16.04.1985
Sameinað þing: 70. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4203 í B-deild Alþingistíðinda. (3555)

343. mál, listiðnaður og iðnhönnun

Fyrirspyrjandi (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Þann 3. maí 1982 var samþykkt á Alþingi svohljóðandi þál., með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að skipa nefnd til að gera tillögur um hvernig best verði staðið að eflingu listiðnaðar og listrænnar iðnhönnunar á Íslandi. Skal nefndin m. a. fjalla um eftirtalin atriði:

1. Hvernig opinberir aðilar í samvinnu við einstaklinga, félög og fyrirtæki geti best örvað listiðnað og listhönnun á íslenskum iðnaðarvörum.

2. Hvernig staðið verði að því að safna heimildum um þróun listiðnaðar og listhönnunar á Íslandi, þannig að hér geti myndast vísir að listiðnaðarsafni, svo og hvernig staðið verði að vernd á hönnun og mynstrum (design).

3. Hvernig unnt sé að fjölga sýningartækifærum fyrir íslenskan listiðnað erlendis.

4. Hvernig haga beri samstarfi við aðila sem vinna að sömu markmiðum hjá nágrannaþjóðum okkar, einkum á Norðurlöndum.

Nefndin skal enn fremur taka til athugunar önnur þau atriði, sem stuðlað geta að markmiði því sem tillaga þessi fjallar um, og gera tillögur um þau.

Við tillögugerð um þessi efni verði tekið mið af reynslu annarra þjóða á þessu sviði og haft sem víðtækast samstarf við þá aðila sem hagsmuna eiga að gæta í þessum efnum.“

Þannig hljóðaði þessi þáltill. og nú hef ég á þskj. 551 lagt fram svohljóðandi fsp. til hæstv. menntmrh.: „Hvað líður framkvæmd þál. um eflingu listiðnaðar og iðnhönnunar sem samþykkt var á Alþingi 3. maí 1982?“