26.03.1985
Sameinað þing: 64. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3825 í B-deild Alþingistíðinda. (3170)

325. mál, samfelldur skólatími

Salome Þorkelsdóttir:

Herra forseti. Ég finn mig knúna til að segja hér nokkur orð varðandi þessa fsp. hv. 10. landsk. þm., þar sem fram hefur komið að ég er formaður þess vinnuhóps sem fékk þetta mál til umfjöllunar. Ég vil aðeins upplýsa hv. þm. um það að þegar þessari þál. var vísað til vinnuhópsins var hópurinn langt kominn með að vinna að þeirri áfangaskýrslu sem minnst hefur verið hér á bæði af hv. þm. og hæstv. menntmrh. En þann þátt, sem okkur var jafnframt falið að vinna að, þ. e. könnun á kostnaði við að koma á samfelldum skóladegi og kostnaðarauka sem hlytist af breyttu fyrirkomulagi nestismála eða máltíðum skólabarna, hafði vinnuhópurinn þá þegar ákveðið að láta bíða seinni áfanga skýrslunnar. Og það er einmitt það sem hefur gerst, að okkur þótti þetta tvennt fara saman, þ. e. þál. og vinnuaðferðir hópsins. Eins og kom fram í máli hæstv. ráðh. er þetta starf einmitt í gangi núna.

Það sem við gerðum í fyrsta lagi var að ég mætti ásamt starfsmönnum menntmrn. sem eru í vinnuhópnum á fundi með öllum fræðslustjórum, sem hér voru staddir í höfuðborginni fyrir nokkrum vikum, og við fjölluðum um þetta mál. Við leituðum m. a. álits þeirra á því hvernig best væri að standa að slíkri könnun. Þetta er byrjunin, því að það er augljóst mál að það getur orðið mjög kostnaðarsamt og mikil vinna að gera slíka könnun. Þess vegna þótti okkur rétt að bera okkur saman við þá menn í hverju byggðarlagi sem hafa með fræðslumálin að gera. Þekkja vel til á hverjum stað og búa jafnframt yfir miklum upplýsingum og hafa væntanlega bestu hugmyndirnar um hvernig hægt væri að standa að þessu. Ég get upplýst það að við höfum nú þegar fengið bréf frá tveimur fræðslustjórum um þeirra hugmyndir og tillögur um hvernig standa beri að slíkri könnun. En við erum að bíða eftir bréfum frá öðrum og fyrr verður ekki tekin ákvörðun um framhald vinnunnar.

Þetta þykir mér rétt að komi fram. Ég held að það gæti nokkurs misskilnings hjá hv. 10. landsk. þm., að þetta sé allt annað mál sem hér sé verið að fjalla um. Þetta er liður í því sem vinnuhópurinn hafði til umfjöllunar. En okkar fyrsti áfangi, þessi áfangaskýrsla sem nú liggur fyrir, fjallar ekki um kostnaðarþáttinn. Sú ákvörðun var tekin strax í upphafi vinnunnar að láta þann þátt þessa verkefnis bíða vegna þess hve hann yrði umfangsmikill. Ég vænti þess að við eigum eftir að geta gefið þær upplýsingar, sem farið er fram á að við gefum skv. þessari þál.