17.04.1985
Neðri deild: 57. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4314 í B-deild Alþingistíðinda. (3641)

309. mál, atvinnuleysistryggingar

Frsm. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Mál þetta er komið frá Ed. og hefur verið til meðferðar í hv. heilbr.- og trn. þessarar deildar. Mælir nefndin með því að frv. verði samþykkt eins og það kom frá Ed.

Eins og þm. er kunnugt eftir framsöguræðu hæstv. heilbr.- og trmrh. er þetta frv. flutt til þess að standa við þá yfirlýsingu sem hæstv. ríkisstj. gaf varðandi lausn á kjaradeilum. Þar var því lýst yfir að ríkisstj. mundi beita sér fyrir því að endurskoða bótareglur og iðgjöld atvinnuleysistrygginga með tilliti til þeirrar hækkunar sem verður á launum í almennum kjarasamningum. Í framhaldi af þessu var frv. samið í hv. heilbr.- og trmrn. og haft fullt samráð við þá aðila vinnumarkaðarins sem hlut áttu að máli. Í Ed. var gerð ein breyting á frv., það var breyting við 3. gr. frv. Að sjálfsögðu mælum við í hv. n. með því að sú breyting verði inni áfram og mælum, eins og ég sagði áðan, með samþykkt frv. óbreytts.

Í 79. gr. almannatryggingalaga er ákvæði um að ráðh. skuli innan sex mánaða breyta upphæðum bóta skv. þeim lögum ef breyting hefur orðið á vikukaupi í almennri verkamannavinnu. Í reynd hefur þessi sex mánaða frestur ekki verið notaður heldur reynt að láta bótaupphæðir verða samstiga kauphækkunum. Í lögunum um atvinnuleysistryggingar og nú síðast í lögunum frá 1981 eru hins vegar engin samsvarandi ákvæði, heldur hafa iðgjöld og bætur miðast við tilgreindan launaflokk í samningi Verkamannasambands Íslands og vinnuveitenda. Bætur og iðgjöld hafa þó jafnóðum hækkað þegar kaup samkvæmt hinum tiltekna launaflokki hækkaði vegna nýrra samninga eða vegna vísitöluuppbótar. Það má segja að þetta hafi verið eðlileg regla og fullnægjandi trygging fyrir tengslum launa og bóta meðan það var aðalreglan við samningagerð að kaup samkvæmt tilgreindum launaflokkum hækkaði en flokkum fjölgaði ekki að ráði. Nú er hins vegar svo komið að aðalkjarabætur felast oftar en ekki í tilflutningi starfa milli launaflokka enda er svo komið nú að í dag tekur enginn laun eftir þeim launaflokki sem við er miðað í lögum um atvinnuleysistryggingar, 8. fl. Sá flokkur er nú aðeins notaður til að reikna út iðgjöld og bætur. Störf þeirra launþega, sem tóku á sínum tíma laun skv. þessum 8. flokki, eru nú flokkuð í 13. flokk og eiga skv. gildandi kjarasamningum að færast í 15. launaflokk 1. maí n. k.

Þetta misræmi stakk svo í augu við síðustu samningsgerð að ríkisstj. hét því, eins og hér hefur verið sagt, að beita sér fyrir leiðréttingu á Alþingi í því skyni að hækka viðmiðunarflokk bóta til samræmis við þær breytingar sem orðið hafa á röðun starfa í launaflokka frá því að lögin voru sett 1981. Það þótti rétt við þá leiðréttingu að miðað yrði, eins og gert var 1981, við þann flokk sem greitt væri eftir fyrir almenna fiskvinnu, enda munu einna flestir launþegar hér á landi taka laun samkvæmt þeim launaflokki. Það þótti því rétt að benda beint á störfin sem miða skal við en rígbinda ekki bæturnar við ákveðinn launaflokk sem tæki svo breytingum að nokkrum mánuðum liðnum.

Þrjár fyrstu greinar frv. fjalla um þetta atriði. Í 4. gr. er hins vegar um nýmæli að ræða sem leiðir af breytingu á lögunum frá 1981, en þá öðluðust félagsmenn BSRB og BHM rétt til atvinnuleysisbóta á sama hátt og aðrir launþegar. Þessar bætur greiðast hins vegar ekki úr Atvinnuleysistryggingasjóði heldur beint frá ríki eða sveitarfélögum hverju fyrir sig án iðgjaldainnheimtu. Enda er ekki um sameiginlegan bótasjóð þessara aðila að ræða eins og hjá verkalýðsfélögum Alþýðusambandsins og þeirra viðsemjendum.

Þetta leiðir til þess að í raun eru í gangi þrjú aðskilin kerfi sem eru þó að því leyti eins að öll málin á að afgreiða í samræmi við lögin nr. 64/1981, um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum. Af þessu leiðir, eins og kemur fram í þessari 4. gr. frv., að hver sem sækir um bætur vegna atvinnuleysis verður að hafa unnið a. m. k. 425 klst. innan ramma viðkomandi kerfis til að öðlast lágmarksbótarétt. Það er skv. þessu hugsanlegt að launþegi, sem unnið hefur alls 1272 klst. á síðustu 12 mánuðum skv. samningum þessara þriggja aðila, Alþýðusambands, BSRB og BHM, eigi þegar upp er staðið engan lagalegan rétt til bóta. Hér er því lagt til í 4. gr. frv. að það verði heimilað að leggja saman vinnuframlag til ákvörðunar bóta og greiða úr hverju kerfi fyrir sig að hluta eða tiltölu.

Herra forseti. Ég hef skýrt frv. í heild, en áður en breyting var gerð á frv. í Ed. hljóðar 3. gr. svo: „Hámarks dagpeningar atvinnuleysistrygginga skulu jafngilda launum fyrir 8 klst. dagvinnu í almennri fiskvinnu skv. gildandi kjarasamningi Verkamannasambands Íslands og vinnuveitenda á hverjum tíma, hæsta starfsaldursþrepi.“ Þetta var í frv. upprunalega en þessu var breytt í það að starfsaldursþrepið er miðað við sjö ára starf. Það gerði sá mikli mismunur sem er á samningum þessara samtaka. Því hljóðar niðurlag þessarar greinar nú:

„skv. gildandi kjarasamningi Verkamannasambands Íslands og vinnuveitenda á hverjum tíma miðað við starfsaldursþrep eftir sjö ár. Lágmarks dagpeningar eru 1/4 hluti sömu launa.“