27.03.1985
Efri deild: 53. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3889 í B-deild Alþingistíðinda. (3229)

382. mál, Sementsverksmiðja ríkisins

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins sem er að finna á þskj. 611. Í rúman fjórðung aldar hefur íslenska ríkið átt og rekið sementsverksmiðju á Akranesi. Það er skemmtileg tilviljun að þegar notkun sements hófst hérlendis um 1880 var það einmitt á Akranesi, að talið er, sem sement var fyrst notað við gerð prestsseturshúss að Görðum. En fyrsta húsið, sem byggt var hérlendis úr steinsteypu eingöngu, var reist uppi í Borgarfirði árið 1897. Það var í Sveinatungu í Norðurárdal.

Í lok heimsstyrjaldarinnar, á árinu 1945, var ársnotkun hérlendis á sementi orðin um 43 þús. tonn. Hafði notkunin þá tvöfaldast á 15 árum og fór notkun sements ört vaxandi úr því. Hugmyndin um byggingu sementsverksmiðju fékk þess vegna byr undir báða vængi.

Veturinn 1946 réði ríkisstj. Harald Ásgeirsson efnaverkfræðing til þess að kanna skilyrði til framleiðslu sements hér á landi. Skilaði hann skýrslu um það efni í apríl 1946. Á árinu 1947 var svo flutt frv. á Alþingi um slíka framkvæmd. Varð það að lögum 1948. Þau lög eru í eðli sínu einungis heimildarlög fyrir ríkisstj. til þess að láta byggja sementsverksmiðju. Eru þau að meginstofni enn í gildi og má segja að orðið sé tímabært að setja varanlega löggjöf um verksmiðjuna, hlutverk hennar, rekstur og stjórnun.

Árið 1949 var skipuð nefnd þriggja verkfræðinga undir forustu dr. Jóns E. Vestdal til þess að undirbúa byggingu verksmiðjunnar. Nefndin lauk störfum það ár og skipaði þáv. atvinnumálaráðherra sama ár fyrstu stjórn Sementsverksmiðju ríkisins. Næstu ár var unnið að undirbúningi og rannsóknum vegna verksmiðjunnar. Var henni valinn staður á Akranesi. Bygging verksmiðjunnar hófst árið 1955 og lauk á árinu 1958. Vígsla hennar fór fram 14. júní það ár. Mestur hluti byggingarframkvæmdanna fór fram á árunum 1956 og 1957 og var það mikið átak að ljúka við þetta mikla mannvirki á svo skömmum tíma. Öll byggingarmannvirki voru hönnuð innanlands hjá Almenna byggingarfélaginu, en vélbúnaður og tæknileg hönnun var fengin hjá fyrirtækinu F. L. Smidth í Kaupmannahöfn. Verksmiðjan var hönnuð fyrir 75 þús. tonna framleiðslu á ári. Kostaði verksmiðjan á verðgildi ársins 1958 um 120 millj. kr. og var hún öll fjármögnuð með erlendum lánum.

Það er rétt að það komi fram hér að eigandi verksmiðjunnar, ríkissjóður, hefur aldrei lagt henni til fé. Allt, sem frá ríkissjóði hefur komið, er niðurfelling á tolli að fjárhæð 120 þús. kr. og var þó reyndar ágreiningur um hvort sá tollur væri löglegur. Allt frá byrjun starfsemi Sementsverksmiðjunnar má segja að framleiðslan hafi gengið mjög vel. Hefur Sementsverk, miðjan framleitt árlega að meðaltali um 100 þús, tonn af sementi úr eigin sementsgjalli. Frá upphafi hafa verið framleiddar tvær gerðir af sementi, venjulegt Portlandssement og svo hraðsement. Árið 1959 hófst framleiðsla á þriðju tegundinni sem nefnd hefur verið Faxasement og er notuð í efnismiklar steypueiningar. Íslendingar nota sement einna mest allra þjóða miðað við hvern íbúa. Þeir voru t. d. í öðru sæti á eftir Sviss árið 1960 og í þriðja sæti árið 1966, svo dæmi séu tekin.

