16.04.1985
Sameinað þing: 70. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4199 í B-deild Alþingistíðinda. (3548)

357. mál, húsnæðissamvinnufélög og búseturéttaríbúðir

Fyrirspyrjandi (Sigríður Dúna Kristmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Hér kom hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og taldi að ég hefði lýst ánægju minni með vinnubrögð hæstv. félmrh. í þessu máli. Það hef ég ekki gert. Ég hef þvert á móti gagnrýnt þau hér. Það nær auðvitað ekki nokkurri einustu átt að bjóða þingheimi upp á þau vinnubrögð sem hafa verið viðhöfð í þessu máli jafnt sem ýmsum öðrum. — Og ég vil, fyrst að hv. þm. Stefán Benediktsson kom hér upp og nefndi samstöðu stjórnarflokkanna í þessu máli, taka undir fsp. hans um að mjög æskilegt væri að heyra við þessa umr. hver er afstaða sjálfstæðismanna í þessu máli.