16.04.1985
Sameinað þing: 70. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4198 í B-deild Alþingistíðinda. (3544)

357. mál, húsnæðissamvinnufélög og búseturéttaríbúðir

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég verð að segja að ég get ekki verið alveg eins jákvæður í umsögn um vaskleika hæstv. félmrh. í þessu máli og hv. síðasti ræðumaður. Mér er eiginlega ómögulegt að lýsa ánægju minni með að enn skuli vera verið að bögglast með þetta mál í nefnd á vegum hæstv. ráðh. þegar fyrir hartnær ári lágu fyrir yfirlýsingar og svardagar húsnæðismálafrömuða hæstv. ríkisstj. hér ? þingi um að slíkt frv. mundi lagt fram í byrjun næsta þings sem er sum sé það þing sem nú er þegar langt komið.

Eftir þá útreið sem þetta mál fékk á hv. Alþingi í fyrravetur, þá bjóst ég satt best að segja við því að félmrh. og hæstv. ríkisstj. sæju nú sóma sinn í því að vinna vasklega í þessu máli í sumar og standa við gefin loforð og þá mundi hvorki Mangósopi né nokkuð annað koma í veg fyrir að slíkt frv. yrði lagt hér fram og yrði að lögum á þessu þingi. En þetta tengist auðvitað, herra forseti, umr. sem fram fóru í gær um vinnutilhögun og skipulag allt á þinginu. Það er eftir öðru að þetta mál, sem er brýnt hagsmunamál félagasamtaka sem þegar hafa verið stofnuð og vildu gjarnan hafa hafið framkvæmdir, skuli þvælast svona fyrir og lenda síðan í súpunni á síðustu dögum eða vikum þingsins.

Ég verð að segja eins og er að miðað við þær skiptu skoðanir sem uppi voru í fyrra á hv. Alþingi tel ég örgrannt um það að þetta mál nái fram að ganga ef það verður ekki lagt fram fyrr en í síðasta þingmánuðinum. Ég átel harðlega þessi vinnubrögð hæstv. félmrh. Mér er ómögulegt að skilja að það skuli þurfa að taka allan þennan tíma eftir það sem á undan var gengið að koma þessu frv. fram. Ég get ekki með nokkru móti lýst ánægju minni með þessi vinnubrögð. Auðvitað má segja að betra er seint en aldrei og maður væntir þess þá að þau orð standi, sem hæstv. félmrh. lét hér falla, að málið verði lagt fram og hann beiti þá öllu sínu atfylgi til að það nái fram að ganga. En enn og aftur, herra forseti, undirstrika ég að ég get ekki lýst ánægju minni með þessi vinnubrögð. Ég hlýt miklu fremur að átelja þau.