Framleiðslan í verksmiðjunni var þó meiri en notkunin innanlands fyrstu árin. Breyting varð á þessu fyrir miðjan sjöunda áratuginn er salan fór árlega upp fyrir 100 þús. tonn nokkur ár í röð.

Þegar leið á áttunda áratuginn jókst salan mjög mikið og varð þá að flytja inn gjall til þess að anna innanlandsþörfinni. En sement hefur reyndar líka verið flutt út. Þegar notkun sements minnkaði hér mjög á árunum 1960 til 1962 átti verksmiðjan við mikinn vanda að stríða. Kom þá upp sú hugmynd að reyna að finna íslenska sementinu markað erlendis. Margir voru vantrúaðir á að það tækist. Leitaði verksmiðjan sjálf markaðs og að honum fundnum á Bretlandseyjum gerði verksmiðjustjórnin undir forustu stjórnarformannsins Ásgeir Péturssonar sölusamninga. Sementið var svo flutt út sekkjað og fóru 51 þús. tonn til Bretlandseyja. Fram kom að þótt sementsverðið væri lægra en á heimamarkaði var fjárhagslega betri kostur að selja framleiðsluna þannig úr landi en að stöðva rekstur verksmiðjunnar. Verðið svarar rúmlega til breytilegs kostnaðar. Auk þess fékkst við þennan útflutning margháttuð dýrmæt reynsla og staðfesting á gæðum framleiðslunnar. Síðar voru flutt út 10 þús. tonn af gjalli til Danmerkur. Þessir flutningar á sementi sköpuðu líka verðmæt verkefni fyrir íslenskar siglingar sem lægð var í á þeim árum.

Þegar Sementsverksmiðjan hóf rekstur 1958 var talið að sementið, sem hún framleiddi, væri svipað að gæðum og sement sem framleitt var í nágrannalöndum okkar. Kemur þetta m. a. fram í því að sementið, sem flutt var til Bretlandseyja á árunum 1961–1963, stóðst allar gæðakröfur þær sem byggðar voru á breskum rannsóknum. Um 1970 kom fram hörð gagnrýni á gæði íslenska sementsins hérlendis, en þessi gagnrýni var einatt, eins og reyndar þekkist oft og tíðum gagnvart íslenskum iðnvarningi, ósanngjörn eða þá hreinlega á misskilningi byggð. Það er að vísu rétt að styrkleiki íslenska sementsins breyttist ekki að ráði á sjöunda áratugnum þegar framfarir urðu hins vegar töluverðar á því sviði í nágrannalöndunum. Þau eru vissulega leiðandi í sementsframleiðslu í heiminum og ekkert undarlegt við það að íslenska framleiðslan væri nokkuð á eftir á þessum tíma.

Hvað alkalíinnihald snerti voru það hin sérstæðu íslensku hráefni sem voru orsökin og gagnstætt því, sem gagnrýnendur héldu fram, var ekki raunverulegur möguleiki að breyta þessu að neinu ráði þá. En á þessum tíma var þegar hafin vinna til þess að bæta gæði íslensks sements. Rannsóknir á vegum steinsteypunefndar, sem framkvæmdar voru á Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins, hófust árið 1967. Þeim var í fyrstu mest beint að alkalírannsóknum. Sementsverksmiðjan var aðili að steinsteypunefnd allt frá byrjun.

Árin eftir 1970 hófust markvissar aðgerðir í Sementsverksmiðjunni til að bæta gæði sementsins. Þessar aðgerðir voru að hluta byggðar á framangreindri framþróun sementsgæða erlendis frá en aðallega þó á niðurstöðum rannsókna hjá Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins. Er nú svo komið að allar líkur eru á því að íslenska sementið standi jafnfætis sambærilegum erlendum tegundum að styrkleika, en svo virðist það hafa fengið ýmsa aukakosti fram yfir erlent sement, sérstaklega eftir að járnblendirykinu frá Grundartanga var blandað í hið íslenska sement.

