22.04.1985
Neðri deild: 59. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4449 í B-deild Alþingistíðinda. (3726)

423. mál, viðskiptabankar

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svör sem hann gaf. Ég bar hér fram fsp. um ein 20, 30 atriði úr þessu frv. Sumu hefur hann svarað, öðru ætlar hann að svara síðar eða leggja svörin fyrir nefndina og við því er í sjálfu sér ekkert að segja. Ég á sæti í þeirri nefnd sem fjallar um málið þannig að þar fæ ég aðstöðu til að meta þessa hluti og aðrir nm. og síðan deildin áfram þegar málið kemur hingað aftur.

Ég vil aðeins segja þrennt núna. Í fyrsta lagi: Ég tel að það eigi ekki að bíða eftir niðurstöðum nefndar eða Baldurs Möllers eða nokkurs annars aðila varðandi heildarúttekt á kjörum bankastjóra. Ég tel að það sé mál sem eigi að afgreiða samhliða þessu máli og fjh.- og viðskn. eigi með sjálfstæðum hætti að taka afstöðu til þess. Ég tel að þetta mál sé þannig vaxið að eðlilegt sé að Alþingi taki afstöðu en ekki verði beðið eftir einhverri úttekt utan úr bæ.

Í öðru lagi er eitt atriði sem ég vil hér halda til haga. Það er þetta: Skv. frv. er mögulegt að mismuna viðskiptamönnum bankanna í vöxtum, jafnvel innan sömu lánastofnana. Það er ekkert sem hindrar það. Ég tel að það sé afar hættulegt. Jafnvel þó að menn séu á þessari leið hinna svokölluðu frjálsu vaxta held ég að menn hljóti að sjá hvað getur verið hættulegt að skapa möguleika fyrir mismunun í vöxtum gagnvart einstökum viðskiptamönnum.

Í síðasta lagi vil ég segja við hæstv. ráðh.: Það sem ég setti hér fram voru rökstuddar skoðanir. Ráðherra mótmælti ekki þeim rökum þó að hann mótmælti skoðunum. Og meðan hann mótmælir ekki rökunum sem ég flutti hér áðan þá standa skoðanirnar. Hann gerði enga tilraun til að flytja gagnrök af sinni hálfu og að því leytinu til voru svör hans ekki fullnægjandi en verða það vonandi í næstu lotu.