ég get gefið í þessu sambandi eru þau að umræðan hér á Íslandi um þessi mál þarf að breytast. Hún á ekki að snúast um smáatriði eins og ratsjárstöðvar. Hún á að snúast um heildarstefnu og meginmarkmið.“

Það er afar auðvelt að taka undir þetta. Títtnefndur Arkin metur það svo að þessar ratsjárstöðvar séu smáatriði. (Gripið fram í: Einar sér.) Ég held í rauninni að þær séu ákaflega lítilvægt atriði vegna þess að í rauninni er aðeins verið að endurnýja það sem áður var. Það er í rauninni ekki verið að bæta neinu við það sem fyrir var — áður en önnur þessara stöðva fauk af fjallinu og hin var lögð niður um sinn. Það er alveg bjargföst sannfæring mín og grundvallarskoðun að þar sem við höfum hér uppi viðbúnað til varna af þessu tagi, þ. e. við viljum fylgjast með því hverjir fara um lofthelgi Íslands og flugstjórnarsvæðin og flugumferðarsvæðin hér umhverfis landið, eigum við að láta fylgjast með því og eigum að fylgjast með því með góðum úfbúnaði þannig að við vitum hverjir fara um þessi svæði. Sovéskar herflugvélar fara um þessi svæði í vaxandi mæli. Sovéskar herflugvélar tilkynna ekki flugstjórn um ferðir sínar. Það gera þær hvergi. (Gripið fram í: Gera bandarískar herflugvélar það?) Já, ég geri ráð fyrir því að íslenska flugumferðarstjórnin viti um ferðir þeirra. Ég er raunar viss um það. En sovéskar herflugvélar gera það ekki. Þær gera það ekki hér og þær gera það hvergi nema kannske í Sovétríkjunum. Þess vegna er það öryggisatriði, m. a. fyrir farþegaflug hér, að fylgst sé með ferðum þessara flugvéla yfir og við landið. Mér finnst það bara sjálfsagðir hlutir.

Það hefur áður verið bent á að þessar ratsjárstöðvar geta komið okkur að ýmsum öðrum notum, t. d. við flugöryggi á flugleiðum hér innanlands, og hafa andstæðingar málsins kappkostað að sýna það og baða það í röngu ljósi að hér sé fyrst og fremst um einhvers konar árásarmannvirki að ræða eða mannvirki sem séu liður í einhvers konar árásarkeðju. Þetta er algjör misskilningur og er raunar angi af þeirri almennu stefnu sem Alþb. fylgir í þessum efnum sem er eins gott að mönnum sé alveg ljós og skýr: Alþb. vill engar varnir hér og vill Ísland úr varnarsamstarfi vestrænna þjóða.

Ég gef mér að það sé óraunhæfur kostur og valkostur sem ekki sé fyrir hendi að landið sé gjörsamlega óvarið og hér sé ekki fylgst með gestum og gangandi í, við og kringum landið. Alþb. hefur aldrei sagt hvað ætti að taka við ef hér væru ekki varnir á vegum Atlantshafsbandalagsins. (Gripið fram í: Efla landhelgisgæsluna.) Efla landhelgisgæsluna, sagði hv. þm. Ég minnist þess ekki að hafa heyrt að það væri stefna Alþb. að Landhelgisgæslan ætti að taka við hlutverki varnarliðsins. Það liggur þá fyrir núna. (Gripið fram í.)

Ég ætla ekki, virðulegi forseti, að hafa að þessu sinni um þetta fleiri orð. Við Alþfl.-menn erum, svo sem ég áður sagði, andvígir þessari till. og munum greiða atkv. gegn henni.