27.03.1985
Neðri deild: 52. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3918 í B-deild Alþingistíðinda. (3249)

209. mál, Verðlagsráð sjávarútvegsins

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég ætla hvorki að fara að verja skoðanir hv. þm. Karvels Pálmasonar né hv. þm. Garðars Sigurðssonar. En ég vil samt minna á í þessu sambandi að þetta frv. er samið af nefnd sem var kosin hér á Alþingi. Í raun og veru er það eitt af fáum skiptum sem Alþingi hefur sameiginlega haft frumkvæði um að semja ný lög, þ. e. þetta lagafrv., því að upphaf þess var það að samþykkt var ákvæði til bráðabirgða við lög sem hér voru sett um það að sérstök nefnd, kosin af Alþingi, skyldi semja frv. um þetta mál ásamt hagsmunaaðilum. Af hálfu þingsins voru kosnir í þessa nefnd þáv. hv. þm. Matthías Bjarnason, Marteinn Friðriksson, Garðar Sigurðsson og hv. þm. Sighvatur Björgvinsson sem ég veit að hv. þm. Karvel Pálmason kannast vel við og hefur setið hér sem varafulltrúi hans á þingi og hefur hér langa þingreynslu. Þessir aðilar sömdu þetta frv. og það var um það rætt hvort ekki væri tilhlýðilegt að sjútvn. þingsins flytti þetta frv. því að það er algjörlega komið fram vegna kröfu frá þinginu.

Ég tel hér vera um einföldun að ræða, skynsamlegt mál sem runnið er undan rifjum Alþingis og ákveðið að semja þetta frv. fyrir tilstilli Alþingis. Ég vildi aðeins að gefnu tilefni taka þetta fram því að frv. er ekki samið að tilhlutan ríkisstj. þótt það sé flutt sem stjfrv. formsins vegna.