18.04.1985
Sameinað þing: 72. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4338 í B-deild Alþingistíðinda. (3659)

335. mál, frelsi í innflutningi á olíuvörum

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Út af því sem hv. þm. sagði hér vil ég taka fram að ég gerði grein fyrir upplýsingum sem gefnar voru fjh.- og viðskn. Ed. þegar frv. um Flutningsjöfnunarsjóð, sem fyrir deildinni liggur, var til umfjöllunar í nefndinni. Þessar upplýsingar voru, ef ég man rétt, dagsettar 21. febrúar og ég held ég hafi m. a. s. lesið upp við hvaða gengi á danskri krónu var þá miðað vegna þess að hér var um að ræða verð á olíu í Danmörku.

Það er að sjálfsögðu eðlilegt að við áframhaldandi umfjöllun á frv. í fjh.- og viðskn. Ed. — frv. á síðar eftir að koma til Nd. — verði aflað nýrra upplýsinga. Ég er ekki að bera brigður á það sem hv. þm. segir eða halda því fram að þær upplýsingar sem hann hefur fengið séu ekki réttar. Hins vegar vil ég gjarnan að fram komi að þessar upplýsingar, sem lagðar voru fyrir fjh.- og viðskn. Ed., voru frá Verðlagsskrifstofunni hér og þeirra var aflað með aðstoð sendiráða Íslands erlendis. Og ekki aðeins það, heldur voru líka fengnar upplýsingar frá olíufélögum erlendis til þess að fá samanburð og geta áttað sig á því hvort ekki væri um réttar tölur að ræða.

Síðan eru liðnir næstum tveir mánuðir, það er alveg rétt. Þess vegna er ekki óeðlilegt að þegar það frv., sem er til umfjöllunar í Ed. eins og ég sagði áðan, verður afgreitt þar úr nefnd liggi fyrir nýjustu upplýsingar svo að þm. hafi þær handbærar þegar það frv. verður til umfjöllunar. Ég mun að sjálfsögðu beita mér fyrir því að svo verði gert eins og hv. þm. óskaði eftir.