21.03.1985
Sameinað þing: 62. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3770 í B-deild Alþingistíðinda. (3101)

206. mál, nýjar hernaðarratsjárstöðvar á Íslandi

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Já, meira að segja konur, gamalmenni og börn, sagði hv. þm. Hann taldi mig í sinni ræðu vera af kaldastríðskynslóðinni. En ég veit satt að segja ekki af hvaða kynslóð þeir menn eru sem tala með þeim hætti sem hann gerði og nota svona orðtök.

Varðandi það sem hann sagði og vék að áðan varðandi þýðingar, sem er kannske hreint smáatriði, þá er mér alveg ljóst, eftir það sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að hann kann ágæta vel ensku, en ég efast hins vegar um að hann kunni íslensku þegar hann notar orðið þolgæði eða þolgóður í tengslum við þau orð sem hann notaði, redundancy og overkill.

Í orðabók Menningarsjóðs þýðir þolgóður: þolinn, þrekmikill, þrautseigur, en þolgæði: þrautseigja, þrek, þolinmæði. Þetta kemur ekkert inn í þetta mál. Þarna er einhver meiri háttar misskilningur á ferðinni. Ég veit að hv. þm. mun ná vopnum sínum áður en yfir lýkur í þessu máli og átta sig á því hvað um er að tefla, en þarna eru menn að tala um tvo óskylda hluti.

Hann þakkaði mér fyrir málefnalega ræðu. Ég tek þeim þökkum hans því ég veit hvað það fer í taugarnar á þeim ágætu Alþb.-mönnum þegar nokkurn vegin vafningalaust er talað um þeirra utanríkisstefnu og hlutirnir kallaðir sínum réttu nöfnum.

Annað var það í hans röksemdafærslu í síðari ræðu hans sem ég hreint ekki skildi og lái mér nú hver sem vill. Hann talaði um ratsjárstöðvar sem væru auðsæjanlega gjarnan staðsettar á tindum fjalla og illt þær að verja. Þess vegna væru þær árásarmannvirki. Geta hv. þm., þeir fáu sem hér hafa nennu til að hlýða á þessar umr., komið þessu heim og saman? — Kveður nú hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson sér hljóðs og telur nauðsynlegt að koma til bjargar með útskýringar. Gott er það. — Þessa röksemdafærslu fæ ég hreinlega ekki skilið. Auðskilið er að þessar stöðvar eru staðsettar á fjallatindum og þess vegna auðveld skotmörk. En að þær séu þess vegna árásarmannvirki er gersamlega út í hött.

Út í umræður um hver sé góður Íslendingur hætti ég mér ekki, enda hef ég komið til Sovétríkjanna svo að ég er sjálfsagt af lakari sortinni ef því er til að dreifa og skal svo sem ekki gera mikið úr því hér, þó að oft hafi verið á það minnst, að margir af forustumönnum Alþb. hafa stundað nám fyrir austan járntjald. Það er ekkert um það að segja annað en að það er staðreynd sem hvorki verður neitað né hún afmáð. En ég er ekki að segja að við séum neitt verri Íslendingar fyrir það. Það dytti mér aldrei í hug. Og þó að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon rugli saman fréttastofunum AP og APN er ekki líku saman að jafna þar sem önnur er áróðursmiðstöð sovéska heimsveldisins sem sendir út alls konar gögn, upplýsingar, sem ég því miður kann ekki að nefna, og þar brestur mig íslenskukunnáttuna, sem á ensku hafa verið kallaðar disinformation. Það er þegar óhróður og lygar eru send út í nafni frétta eða sannra og réttra upplýsinga. Hitt er víðkunn fréttastofa og áreiðanleg að ég hygg, a. m. k. talin það.

