30.04.1985
Sameinað þing: 76. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4611 í B-deild Alþingistíðinda. (3902)

411. mál, hvalveiðar

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Það var nú í tilefni af ræðu hv. síðasta ræðumanns sem mig langaði að leggja örfá orð í belg. Það er að mínu mati, og ég held að það sé rétt mat, ekki svo að við höfum fórnað nokkrum minnsta rétti með því að mótmæla ekki þessari ákvörðun Alþjóðahvalveiðiráðsins. Ég hef lagt mig mjög fram um að kynna mér það mál, gerði það í hitteðfyrra, var að því alllengi. Það er mjög flókið að kynna sér öll þau mál frá 1946 þegar sáttmálinn var samþykktur 2. desember. En við höfum engum rétti glatað með því að mótmæla ekki. Ef þau ríki sem mótmæltu ættu að fá að veiða eitthvað áfram yrðu 3/4 í hvalveiðiráðinu að samþykkja það. Ef við hins vegar, sem ekki mótmæltum, sæktum um veiðar áfram undir vísindalegu eftirliti þarf einfaldan meiri hluta til þess skv. gildandi reglum að taka mál okkar fyrir. Að vísu eru þetta fornar reglur og allt aðrir tímar í dag. Og það er því miður ekki svo einfalt að við getum tekið þessi mál í okkar hendur.

Það er rétt að við getum sagt okkur úr Alþjóðahvalveiðiráðinu með sex mánaða fyrirvara og kannske eigum við að gera það, en það þýðir ekki að það komi ekki eitthvert annað ráð. Raunar eru langstrangastar reglur í Hafréttarsáttmálanum einmitt um hvali, miklu strangari en um nokkur önnur dýr sjávarins. Það er t. d. algjör skylda að mynda svæðasamtök til þess að vernda hvalinn eftir þeim hafréttarsáttmála sem við höfum barist fyrir og við höfum unnið alla okkar sigra á grundvelli hans eins og allir hér vita. Málið er þess vegna alls ekki einfalt, það er þvert á móti mjög flókið. Og ég bið menn sérstaklega að varast að halda því fram, opinberlega a. m. k., að við höfum glatað einhverjum rétti. Við höfum engum rétti glatað, það er alveg öruggt mál. Ég held að við höfum haldið hyggilega á málum og ég held að hæstv. sjútvrh. geri það nú.