28.03.1985
Sameinað þing: 66. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3946 í B-deild Alþingistíðinda. (3288)

199. mál, sparnaður í fjármálakerfinu

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég tek að mörgu leyti undir þessa till. til þál. Ég tel að það sé sjálfsagt að reyna að draga úr óþarfakostnaði í fjármálakerfinu og draga úr byggingum utan um peninga sem ekki eru til. Hins vegar langar mig að gera aths. sem mér finnst stundum gleymast. Ég tek fram að ég heyrði ekki nema hluta úr ræðu flm. vegna þess að ég var kölluð á annan fund, en hafi hann ekki minnst á það vil ég a. m. k. gera það hér.

Þegar talað er um aukningu bankastarfsmanna mega menn ekki gleyma því að bankarnir hafa breytt mjög um hlutverk á síðustu árum. Nú förum við í bankann með næstum öll okkar peningamál. Við borgum rafmagn, hita og allar okkar mánaðargreiðslur fyrir heimilin í bönkum. Fyrir einungis tíu árum önnuðust greiðsludeild Tryggingastofnunar ríkisins og útibú hennar allar greiðslur til bótaþega sem skipta tugum þúsunda. Nú gera bankarnir þetta.

Vegna bankastarfsmanna vil ég ekki að þetta atriði gleymist. Hinu skal ég svo vera sammála að eflaust væri hægt að hagræða ýmsu innan bankakerfisins og kannske ekki síst á toppnum. En ég víl leggja á það áherslu að þetta atriði gleymist ekki svo allrar sanngirni sé gætt.

Að sjálfsögðu fagna ég þessari till. og vænti þess að hún fái afgreiðslu hér.