Það væri vissulega áhugavert að gera hér nánar grein fyrir rannsóknum og þróunarverkefnum sem staðið hafa yfir í Sementsverksmiðjunni, en þess er ekki kostur nú. Aðeins skal minnt á rannsóknir sem lúta að vörnum gegn alkalívirkni, vöruþróun, nýtingu perlusteins, rannsóknir á hugsanlegri brennslu sements með rafmagni, en sú tækni er enn lítt þekkt í heiminum.

Á s. l. áratug hefur Sementsverksmiðjan unnið mjög að því að styrkja stöðu fyrirtækisins á tveimur mikilvægum sviðum. Eru þau á sviði framleiðslugæða og umhverfisverndar. Hefur umtalsverðum fjármunum verið varið til þessara tveggja málaflokka. Þriðja sviðið, orkunýting eða orkusparnaður, tók einnig mikinn tíma og fjármagn, en fjármagnið hefur þar skilað sér fljótt til baka. Svo er ekki um hin sviðin tvö að vísu, þau skila sér óbeint fjárhagslega og á miklu lengri tíma.

Ýmsa lærdóma má draga af framleiðslu og sölu Sementsverksmiðjunnar á liðnum aldarfjórðungi eins og nærri má geta. Eitt er það að notkun sements er greinilega næmari fyrir breytingum á hinu almenna ástandi í efnahagsmálum þjóðarinnar en sjálfu verði sementsins. Dragi úr vexti þjóðarframleiðslu kemur það mjög skjótt fram í minnkandi sementssölu, mun fyrr en dæmi eru til um í öðrum löndum. Það er athyglisvert að aukning á sementsnotkun fylgir aukningu þjóðarframleiðslunnar einungis að vissu marki. Er trúlegt að hámark notkunar takmarkist í því efni af framboði á vinnuafli og tæknilegum aðstæðum á hverjum tíma.

Á fyrstu árum Sementsverksmiðjunnar var sementið eingöngu selt sekkjað og flutt þannig til Reykjavíkur og annarra staða á landinu. Mikil breyting í framfaraátt varð þegar verksmiðjan lét byggja sérhannað skip, Freyfaxa, árið 1966. Þetta skip, sem gat flutt rösklega 1200 lestir af sekkjuðu sementi, flutti sement á nær allar hafnir landsins að Reykjavík undanskilinni, samtals 40 talsins. Auk þess flutti það hráefni og vörur til verksmiðjunnar erlendis frá þegar tími gafst til.

Árið 1966 var farið að selja sement í lausu máli, fyrst til Búrfellsvirkjunar. Á því ári var hafist handa um að koma upp móttökustöð fyrir laust sement í Reykjavík. Sementsverksmiðjan hafði birgðastöð við Reykjavíkurhöfn. Mjög var orðið þröngt um afgreiðslu Sementsverksmiðjunnar þar og fékk verksmiðjan þá lóð í Ártúnshöfða fyrir afgreiðslu og móttökustað. Þar voru reistir sementstankar til móttöku á lausu sementi. Stöðin tók til starfa árið 1968 og var lítil söluskrifstofa starfrækt í Ártúnshöfða. Brátt fékk verksmiðjan fleiri tankbifreiðir og hóf að afhenda laust sement til steypustöðva á Reykjavíkursvæðinu. Hlutur lausasementsins í sölunni varð fljótlega mjög mikill, var 50% og þar yfir strax eftir 1970. Með árunum hafa stöðugt fleiri steypuframleiðendur aflað sér tækja til móttöku á lausu sementi og eru nú um 2/3 sementsins seldir í lausu máli.

Stöðin í Ártúnshöfða breytti mjög flutningaaðferðum á sementi og magn sements sem fór um Reykjavík jókst. Árið 1977 var sett upp pökkunarvél í Ártúnshöfða en við það jókst flutningur á lausu sementi þangað. Gamla ferjan varð þá brátt of lítil og árið 1976 var hafin smíði á nýju tankskipi hjá skipasmíðastöð Þorgeirs og Ellerts á Akranesi. Hlaut skipið nafnið Skeiðfaxi og ber um 500 tonn af lausu sementi. Hóf það flutninga vorið 1977. Á þessum tíma var einnig farið að huga að uppsetningu móttökustöðva fyrir laust sement úti á landi. Árið 1978 setti Steiniðjan á Ísafirði upp litla móttökustöð þar með aðstoð Sementsverksmiðjunnar og vorið 1980 var lokið við byggingu stórrar móttökustöðvar fyrir laust sement í Krossanesi við Akureyri.

