27.03.1985
Neðri deild: 52. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3924 í B-deild Alþingistíðinda. (3260)

355. mál, starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Þessi mál hafa verið mjög ítarlega rædd í ra. varðandi alla þá sem vinna að heilbrigðismálum, en falla ekki beint undir heilbrigðisstéttir eða sérnám þeirra. Það má segja að sá starfshópur sem síðasti ræðumaður nefndi sé að vissu leyti heilbrigðisstétt, en það má líka segja að fjöldi af öðru fólki hafi hliðstæða menntun og þessi starfshópur. Þarna er því úr töluvert vöndu að ráða og verður væntanlega að kanna það nánar.

Það eru líka fleiri aðilar í heilbrigðiskerfinu og þeir mjög margir sem falla ekki undir þessa skilgreiningu, en eru þó heilbrigðisstarfsmenn, þurfa hvorki sérstakt nám eða reynslu til þess að hefja slík störf. Þeir eru kannske fjölmargar greinar iðnaðarmanna og svo hinir almennu starfsmenn.

Ef talið er eðlilegt að treysta starfsgrundvöll eða starf ákveðinna hópa sem beint falla ekki undir þessa skilgreiningu verður auðvitað að meta það og vega og leita umsagnar þeirra stofnana sem fyrst og fremst um málið fjalla. Ég get ekki á þessari stundu lýst alveg afdráttarlaust hver sú niðurstaða verður.