Ég ætla ekki, virðulegi forseti, að lengja þessa umr. mjög og skal nú senn ljúka máli mínu. Eitt vil ég þó ítreka hér vegna þess að hv. 11. þm. Reykv. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir talaði hér á þann veg að þeir nálægt 100 einstaklingar sem skrifa undir bænarskrá Vestfirðinga, sem birt er sem fskj. I með þessum tillögum, skrifuðu þar undir sem fulltrúar. Nú spyr ég: Í hvers nafni fullyrðir hún það? Það stendur ekkert í þessari bænarskrá annað en þetta, með leyfi forseta:

„Samviska okkar, sem ritum nöfn okkar á þessa bænarskrá, neyðir okkur til að mótmæla fram komnum hugmyndum“ o. s. frv.

Þessir aðilar skrifa undir sem einstaklingar. Það er rangt þegar hv. þm. heldur því fram úr ræðustól að þessir einstaklingar hafi skrifað undir sem fulltrúar annarra einstaklinga. Það er einfaldlega ekki rétt. Þess vegna ber auðvitað að hafa það sem sannara reynist í þeim efnum.

Ég held að það sé ekki rétt að upphefja hér neina umr. um stefnu þeirra Kvennalistakvenna, sem svo kalla sig, og þann grundvöll, ef grundvöll skyldi kalla, sem þær telja þá stefnu hvíla á. Það sem mér þykir minnst geðfellt í öllu þeirra tali er sú staðreynd að þær vilja ala á úlfúð og illindum milli kynjanna. Oft búa þær til ágreining þar sem enginn ágreiningur er og vilja skapa ófrið þar sem friður er fyrir. Sumir vilja ganga svo langt að kalla þessa stefnu eins konar aðskilnaðarstefnu. Ég er ekki að segja að svo sé. En þetta er ekki manneskjuleg stefna vegna þess að grundvöllur hennar er ekki manngæska, sáttir og samlyndi, heldur fyrst og fremst það að ala á úlfúð milli kynjanna, ekki að sætta og ekki að bæta og m. a. s., þar sem þess gefst kostur, að ráðast til atlögu við íslenskt mál með því að búa til orð eins og „þingkona“. Mér er það minnisstætt þegar ég sem þingfréttamaður, líklega fyrir 22–23 árum, sat uppi á þessum svölum og hlustaði á dr. Bjarna heitinn Benediktsson forsrh. halda hér ræðu þar sem var verið að tala um orð og orðnotkun. Þá sagði hann þau orð sem mér hafa ekki liðið úr minni: „Samkvæmt íslenskri málvenju fornri eru konur menn.“ Menn geta flett þessu upp í þingtíðindum ef þeir vilja.

Mesta hrósyrði sem hægt er að segja um nokkurn mann á íslensku er að hann sé drengur góður. Ég man það í gagnfræðaskóla eða þar um bil þegar góður íslenskukennari leiddi okkur í sannleika um að þessi orð ættu ekki síður við um konur. Það er kannske á stefnu Kvennalistans líka að leggjast gegn því að orðin „drengur góður“ séu notuð um konur. Ég vona að svo sé ekki, en þegar fólk leggur það á sig að búa til orðskrípi eins og „þingkona“ veit maður aldrei á hverju má eiga von. Ég minnist þess úr blaðamennsku, fyrir allmörgum árum raunar, á mínum byrjunarárum þar, að það var stolt kvenna, sem unnu a. m. k. á því blaði sem ég starfaði við, að þær væru ekki blaðakonur, þær væru blaðamenn. (HG: Hvað er til umræðu?) Hvað er til umr. hér, hv. þm. Hjörleifur Guttormsson? Ég hef kannske talað óvenjulengi núna, ég skal viðurkenna það. Þó held ég að ég eigi töluverðan kvóta eftir, ef miðað er við suma a. m. k. Það sem er hér til umr. er till. um að falla frá hugmyndum um að reisa nýjar hernaðarratsjárstöðvar á Íslandi sem flokksbróðir þm. hefur flutt. Það skulu verða mín síðustu orð. Hann vitnaði í William Arkin og þau orð, sem ég hafði haft eftir honum hér í þessum ræðustóli, að þessar radarstöðvar einar sér væru smámál og var hann alveg sammála því. En þessi þáltill. hv. þm. fjallar um þessar ratsjárstöðvar einar sér og ekkert annað.