18.04.1985
Sameinað þing: 72. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4371 í B-deild Alþingistíðinda. (3679)

336. mál, frelsi í útflutningsverslun

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Hv. 1. flm. þessarar till., hv. 3. þm. Reykn., sagði að viðskrh. treysti ekki framleiðendum í þessu máli. Hvaða reglugerð er þm. að fara fram á að viðskrh. breyti? Það skyldi þó ekki vera reglugerð sem hann gaf út sjálfur? Getur það verið að hann hafi ekki treyst framleiðendum einhvern tíma? Getur það verið að hann hafi talið það réttara að hafa eftirlit, eins og hér var komist að orði, með því hvernig útflutningsmálum sé háttað? Hann sagði að viðskrh. treysti sauðsvörtum almúganum fyrir innflutningsmálum en ekki framleiðendunum. Hér flytur hann till. um innflutningsfrelsi í gær, breytingu á eigin reglugerð, útflutningsfrelsi í dag, breytingu á eigin reglugerð. (Gripið fram í: Batnandi mönnum er best að lifa.) Rétt, spurningin er bara hvenær við fáum að heyra um úrsögn hv. þm. úr Alþfl. og inngöngubeiðni í flokkinn sem við hv. 6. þm. Reykv. erum í skv. því sem hann talar hér á þessum fundi í dag og í gær. (Gripið fram í.) Við erum í sama flokki, það liggur alveg ljóst fyrir, ég kem að því hér örlítið síðar. (GSig: Sama þingflokki líka.) Meira að segja í sama þingflokki, já, já, já, já, það er alveg ljóst mál.

Hv. 1. flm. vék að því að ég treysti ekki framleiðendum. Síðan var verið að tala um einokunarfyrirtæki. Hverjir eru það sem eru aðilar að þessum samtökum, Skreiðarsamlagi. Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, Sambandi ísl. fiskframleiðenda, síldarútvegsnefnd? Eru það ekki framleiðendurnir sem hafa talið þetta skynsamlegustu aðferðina fyrir sig við þær kringumstæður sem þeir starfa?

Það var verið að undirrita í gær samning á milli íslensku ríkisstj. og sovésku ríkisstj. um síld. Undir hvaða öðrum kringumstæðum skyldi það hafa gerst? Við verðum bara að átta okkur á því að við mælumst ekki einir við. Hvernig skyldi saltfisksala til Portúgals geta gerst þegar um er að ræða einn innflyt anda til Portúgals? (KJóh: Hvernig er með Reagan?) Ég var að tala um saltfisk og Portúgal. (KJóh: Við erum að tala um úfflutning.) Ég var að tala um saltfisk og Portúgal og það kom ekki í hug minn að Reagan væri þar.

Við skulum bregða okkur til Bretlands. Það flytja allir út þangað. Það er, eins og hér var réttilega sagt áðan, vegna eftirlits sem pappírar eru stimplaðir. Við skulum fara til Reagans úr því að hv. 3. þm. Reykn. vill hafa hann að leiðarljósi. Það eru ekki bara sjálfstæðismenn og Sjálfstfl. hér heldur eru það líka repúblikanarnir í Bandaríkjunum sem eru hans leiðarljós eftir því sem mér heyrist. Hvernig er það í Bandaríkjunum? Við flytjum út ferskan fisk þar. Það er ekkert gert annað en að stimpla. Það eru fluttar út fisktegundir til Bandaríkjanna af útflytjendum hér. Það er hins vegar í sambandi við ákveðna tegund af fiski sem er flutt úf af ákveðnum aðilum að menn telja skynsamlegra að haga hlutunum með þeim hætti sem þar er gert.

Við verðum að gera okkur grein fyrir því að við erum að ræða hér um mikið hagsmunamál þegar um er að ræða útflutning. Þó að það sé ósköp eðlilegt að menn skipti um skoðun hafa engar forsendur breyst í þessum málum frá því að þessi reglugerð var gefin út nema að það sé hugarfarsbreyting hjá þm. sem flytja þessa till.

Í dag er hægt að flytja út og það þarf engu að breyta til að gera þá hluti sem hv. þm. talar um. Það eina sem hér er gert ráð fyrir er að hið opinbera geti haft eftirlit með því að útflutningnum sé hagað þannig að það sé þjóðarbúinu fyrir bestu. Það er allt og sumt.

