17.04.1985
Neðri deild: 58. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4335 í B-deild Alþingistíðinda. (3656)

423. mál, viðskiptabankar

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég ætla mér við þessa 1. umr. málsins að fara í fyrsta lagi almennt yfir stöðu þessara mála, í öðru lagi ætla ég að gera athugasemdir við nokkrar greinar frv. og að lokum ætla ég að gera grein fyrir þeim atriðum sem ég tel að þurfi helst að breyta í þessu frv.

Eins og kom fram í ræðu hæstv. viðskrh. hefur þetta mál átt sér langan aðdraganda og þetta er ekki í fyrsta sinn sem hv. Alþingi fjallar um frv. um viðskiptabanka. Það hefur verið gert aftur og aftur á undanförnum árum og þann tíma sem ég hef setið hér á Alþingi minnist ég nokkurra frv. um þetta efni, bæði frá einstökum hv. þm. og frá hæstv. ríkisstj.

Upphafið að skipulagsumræðunni um bankana má rekja aftur til ársins 1971 þegar ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar setti sér það markmið í málefnasamningi að sameina tvo ríkisbankana, þ. e. Búnaðarbankann og Útvegsbankann. Í framhaldi af þeim ásetningi skipaði þáv. viðskrh. nefnd til að vinna að þessari sameiningu og jafnframt til að gera tillögur að frv. um heildarlöggjöf fyrir viðskiptabankana í landinu og um Seðlabankann. Þessi nefnd hefur í raun og veru starfað meira og minna óslitið síðan, að vísu með mannabreytingum sem hafa fylgt pólitískum sviptingum í landinu, en það má segja að allan þennan tíma hafi menn verið að fást við sama verkið, þ. e. hvernig á að skipuleggja bankastarfsemina í landinu þannig að hún verði sem ódýrust, hagkvæmust og öruggust fyrir þjóðina og þjóðarbúið.

Núv. ríkisstj. hefur gefist upp við að leysa þetta verkefni eins og aðrar ríkisstj. á undan. Það hefur ekki náðst neitt samkomulag innan núv. ríkisstj. um að fækka ríkisviðskiptabönkunum. Það liggur ekkert fyrir um það efni af hálfu hæstv. ríkisstj. Þess vegna er hér í raun ekki tekið á að mínu mati einu alvarlegasta vandamáli íslenska bankakerfisins. Hins vegar er fitjað hér upp á ýmsum nýmælum sem sum hver eiga rætur að rekja til þeirrar pólitísku kreddu sem nú ræður ríkjum í Sjálfstfl. og þar af leiðandi í þessum málaflokki í ríkisstj. Einnig er hér um að ræða margar brtt. á lögum um bankamál, tæknilegar brtt. sem eru margar til bóta frá því sem nú er þó að ég vilji ekki vera jafn jákvæður í ummælum mínum um þetta frv. og hv. síðasti ræðumaður.

Ég vil í upphafi máls míns, herra forseti, til þess að því sé haldið til haga, lesa hér sérálit fulltrúa Alþb. í bankamálanefndinni, Lúðvíks Jósepssonar, en það er birt á bls. 34–35 í frv. því sem hér er á dagskrá. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Nokkur ákvæði frv. eru til bóta frá gildandi lögum. Þar nefni ég að allir viðskiptabankar og um leið allar lánastofnanir eiga að verða undir yfirstjórn eins og sama ráðh.“ — Þetta er í raun og veru það sem við höfum þegar samþykkt lög um hér á Alþingi. — „Þá tel ég rétt að kveða skýrara á um að bankastjórar ríkisviðskiptabanka gegni ekki öðrum launuðum störfum en þeim sem beinlínis fylgja bankastjórastarfi þeirra. Sams konar ákvæði hefði ég einnig viljað hafa um hlutafélagsbanka. Í frv. eru hins vegar allmörg ákvæði sem ég er andvígur eða tel að ekki sé tímabært að taka upp. Þessi ákvæði eru m. a.:

1. Skv. frv. er stofnun nýrra hlutafélagsbanka gefin frjáls — að vísu með nokkrum takmörkunum. Ég tel þetta ákvæði óþarft þar sem augljóslega er fyrst og fremst þörf á því að fækka bönkum og gera þá að stærri einingum.

