26.03.1985
Sameinað þing: 64. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3841 í B-deild Alþingistíðinda. (3190)

374. mál, vatnstaka Íslandslax hf. í Grindavík

Guðmundur H. Garðarsson:

Herra forseti. Ég var eiginlega kominn í ákveðið bindindi þegar ég kom hingað á þing. Ég hafði heitið sjálfum mér því að ræða ekkert um SÍS á hv. Alþingi og drekka ekki Bragakaffi. Ég sé að því miður hlýt ég að brjóta annað bindindið, þ. e. að tala ekki um hið virðulega „fyrirtæki“ sem heitir Samband ísl. samvinnufélaga.

Það er satt að segja hörmulegt hversu oft er rætt um þessi samtök á hv. Alþingi með þeim hætti sem gert er í dag. Það þarf ekki að hafa mörg orð um það sem gerst hefur í því máli sem er til umr. Það vekur athygli, eins og kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, og er spurning hvort hv. Alþingi verður ekki að grípa í taumana, þegar það er upplýst af ráðh. að hann lætur af hendi almannaeign á gjafverði, þ. e. hita- og vatnsveituréttindin í Staðarlandi í Grindavík. Þetta er svo alvarlegt mál að einhvern tíma hefðu Alþingi Íslendinga, einstakir ráðherrar eða ríkisstjórn gripið til þess að stöðva slíka framkvæmd. Ég leyfi mér að halda því fram að ráðh. hafi ekki leyfi til að framselja þetta land með þeim hætti sem hann hefur gert.

Svo kemur önnur spurning sem hlýtur að snúa að þeim sem búa í Grindavík: Hvers vegna fékk Grindavíkurkaupstaður ekki að kaupa Staðarland? Hvers vegna var ekki rætt við Grindvíkinga þegar verið var að ganga frá samningum við Samband ísl. samvinnufélaga?

Ég hef ásamt fleirum komið nokkuð við sögu fiskeldis á Suðurnesjum. Ég hef verið þátttakandi í Fjárfestingarfélaginu sem er að reyna að koma á hafbeit í Vogum. Ég kannast ekki við að ríkisvaldið hafi hjálpað okkur eða stutt okkur í einu eða neinu. Hins vegar hefur það gerst alveg nýlega að nú á að fella niður öll aðflutningsgjöld í sambandi við fiskeldi á Íslandi. Það var ákveðið á því herrans ári 1985, í janúar, þegar umrætt fyrirtæki, Samband ísl. samvinnufélaga, var búið að tryggja sér þessi lönd og fjármuni til að fara út í þessa atvinnugrein. Áður varð ekki vart við sérstakan vilja af hálfu ríkisvaldsins til að hjálpa þeim sem hafa verið að vinna að fiskeldi á Íslandi. Ég kannast ekki við mikilvægan stuðning við Fjárfestingarfélagið eða aðra af hálfu ríkisvaldsins á umliðnum árum í sambandi við fiskeldi. Hér er annar hv. þm., Eyjólfur Konráð Jónsson, sem er búinn að berjast í þessu máli í áratugi. Ég hygg að hann geti betur rakið afskiptaleysi og áhugaleysi ríkisvaldsins á málefnum fiskeldis.

Ég mun ekki ræða þetta mál frekar, en ég hlýt að endurtaka og óska eftir svari við því: Hvers vegna fékk Grindavíkurkaupstaður ekki ítarlegar umræður um hugsanleg kaup á Staðarlandi? — Ég varpa að lokum fram þeirri hugmynd hvort Alþingi eigi ekki að beita sér fyrir að stöðva það sem er að gerast í Grindavík í sambandi við Íslandslax.