23.04.1985
Sameinað þing: 73. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4492 í B-deild Alþingistíðinda. (3767)

380. mál, búnaður bandaríska herliðsins í stöðvum Landsímans

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Það er víst venja að fyrirspyrjendur gangi hingað upp í ræðustól og þakki fyrir þau svör sem þeir hafa móttekið af hálfu hæstv. ráðh. Ekki ætla ég að brjóta þá þinglegu hefð hér. En ég verð nú að segja að ósköp fannst mér ég eiga lítið erindi hingað upp í þeim tilgangi. Mér fannst ég hafa fyrir lítið að þakka. Lítið en þó var það eitthvað. Ég sakna nú hæstv. utanrrh. því að ekki fundust mér svör hæstv. samgrh. í fullu samræmi við þau ummæli sem hann lét falla um þennan búnað á þeim fundi sem ég hef hér áður vitnað til. Ég skildi orð hans svo að slíkur búnaður væri á fleiri stöðum en einum á landinu. Einnig er hugsanlegt að hæstv. utanrrh. hefði verið örlítið fróðari um það hvaða tilgangi þessi búnaður þjónar og hvað hann er að gera þarna.

En það þarf kannske ekki að fjölyrða meira um þetta, herra forseti, úr því að svörin eru svona stutt og snubbótt og samgrh. hefur ekki meira um þetta að segja. Það er þá ágætt að það liggi fyrir að þetta er allt og sumt sem þeir kjósa að upplýsa hv. Alþingi og þjóðina um í þessu sambandi. En ég hygg að við fáum kannske meira að frétta af þessu máli ef sú stefna stjórnvalda sem ég lýsti hér eftir, spurði hvort rétt væri, á að ganga fram á næstu mánuðum eins og ýmislegt bendir nú til. Þá verður þetta væntanlega oftar til umræðu, m. a. hér á hv. Alþingi. En engu að síður liggur það fyrir eftir þessi svör að slíkur búnaður er fyrir hendi, hann er í stöðvum eða stöð Landssímans, a. m. k. á einum stað á landinu. Þá vitum við það. Þar með liggur það fyrir að borgaraleg stofnun eins og Landssíminn er tekin að þjóna að hluta til hernaðarlegum tilgangi. Hún byggir yfir starfsemi hersins og hún þjónustar hann, veitir honum orku o. s. frv. Út af fyrir sig get ég þakkað samgrh. í það minnsta fyrir að hafa gefið þá staðfestingu hér.

Ég þarf ekki að endurtaka það að ég er algjörlega ósammála því að svona sé að málunum staðið og mótmæli harðlega þeirri tengingu opinberra stofnana þjóðarinnar við hernaðarleg umsvif sem hér hefur átt sér stað og virðist eiga að eiga sér stað í vaxandi mæli.