16.04.1985
Sameinað þing: 71. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4231 í B-deild Alþingistíðinda. (3588)

353. mál, afnám misréttis gagnvart konum

Utanrrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. á þskj. 563 um heimild fyrir ríkisstj. til að fullgilda samning um afnám alls misréttis gagnvart konum. Með þáltill. þessari fer ríkisstj. fram á heimild Alþingis til að fullgilda samning um afnám alls misréttis gagnvart konum sem samþykktur var á allsherjarþingi

Sameinuðu þjóðanna í New York 18. desember 1979. Samningurinn var undirritaður fyrir Íslands hönd á ráðstefnunni um kvennaáratug Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn 24. júlí 1980.

Samningurinn var árangur fimm ára starfs ýmissa nefnda Sameinuðu þjóðanna. Samningurinn er í anda annarra mannréttindasamninga Sameinuðu þjóðanna, sem Ísland er aðili að, en með samningnum skuldbinda aðildarríkin sig til að gera ráðstafanir til að afnema misrétti gagnvart konum á hinum ýmsum sviðum. Í II hluta samningsins er fjallað um ráðstafanir á stjórnmálavettvangi og opinberum vettvangi. III. hluti varðar ráðstafanir á sviði menntunar, atvinnumála, heilsugæslu og öðrum sviðum efnahags- og félagslífs. IV. hluti fjallar um réttarstöðu kvenna, þ. á m. um löghæfi og hjúskaparstöðu.

Með lögum nr. 78/1976 um jafnrétti kvenna og karla er tryggð framkvæmd meginreglna samningsins. Með lögum nr. 49 frá 1982 var lögum nr. 100 frá 1952 um íslenskan ríkisborgararétt breytt til þess að geta framfylgt ákvæðum samningsins um jöfn réttindi kvenna og karla varðandi þjóðerni barna þeirra. Ekki er talin þörf frekari lagasetningar til þess að unnt sé að fullgilda þann samning sem hér um ræðir. Um efni samningsins að öðru leyti vísast nánar til aths. við till. og samningsins sjálfs sem birtur er sem fskj. með till. á ensku og í íslenskri þýðingu.

Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til að þáltill. þessari verði vísað til utanrmn. milli umræðna.