Sementsverksmiðjan notaði svartolíu til brennslu á gjallinu frá upphafi og til 17. júlí 1983 er farið var að brenna kolum í stað olíu. Þegar hinar miklu olíuhækkanir urðu á árinu 1973 og síðan næstu árin á eftir var farið að huga að notkun kola í stað olíu þar sem kolaverð var mun lægra en olíuverð. Ákvörðun verksmiðjustjórnarinnar í þessu efni var tekin 1980 og starfsleyfi fékkst 1981. Margir óttuðust mengun frá kolabrennslu en góður hreinsibúnaður kemur í veg fyrir mengun.

Verð á sementi fyrstu ár verksmiðjunnar var ákveðið aðeins lægra en verð var þá á innfluttu sementi. Rekstursafkoma verksmiðjunnar var sæmileg fyrstu árin, jafnvel þótt sementsverð hækkaði ekki mikið. T. d. hélst sama verð allt frá árinu 1964 til 1968. En það ár breyttist þetta mjög til verri vegar. Þung erlend lán hvíldu á verksmiðjunni, bæði frá byggingu hennar og síðar vegna uppbyggingar í Ártúnshöfða, kaupa á Freyfaxa og alls þess vandaða flutninga- og dreifikerfis fyrir sement sem verksmiðjan kom sér upp á þessum tíma.

Miklar gengisbreytingar og lítill varasjóður urðu þess valdandi að taka þurfti óhagkvæm rekstrarlán sem íþyngdu fyrirtækinu mjög síðar. Við þetta bættist svo mikil minnkun í sölu sements árin 1969 og 1970. Á árunum eftir 1970 var afkoma verksmiðjunnar talsvert erfið, sérstaklega árin 1972–1975 þegar verulegt rekstrartap varð hjá verksmiðjunni. Af þessum orsökum hlóðust upp vanskilaskuldir við lánardrottna. Vegna þessarar skuldasöfnunar skipaði forsrh. nefnd síðla árs 1975 til þess að kanna hvernig koma mætti rekstrargrundvelli Sementsverksmiðjunnar á réttan kjöl. Nefndin skilaði áliti sumarið 1976 og taldi hún að fjárhagserfiðleikar verksmiðjunnar stöfuðu aðallega af rangri verðlagsstefnu stjórnvalda. Skömmu síðar ákvað þáv. ríkisstj. að framvegis skyldi stjórn verksmiðjunnar ákveða verð á sementi að fengnu samþykki iðnrn.

Árið 1976 var hagnaður af rekstri sementsverksmiðjunnar en árið 1978 fór aftur að síga á ógæfuhliðina. Ákvörðuninni um að stjórn fyrirtækisins skyldi ákvarða verð á sementi var hnekkt og sérstakri nefnd, gjaldskrárnefnd, aftur falið það hlutverk. síðla árs 1979 fékk verðlagsráð í hendur verðlagningu á sementi í framhaldi af samþykkt nýrra laga, um verðlag o. fl., sem tóku gildi 1. nóv. 1979. Öll árin 1978 til og með 1981 var mikill taprekstur á verksmiðjunni.

Ekki fer það milli mála að einhver erfiðustu mál, sem verksmiðjustjórnin hefur haft við að glíma á liðnum árum, eru verðlagsmálin. Það var löngum tilhneiging stjórnvalda að flytja aðsteðjandi vanda fram í tímann, geyma vandann. Þetta leiddi svo til þess að sement hefur á ýmsum tímum verið selt talsvert undir raunverulegu kostnaðarverði. Það hefur svo aftur í för með sér að æ oftar hefur verið gripið til þess ráðs að taka erlend lán til þess að leysa aðsteðjandi vanda. Afleiðingar þess eru svo auðvitað þær að sementsverð í dag er talsvert hærra en orðið hefði ef eðlilegra verðlagssjónarmiða hefði ávallt verið gætt. Miklar sveiflur á sementsverði milli ára valda því einnig að það hefur orðið býsna ólík útkoma hjá húsbyggjendum eftir því hvenær þeir réðust í byggingarframkvæmdir. Augu stjórnvalda hafa nú opnast fyrir því að ný stefna verði að leysa þá eldri af hólmi, því blindingsleikurinn með verðlagið hefur verið afar óskynsamlegur svo ekki sé meira sagt.