2. Þá er með ákvæðum frv. nánast gefið fullt frjálsræði til að stofna ný útibú eftir því sem stjórnendur bankanna vilja. Þær hömlur, sem settar eru í frv. um eiginfjárstöðu og hlutfall fasteigna af eigin fé bankans, hafa sáralítil áhrif. Ég tel mikla hættu á að þetta ákvæði frv. leiði til fjölgunar útibúa og ofþenslu í bankakerfinu. Með því ákvæði að einn ráðh. í stað þriggja nú hafi með yfirstjórn bankamála að gera ætti að vera auðvelt að stjórna fjölda bankaútibúa og sjá svo um að þau verði sett þar sem þeirra er eðlileg þörf.

3. Í 8. gr. frv. er gert ráð fyrir að ráðh. geti „veitt hlutafélagsbönkum, sem eiga lögheimili og varnarþing erlendis, leyfi til að starfrækja umboðsskrifstofur hér á landi“. Þessu ákvæði er ég mótfallinn, tel ekkert knýja á um þetta mál nema ætlunin sé að með þessu sé stigið fyrsta skrefið til stofnunar erlendra banka hér á landi sem ég er andvígur.

4. Gert er ráð fyrir að ákvörðun vaxta af úttánum og innlánum verði færð frá seðlabanka og ríkisstj. til hverrar einstakrar innlánsstofnunar. Tekið er fram að innlánsstofnunum sé óheimilt að hafa samráð um ákvörðun vaxta og þóknunargjalda. Ég er andvígur þessari breytingu, tel að hér skorti stórlega á að einstakir bankar og sparisjóðir geti ákveðið vaxtagjöld og innlánsvexti. Blind samkeppni á þessu sviði er að mínum dómi fráleit og gæti sett hagsmuni sparifjáreigenda í hættu og skapað mikinn vanda hjá þeim sem lán þurfa að taka til lengri tíma, t. d. í sambandi við útflutningsframleiðslu.

5. Í frv. er gert ráð fyrir að bankar geti orðið hluthafar í almennum rekstrarfyrirtækjum sem ekki tengjast bankarekstrinum á neinn hátt. Ég er andvígur þessu ákvæði, tel að innlánsstofnanir eigi að halda sig við það meginverkefni að taka sparifé til ávöxtunar og lána það úf á öruggan hátt en leiða hjá sér áhættuþátttöku í öðrum atvinnurekstri.

6. Ég er andvígur 36. gr. frv. sem fjallar um eigið fé banka. Sú skilgreining á eigin fé, sem þar er sett fram, er mjög ónákvæm og segir í raun harla lítið um raunverulega getu viðkomandi stofnunar til að standa við skuldbindingar sínar. Greinin sem heild og þær hömlur, sem settar eru um hlutfall fasteigna af eigin fé, munu lítil sem engin áhrif hafa á stofnun nýrra útibúa. Þrátt fyrir ákvæði greinarinnar munu nær allir núverandi bankar og sparisjóðir hafa fullan rétt til að stofna til margra útibúa.

Eitt af aðalvandamálum íslenska bankakerfisins, eins og sakir standa, er að bankastofnanir eru of margar, dreifing þeirra er óeðlileg og rekstrareiningar þeirra eru flestar of litlar. Af þessum ástæðum eru flestir bankar illa færir um að þjóna stærri atvinnufyrirtækjum og óeðlileg misskipting verður í verkaskiptingu bankanna.

Annar mikill galli á bankakerfinu er að Seðlabankinn er kominn langt út fyrir eðlileg mörk seðlabanka og hefur dregið til sín fjármagn sem á að vera í viðskiptalífinu. Vald hans er orðið of mikið í ýmsum greinum.

Leiðin til úrbóta í þessum efnum er ekki að gefa vexti frjálsa, ekki stjórnleysi í stofnun útibúa og ekki stofnun nýrra banka. Ríkið á að ganga á undan og fækka viðskiptabönkum sínum í tvo og síðan á að setja almennar reglur sem leiða munu til þess, hér eins og erlendis, að hlutafélagabankar sameinist og myndi stærri heildir.“

Hér las ég upp, herra forseti, sérálit Lúðvíks Jósepssonar fulltrúa Alþb. í bankamálanefndinni. Ég tel að þessar athugasemdir, sem hér koma fram frá Lúðvík Jósepssyni, séu þess eðlis að þeim sé nauðsynlegt að halda hér til haga. Ég tek undir þær í flestum greinum og tel að þar sé bent á aðalatriði þessa máls.