27.03.1985
Neðri deild: 52. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3916 í B-deild Alþingistíðinda. (3247)

209. mál, Verðlagsráð sjávarútvegsins

Frsm. meiri hl. (Stefán Guðmundsson):

Herra forseti. Mér er ljúft að verða við beiðni hv. þm. Karvels Pálmasonar og svara því sem hann spurði um, hvort n. hefði ekki fjallað um hugmyndir Ólafs Þ. Þórðarsonar hv. þm. um það að fjölga í Verðlagsráðinu. Vitaskuld var það gert og einnig var leitað umsagna um þetta mál eins og venja er að þingnefndir geri. Við sáum ekki ástæðu til að fallast á till. eða hugmyndir Ólafs Þ. Þórðarsonar og þær umsagnir sem okkur bárust í hendur voru heldur ekki á þann veg. Núna hefði maður kannske átt að vera með þær hjá sér í salnum, þær voru nú ekki margar sem bárust en ég man þó eitt fyrir víst að a. m. k. í einni umsögninni kom greinilega fram vilji til enn frekari fækkunar í Verðlagsráðinu en hér er gert ráð fyrir.

Hér er sem sé gert ráð fyrir að í Verðlagsráðinu verði 16 aðilar í stað 30. Eða raunar 16 í stað 36 eins og áður var, ef við tölum um sérstaka fulltrúa sem voru í Verðlagsráðinu vegna rækju-, hörpudisk-, og grásleppuveiðimanna, ef við teljum þá með, er fækkunin raunverulega í 16 úr 36. Röksemdin fyrir þessu er m. a. sú að bæta starfshætti ráðsins og draga úr kostnaði.

Ég tek einnig undir það sem mér finnst skipta hvað mestu máli í þessu, eins og kom hér rækilega fram hjá hv. þm. Garðari Sigurðssyni sem þekkir nú þetta mál mjög vel vegna þess að hann átti sæti í þeirri nefnd sem fjallaði um þessa endurskoðun, að vitaskuld eru þeir aðilar sem falla hér undir þá skilgreiningu, sem er hér í 1. gr., bæði undir A- og B-lið. Þar er falað um fulltrúa sem skipa fulltrúa Verðlagsráðsins. Vitaskuld eru þessir aðilar einnig fulltrúar þessara aðila sem hér er verið að tala um sem stunda veiðar á rækju, hörpudiski og grásleppu. Það gefur auga leið og þar er ég að tala um fulltrúa útvegsmanna og sjómanna. En svar mitt við fsp. vona ég að hv. þm. Karvel Pálmason hafi meðtekið. Við sem sé höfnuðum að taka undir till. Ólafs Þ. Þórðarsonar. Við fjölluðum ítarlega um málið og leituðum umsagna og þær umsagnir gáfu frekar til kynna að menn vildu enn frekari fækkun en þetta frv. leggur til.