10.04.1985
Efri deild: 55. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4098 í B-deild Alþingistíðinda. (3415)

403. mál, meðferð opinberra mála

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breytingu á lögum nr. 74/1974, um meðferð opinberra mála.

Hinn 8. febr. s. l. skipaði ég nefnd til að gera tillögur um hraðari og skilvirkari meðferð skatta- og efnahagsbrota í dómskerfinu. Í nefndinni áttu sæti Þorsteinn Geirsson ráðuneytisstjóri, formaður, Þórður Björnsson ríkissaksóknari, Gunnlaugur Briem yfirsakadómari, Hallvarður Einvarðsson rannsóknarlögreglustjóri og Garðar Valdimarsson skattrannsóknastjóri. Ritari nefndarinnar var Þorsteinn A. Jónsson deildarstjóri.

Nefndinni var ætlað að hraða störfum og skila áliti eigi síðar en 1. mars s. l. Hún takmarkaði því tillögur sínar um hraðari meðferð mála við þær breytingar sem unnt var að láta koma til framkvæmda strax. Með hliðsjón af því gerði nefndin eftirfarandi tillögur:

1. Að ráðinn verði einn lögfræðingur til embættis ríkissaksóknara og að einn saksóknari þar hafi það sem forgangsverkefni að annast ætluð skatta- og efnahagsbrot og hafa á hendi sókn í stærri málum fyrir sakadómi.

2. Að dómurum við sakadóm Reykjavíkur verði fjölgað um tvo vegna skatta- og efnahagsbrota og að lögð verði áhersla á að dómarar þeir, sem falin er meðferð mála út af ætluðum skatta- og efnahagsbrotum, hafi eða öðlist æfingu og reynslu í slíkum málum.

3. Að hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins verði stofnuð sérstök deild sem rannsaki skatta- og efnahagsbrot. Að ráðnir verði fjórir rannsóknarlögreglumenn til Rannsóknarlögreglu ríkisins vegna þessara mála. Að við framangreinda deild verði skipaðir tveir lögreglufulltrúar.

4. Að lagt verði fyrir Alþingi meðfylgjandi frv. um breytingu á lögum um meðferð opinberra mála sem felur í sér: A. að meðdómandi geti verið einn. B. Að umfangsmikil og vandasöm mál vegna skatta- og efnahagsbrota verði að jafnaði rekin fyrir sakadómi Reykjavíkur.

5. Að nú þegar verði ráðinn sérfróður maður í skatta- og efnahagsbrotum er starfi sem ráðunautur í þágu Rannsóknarlögreglu ríkisins og ríkissaksóknara.

Ríkisstj. samþykkti þessar tillögur nefndarinnar og í samræmi við það er flutt frv. það sem nefndin gerði tillögur um.

Í frv. þessu eru lagðar til breytingar á 1. og 4. mgr. 5. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 74/1974.

Í fyrsta lagi er lagt til að 1. mgr. verði breytt á þann veg að mál vegna meiri háttar skatta- og efnahagsbrota skuli að jafnaði sæta meðferð í Reykjavík. Tilgangurinn með því að stefna þessum málum fyrir sakadóm Reykjavíkur er að við eflingu hans geti meðferð mála þar orðið hraðvirkari og skilvirkari en annars staðar á landinu. Skatta- og efnahagsbrot eru oft mjög flókin og margþætt og eigi á annarra færi að fjalla um þau og dæma en þeirra sem fengið hafa mikla æfingu og reynslu í meðferð slíkra mála. Sérhæfing dómenda er grundvallaratriði ef takast á á við flókin skatta- og efnahagsbrot.

Í öðru lagi er lagt til að 4. mgr. verði breytt þannig að heimilt verði að kveðja til einn sérfróðan meðdómanda í stað tveggja sem nú er skylda ef kvaddir eru til sérfræðingar. Tveggja manna dómur ætti að nægja í mörgum málum og meðferð máls í slíkum dómi er einfaldari en í dómi skipuðum þremur mönnum. Lagt er til að þegar tveir menn skipa dóm ráði atkvæði dómsformanns ef ágreiningur verður. Þetta fyrirkomulag um einn meðdómanda gilti áður í verðlagsdómi og þótti gefast vel.

Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði þessu frv. vísað til 2. umr. og hv. allshn.