23.04.1985
Sameinað þing: 73. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4511 í B-deild Alþingistíðinda. (3800)

402. mál, lögreglustöð í Garðabæ

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Hv. 2. þm. Reykn. hefur borið fram fsp. á þskj. 651 um lögregluvarðstöð í Garðabæ.

Á síðasta ári ákvað dómsmrn. að gera úttekt á löggæslu á höfuðborgarsvæðinu öllu og athuga hvort unnt væri að auka hagkvæmni í starfsemi lögreglunnar. Fjárlaga- og hagsýslustofnun hóf undirbúning að því starfi á s. l. hausti og hefur unnið að því síðan, en þar til viðbótar hefur verið fengið norskt ráðgjafarfyrirtæki til að vera til aðstoðar. Þetta fyrirtæki hefur unnið á síðustu árum að leiðbeiningum og skipulagningu á lögreglumálum víða í Noregi og fengið viðurkenningu fyrir góðan árangur á því sviði. Það er áætlað að þessu starfi verði lokið síðla sumars eða í haust, í októbermánuði, og ættu þá að liggja fyrir niðurstöður með tillögum um hvernig hagkvæmast væri að koma fyrir löggæslumálum á öllu þessu svæði.

Á meðan þessi athugun stendur yfir og fyrr en henni er lokið er rn. ekki reiðubúið að svara því hvort nauðsynlegt verður talið að setja upp lögregluvarðstöð í Garðabæ.

Hins vegar vil ég geta þess að nú er unnið að því að byggja upp nýja lögreglustöð í Hafnarfirði sem sinni löggæslu í Garðabæ eins og fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda. Þessi nýja lögreglustöð liggur við Kaplakrika og þar með styttist mjög leiðin í Garðabæ og verður greiðari. Þegar því verki er lokið ætti nokkuð að batna aðstaðan fyrir löggæslu í Garðabæ af þeim sökum. En þegar niðurstaða skýrslunnar, sem ég gat um, liggur fyrir mun verða hægt að svara því hvort talið verður ráðlegt að opna sérstaka lögregluvarðstöð í Garðabæ eða á hvern hátt annan verður talið heppilegast, bæði með tilliti til hagkvæmni og þjónustu, að leysa þessi mál í framtíðinni.