Nú eru liðin 27 ár frá því að Sementsverksmiðja ríkisins tók til starfa. Mikil verðmæti hafa verið sköpuð og dýrmæt reynsla hefur áunnist. Sú reynsla á að geta vísað veginn bæði um farsælar leiðir fyrir verksmiðjuna sjálfa svo og fyrir þjóðarbúið í heild. Ef reynslan, sem fengist hefur, er réttilega hagnýtt gæti hún orðið forsenda þess að koma á fót nýjum atvinnuháttum, nýjum iðnaði, en kjarabætur í þjóðfélaginu byggjast á aukinni og bættri framleiðslu.

Með frv. þessu, sem að stofni til er samið af Ásgeiri Péturssyni bæjarfógeta, Björgvini Sigurðssyni hæstaréttarlögmanni og Eiríki Tómassyni hæstaréttarlögmanni, er lagt til að stofnað verði hlutafélag um rekstur Sementsverksmiðjunnar. Telja verður rökrétt og eðlilegt að velja hlutafélagsformið um atvinnurekstur á vegum ríkisins. Hlutafélagsformið er bæði viðurkennt og vel þekkt félagsform sem löggjafinn hefur sett ítarlegar reglur um. Í þeirri löggjöf eru nákvæmar reglur um starfssvið stjórnar, framkvæmdastjórnar og aðalfundar. Í hlutafélagalögum eru ákvæði er vernda rétt minni hluta eigenda. Þar sem ríkið býður öðrum samstarf er því sérstaklega viðeigandi að nota hlutafélagsformið. Þá eru einnig af stjórnunarlegum ástæðum sterk rök til að gera öll ríkisfyrirtækin að hlutafélögum. Kosturinn við þetta er enn fremur sá að félaginu er settur sami almenni starfsrammi og flestum atvinnufyrirtækjum í landinu, þ. e. rammi hlutafélagalaga. Sá starfsrammi er sveigjanlegri en hreinn ríkisrekstur og á því að geta stuðlað að bættri stjórnun fyrirtækisins.

Ljóst er að með því að stofna hlutafélag um Sementsverksmiðjuna yrði aðilum, sem áhuga hafa á hagkvæmum rekstri þess fyrirtækis, veittur kostur á því að leggja því lið, bæði með ráðum, víðtækri reynslu, fjármagni og markaðsaðstöðu. Mætti hugsa sér að meðal þeirra, sem hug hefðu á þátttöku í slíkri félagsstofnun, væru starfsmenn fyrirtækisins, sveitarfélög, byggingarfélög, steypuframleiðendur og aðrir framleiðendur sem háðir eru sementsnotkun.

En þá er ótalið að eðlilega gæti hinn almenni borgari óskað þess að leggja fé til starfseminnar og er það þýðingarmikið stefnumál að opna þannig atvinnurekstur landsmanna fyrir framlögum almennings og framtaki. Þá er ljóst að með slíkri formbreytingu fengi stjórn og framkvæmdastjórn fyrirtækisins aukið aðhald og reyndar æskilegan vettvang til þess að gera grein fyrir gerðum sínum á aðalfundum og hluthafafundum þar sem gagnrýni, tillögur og nýmæli um bætta starfshætti gætu komið fram. Slíkir starfshættir auka yfirsýn, veita upplýsingar og tryggja öruggari stjórn á málum verksmiðjunnar. Þeir efla og kynni með hinum ýmsu þáttum framleiðslu og byggingaraðila í landinu.

Ég vil svo, virðulegi forseti, leggja til að þegar þessari fyrstu umr. lýkur verði máli þessu vísað til 2. umr. og iðnn.