29.10.1984
Neðri deild: 7. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 581 í B-deild Alþingistíðinda. (359)

46. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. á þskj. 46 um breyt. á lögum um tekjuskatt og eignarskatt sem ég flyt ásamt hv. þm. Jóni Baldvini Hannibalssyni.

Frv. þetta felur í sér að tvöfaldan persónuafslátt skal veita þeim sem eru að kaupa sér eigið húsnæði í fyrsta sinn og skal hann veittur í tvö ár, í fyrra sinn næsta gjaldár eftir að kaupin fara fram. Nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis og skilyrði fyrir tvöföldum persónuafslætti skulu sett af ríkisskattstjóra.

Eins og fram kemur í grg. þessa frv. er markmið þess að létta tímabundið greiðslubyrði þeirra sem nú eru að koma sér þaki yfir höfuðið í fyrsta sinn. Um það þarf ekki að fara mörgum orðum að húsnæðismálakerfið hefur verið og er vanmegnugt til þess að veita lánafyrirgreiðslu til húsbyggjenda og íbúðakaupenda svo viðunandi sé. Lánshlutfallið er einungis um 29% af verði staðalíbúðar og er því lánafyrirgreiðsla til flestra um 670 til 680 þús. að því er nýbyggingarlán varðar og til þeirra sem kaupa sér notað húsnæði er lánafyrirgreiðslan á bilinu frá 225 til 390 þús. kr. Algeng lánafyrirgreiðsla úr lífeyrissjóðum er e.t.v. 10–15% af verði staðalíbúðar. Af þessu má sjá að 50–60% a.m.k. af íbúðarverði þarf síðan að brúa með eigin fjármögnun eða skammtímalánum úr bankakerfinu. Greiðslubyrði þeirra sem eru að koma sér þaki yfir höfuðið verður því gífurleg, a.m.k. á fyrstu árunum, og á færi fárra fjölskyldna að standa undir þeirri greiðslubyrði sem því er samfara að eignast eigið húsnæði.

Þegar frv. um nýja húsnæðislöggjöf var til umfjöllunar á Alþingi fyrr á þessu ári var greiðslubyrði á íbúð sem kostaði 2 millj. 125 þús. kr. 210–225 þús. kr. á ári fyrstu fimm árin eða 18 til 19 þús. kr. á mánuði miðað við forsendur Þjóðhagsstofnunar og þá lánafyrirgreiðslu sem í boði var, en þetta kom fram í grg. Þjóðhagsstofnunar um fjárflæði Byggingarsjóðs ríkisins. Frá því að þessir útreikningar voru gerðir hafa vaxtagjöld breyst mjög mikið til hækkunar og á það við um öll þessi lán, húsnæðismálastjórnarlán, bankalán og lífeyrissjóðslán. Ég fór þess á leit við Þjóðhagsstofnun að hún gerði útreikning á því hvað greiðslubyrðin hefði hækkað miðað við fyrri útreikninga Þjóðhagsstofnunar, sem lagðir voru fyrir Alþingi fyrr á þessu ári, og í þessum nýju útreikningum lagðar til grundvallar þær vaxtabreytingar sem orðið hafa á þessu tímabili. Í þessum nýju útreikningum Þjóðhagsstofnunar, sem fram koma í grg. með þessu frv., kemur fram að greiðslubyrðin á fyrsta ári hefur hækkað um 53 500 kr. frá því í des. á s.l. ári. Munar þar mestu um hækkun vaxta á bankalánum, en þeir hafa hækkað í þessum samanburði um 33 þús. kr. Af þeim útreikningum sem gerðir hafa verið er því ljóst að greiðslubyrði ungs fólks, sem festir kaup á t.a.m. þriggja herb. íbúð í blokk, er á bilinu 230–280 þús. kr. á ári fyrstu fimm árin, miðað við núverandi lánsfjármögnun húsnæðiskerfisins og þau lánakjör sem í gildi eru.

