16.04.1985
Sameinað þing: 70. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4225 í B-deild Alþingistíðinda. (3579)

399. mál, staða skrifstofustjóra í félagsmálaráðuneytinu

Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Mér fannst svar hæstv. ráðh. afskaplega ófullnægjandi. Það er svar sem gefur til kynna að hann er kannske ekki fyllilega sáttur við þessa ákvörðun sína, málstaður hans er ekki sterkur, varnarstaðan er erfið og honum er sannarlega vorkunn að vera í þessari aðstöðu. Ég vil undirstrika og taka fram sérstaklega við hv. þm. Ólaf Þ. Þórðarson að ég notaði engin nöfn í þessu dæmi sem ég tók og það var af ásettu ráði að ég nefndi engin nöfn, vegna þess að tilgangurinn með þessari fsp. er ekki sá að hygla að eða varpa skugga á einstaklinga. Tilefni fsp. er í raun dæmi, eins og hv. þm. Sigríður Dúna vakti athygli á, um stöðu og vandamál fjölmargra kvenna á almennum vinnumarkaði.

Í Íslandsklukkunni segir Arnas Arnaeus: „Þitt mál kemur þér sjálfum lítið við, Jón Hreggviðsson. Það er miklu stærra mál. Hverjum er að borgnara þó höfuð eins betlara sé leyst? Ein þjóð lifir ekki af náð.“

Það vilja konur heldur ekki gera, hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson og hæstv. jafnréttismálaráðherra, né heldur geta þær það — (ÓÞÞ: Hverju svaraði Jón Hreggviðsson?) Hann svaraði eitthvað á þá leið: að sá er eldurinn heitastur sem á sjálfum brennur. En í Íslandsklukkunni er um að ræða tákn fyrir íslenska þjóð í Jóni Hreggviðssyni en hér er um að ræða tákn fyrir íslenska kvenþjóð. Þess vegna er málið tekið upp, hv. þm., og ekki af neinu öðru tilefni. Ég er svo heppin að þekkja ekki þannig til einstaklinga að ég þurfi að taka persónulega afstöðu í málinu. En það gerir málið engu að síður jafn alvarlegt og mikilvægt.

Og ég vil minna hæstv. ráðh. á að hann verður að gæta að því að skylda hans í þessum efnum er meiri en annarra ráðh. Þess er af honum krafist og vænst að hann gangi á undan með góðu fordæmi en níðist ekki á verðleikum og rétti kvenna. Ef ástandið er slæmt í því rn. sem fer með jafnréttismál við hverju má þá búast á öðrum bæjum?