Við skulum átta okkur á því að framleiðendurnir eru ekki í sínum samtökum bara svona upp á grín, þeir eru það vegna þess að þeir telja hag sínum betur borgið. Við skulum gera okkur grein fyrir því að Sölusamband ísl. fiskframleiðenda er ekki stofnað 1932 bara upp á punt. Menn áttuðu sig á því að þau undirboð sem þá voru á erlendum mörkuðum ástunduð af íslenskum framleiðendum voru engum til góðs. Þetta er mergurinn málsins.

Hér kom hv. 2. þm. Reykn. inn á ákveðin mál sem eru ekki hvað þýðingarminnst í sambandi við útflutning, þ. e. breytingar á málefnum banka og gjaldeyrismála. Þar hafa verið gerðar ýmsar breytingar og er enn verið að gera og munu verða gerðar einmitt til að lagtæra í sambandi við útflutninginn. Hv. 4. þm. Vesturl. kom með dæmi þar um varðandi útflutning og fyrirgreiðslu í sambandi við banka á s. l. ári.

Ég held að það sé miklu skynsamlegra fyrir okkur að reyna að einbeita okkur að því að koma þeirri vöru, sem við framleiðum, á markaði, vinna markaði. En um leið og við höfum unnið þá skulum við ekki haga okkur þannig að þeir stórskemmist.

Hér kom hv. 8. þm. Reykv. Stefán Benediktsson og gaf í skyn umsagnaraðild samtaka framleiðenda. Það er alrangt, það kannast ég ekki við og ég veit að mínir forverar í viðskrn. kannast ekki við það heldur.

Í upphafi ræðu hv. 6. þm. Reykv. sagðist hann hafa haft fregnir af því að ég hafi talað gegn frelsi á landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Hann orðaði það svo að ég hefði gert það líka í ræðu minni hér áðan. Honum hefur verið sagt rangt til ef það hefur verið gert því að það var einmitt ekki svo að ég talaði gegn frelsi í útflutningi, ég benti einmitt á að ég hefði aukið frelsi í útflutningi. Iðnaðarvörurnar voru ekki frjálsar þegar hv. 3. þm. Reykn. var viðskrh. en þær eru frjálsar í dag. Ég vil eins mikið frelsi í útflutningi og mögulegt er. Ég er alveg sammála hv. þm. Þegar hann lauk sínu máli var hann kominn að nákvæmlega sömu niðurstöðu og ég í minni ræðu, að við skyldum hafa eins mikið frelsi og við gætum, það væri ekki skynsamlegt að hafa þetta galopið og við yrðum að hafa eftirlit. Þetta er akkúrat sú niðurstaða sem ég komst að í minni ræðu. Mér fannst hins vegar rétt, þar sem við vorum að ræða útflutningsmál og gagnrýni á það sem sumir kalla einokunarhringi, þ. e. samtök framleiðenda, að vekja athygli á hvernig þeir óska eftir því að þessum málum sé hagað. Ég tel að þar hafi verið unnið mjög gott verk sem okkur ber að virða, ekki bara vegna þess að það hafi verið unnið heldur að það hefur skilað okkur árangri og skilar okkur árangri í dag.

Við eigum tvímælalaust að haga okkar útflutningi þannig að það skili þjóðarbúinu sem bestum árangri. Ef við virðum fyrir okkur hinar ýmsu vörutegundir í sjávarafurðum sem seldar eru þá er þetta með nokkuð mismunandi hætti. Það hefur verið vikið að síldinni, skreiðinni, saltfiski, ferskum fiski og það hefur verið vikið að frystum fiski. Þetta er nokkuð sitt með hverjum hætti og á hverjum stað er það eins og menn hafa talið skynsamlegast. Eins og hv. 6. þm. Reykv. sagði — og ég er honum sammála — gerist það ekki öðruvísi en að haft verði eftirlit. En með samþykkt á þessari till., sem hér er til umr., yrði það ekki gert. Ég er sannfærður um að það er ekki það sem þeir vilja sem vilja eins mikið frelsi og mögulegt er, þeir vilja það með þeim hætti að skynsamlegt eftirlit til að tryggja hagsmuni þjóðarbúsins verði viðhaft.