Með þessu frv. er farin sú leið að létta framfærslubyrði þeirra einstaklinga eða fjölskyldna sem eru í fyrsta skipti að eignast eigið húsnæði. Ljóst er að þeir sem eru að eignast eigið húsnæði leggja á sig mikla vinnu og taka alla þá eftirvinnu sem í boði er til að standa undir framfærslu fjölskyldunnar og útborgun á húsnæði og síðan á greiðslu afborgana og vöxtum af lánum. Þó vaxtagjöld, sem heimiluð eru til frádráttar frá tekjuskattsstofni, séu oft og tíðum það há að þau leiði stundum til þess að húsbyggjendur eða þeir sem eru að festa kaup á íbúð hafi lítinn eða engan tekjuskatt er ljóst að tvöfaldur persónuafsláttur, sem hér er lagður til, mun nýtast að einhverju eða öllu leyti til lækkunar á skattbyrði, þar sem persónuafsláttur fer einnig upp í greiðslur á útsvari, og því mun ákvæði þessa frv. leiða til skattalækkunar hjá flestum eða öllum þeim sem eru að eignast húsnæði í fyrsta sinn. Persónuafsláttur er á yfirstandandi ári, 1984, 29 500 kr., en í frv. er gert ráð fyrir, eins og áður segir, tvöföldun hans á tveimur fyrstu árum eftir að húsnæði er keypt. Fyrir hjón eða sambúðarfólk sem sameiginlega afla sér húsnæðis yrði hér um að ræða, ef persónuafsláttur nýttist þeim að fullu, 59 þús. kr. sem gengju til greiðslu álagðra skatta.

Þó hér sé vissulega ekki um stóra upphæð að ræða getur hún þó létt nokkuð undir með ungu fólki þegar fjárhagserfiðleikarnir eru hvað mestir og haft sitt að segja til að létta á framfærslubyrði heimilanna. Það er athyglisvert að þessi upphæð, 59 þús. kr., er ekki hærri en svo að hún gerir lítið meira en að mæta þeim vaxtahækkunum sem orðið hafa frá des. s.l. til sept. samkv. útreikningum Þjóðhagsstofnunar. Þá er miðað við það dæmi sem greint er frá í grg. með þessu frv., en það eru þeir útreikningar sem lagðir voru til grundvallar greiðslubyrði þegar húsnæðislöggjöfin var til umr. hér á Alþingi s.l. vetur.

Ef reynt er að gera sér grein fyrir hvað tvöfaldur persónuafsláttur næði til margra aðila kemur eftirfarandi í ljós: Á árinu 1984 voru veitt 1087 nýbyggingarlán, þar af 417 til þeirra sem enga íbúð áttu fyrir. Lán til kaupa á eldri íbúðum voru 1895, þar af 960 til þeirra sem enga íbúð áttu fyrir. Ég tel að þessar tölur gefi nokkra mynd af því og megi við styðjast þegar meta á hve margir fengju árlega skattaívilnanir samkv. þessu frv. eða 1377 einstaklingar ef árið 1983 er tekið til viðmiðunar.

Erfitt er að gera sér grein fyrir hvað tekjutap ríkissjóðs yrði mikið ef frv. þetta yrði að lögum þar sem ekki er séð hve mörgum þessara einstaklinga mundi nýtast persónuafslátturinn að fullu. Þó er þess getið í grg. að miðað við þær forsendur sem hér eru settar fram og að persónuafslátturinn nýtist öllum þeim einstaklingum að fullu til lækkunar á sköttum, þá gæti skattalækkunin orðið rúmar 40 millj. kr. Ef tvöfaldur persónuafsláttur mundi einnig nýtast maka eða sambúðaraðila sem ekki er skráður fyrir húsnæðisláninu er lauslega áætlað í grg. með þessu frv. að um væri að ræða 55 til 60 millj. kr. skattalækkun til húsbyggjenda.

Þegar til þess er litið hvað vaxtabyrði hefur aukist verulega á undanförnum mánuðum og hve litla fyrirgreiðslu húsnæðiskerfið veitir íbúðakaupendum og húsbyggjendum verður það að teljast sanngirnismál að reynt sé að létta eins og kostur er skattbyrði af íbúðakaupendum og húsbyggjendum, enda vart hægt að ætla nokkrum að standa undir 230 til 280 þús. kr. greiðslubyrði á hverju ári í fimm ár auk annarrar framfærslu fjölskyldunnar.

Herra forseti. Ég vænti þess að þessu máli verði vel tekið hér á hv. Alþingi og vil leyfa mér að leggja til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.